fbpx
Miðvikudagur 14.ágúst 2024

Í leit að sveppaskýi samtímans

Kristján Guðjónsson
Mánudaginn 15. maí 2017 21:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Við þurfum að reyna að skilja fagurfræði þeirrar upplýsingabyltingar sem er að eiga sér stað. Ef við líkjum þessu við atómöldina þá var kjarnorkan farin að hafa rosaleg áhrif þegar hún var enn bara fræðileg kenning, hugmynd eðlisfræðinga, en almenningur fór ekki að átta sig á þessu fyrir en hann sá myndirnar af sveppaskýinu. Þetta varð stóra sögnin á 20. öldinni. Táknin og sögurnar skipta svo miklu máli. Við erum hins vegar ekki enn komin að sveppaskýi upplýsingaaldarinnar – en helst myndum við náttúrlega vilja sjá það áður en það leiðir til einhverrar tortímingar,“ segir Bergur Ebbi Benediktsson, sem gaf á dögunum út bókina Stofuhiti – ritgerð um samtímann, þar sem hann veltir fyrir sér þeim breytingum á hugsun, samfélagi og menningu sem aðgangur að sítengingu og næstum því óendanlegu stafrænu rými hefur í för með sér í samfélögum nútímans.

Blaðamaður DV hitti Berg Ebba í Kringlunni og spjallaði við hann um gagnamagn, samrými og mikilvægi fagurfræðinnar til að skilja samtímann.

Nánd í stafrænu rými

Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

Nýja bókin þín virðist vera unnin út frá þeirri grunnhugmynd að aðgangur að sítengingu og næstum því óendanlegu stafrænu rými sé að breyta því hvernig við hugsum og lifum, breyta samfélaginu okkar og menningu. Getur þú nefnt dæmi um slíkar breytingar?

„Já, ég hef fyrst og fremst verið að skoða þetta út frá einstaklingnum. Ein stóra þversögnin í nútímanum er að þessi sítengingar- og samfélagsmiðlakúltúr blæs upp og leggur sérstaklega mikla áherslu á einstaklinginn. Þú ert með þitt pláss, þinn prófíl, þínar skoðanir, þína rödd og það er þín persónulega upplifun og reynsla sem er álitin trompa allt. En á sama tíma máir þessi kúltúr einstaklinginn út að ákveðnu leyti. Við erum byrjuð að úthýsa svo mikið af hugsunum okkar og sjálfsmynd. Með því á ég við að ef við kaupum okkur eitthvað nýtt, skiptum um hárgreiðslu eða eitthvað álíka þá verðum við ekki fullkomlega sátt við okkur fyrr en við erum búin að taka mynd, pósta á netið og fjöldinn er búinn að samþykkja það. Kannski virkar þetta hálfglatað, algjör hégómi og narsissismi, en ég tel að í þessu geti líka falist ákveðin hógværð. Mér finnst ég sjá alveg jafn mikla samhygð og „empatíu“ í þessum kúltúr. Það er ákveðin fegurð í því að við séum hópsálir. Það að upphefja einstaklinginn er ekkert endilega það besta sem mannkynið getur gert og ekkert endilega leiðin að frelsinu. Því fylgir líka mikið álag.“

Eitt af því sem þú ert að fjalla um í bókinni er hvernig það þegar svo til allir eru tengdir stöðugt inn í sama stafræna rýmið skapi einhvers konar nýja nánd. Þegar ég las þetta varð mér stundum hugsað til þess hvernig „sam-tíminn“ varð til á 19. öldinni. Gufulestirnar komu fram og þá gat fólk í fyrsta skipti ferðast langar leiðir á tiltölulega stuttum tíma. Í kjölfarið varð nauðsynlegt að samræma og samstilla klukkur í mismunandi bæjum í Bretlandi. Þá varð til algjörlega nýtt ástand þar sem líf fólks var skipulagt eftir nákvæmum og sameiginlegum tíma. Það sem þú virðist vera að lýsa er upphaf einhvers konar „sam-rýmis“, þar sem lifandi einstaklingar á mismunandi stöðum og raunar allar upplýsingar netsins frá mismunandi tímum, lifa og hrærast í sama stafræna rýminu.

„Já, þetta er góð leið til að ramma þetta inn. Það er mjög áhugavert að fylgjast með því þegar heimurinn í heild upplifir einhvern viðburð í sameiningu. Dæmið sem ég tek í bókinni er af því þegar poppstjörnur deyja á netinu. Við getum hugsað um Steve Jobs – sem var eiginlega eins og Messías fyrir ákveðinn hóp – eða kannski enn frekar Michael Jackson. Í tilviki Jacksons voru gerð upp mjög erfið siðferðileg mál á ótrúlega stuttum tíma, svolítið eins og þegar mikill patríark í fjölskyldu deyr. Þegar poppstjarna deyr blandast líka saman persónuleg reynsla einstaklinga, allir eru að taka þátt í sama samtalinu en með sínu persónulega „touch-i“, fólk deilir uppáhaldslaginu sínu með tónlistarmanninum og tekur þannig þátt í samtalinu. Þessi nánd og samrými finnst mér mjög heillandi þó það geti líka verið svolítið ógnvænlegt, enda vill maður líka að heimurinn sé svolítið leyndardómsfullur.

Það er auðvitað vel þess virði að pæla í þessu en þetta er samt ekkert nýtt. Menn eru búnir að vera að hugsa um þetta í meira en hálfa öld, Marshall McLuhan kallaði þetta til dæmis heimsþorpið þegar hann var að fjalla um sjónvarpið. Hann sá svo nánast fyrir internetið og velti fyrir sér hvort einstaklingurinn og friðhelgi hans myndi hverfa. Menn hafa verið að spá fyrir um þetta – en oftast hefur þetta verið svolítið dystópísk sýn. Nú erum við komin á þennan stað og þá hefur þetta bara sína kosti og galla.“

Í dag tekst allur heimurinn á við sorg og uppgjör í sameiningu á netinu, til dæmis þegar poppstjörnur deyja.
Syrgjum saman á netinu Í dag tekst allur heimurinn á við sorg og uppgjör í sameiningu á netinu, til dæmis þegar poppstjörnur deyja.

Mynd: AFP

Ekkert mun gleymast framar

En ef við hugsum ekki bara um samskiptin heldur líka hvernig við sem einstaklingar móttökum allar þessa upplýsingar sem birtast okkur. Hvernig sýnist þér þetta breytast með þessu óendanlega magni og stöðugu tengingu?

„Eitt augljóst dæmi er hvernig minnið breytist. Sýnt hefur verið fram á það með sálfræðirannsóknum að þegar við tökum myndir af hlutum og geymum þannig þá munum við þá öðruvísi. Það verður því mjög áhugavert að sjá hvernig þeir sem eru börn í dag, einstaklingar sem eiga allt sitt líf skrásett í myndum og myndskeiðum, muni upplifa líf sitt, tíma, þroska og sjálfsmynd. Ég held að það þurfi ekki neinar klínískar rannsóknir til að sjá að þetta muni hafa mikil áhrif.

Þetta hefur líka mikil áhrif á það hvernig við lærum og mun hafa áhrif á menntastofnanir. Það er ekki lengur neinn tilgangur í því að vera „besserwisser“ og að geta trompað með einhverri staðreynd – það geta það allir. Yfir það heila held ég að það sé orðin meiri eftirspurn eftir einhvers konar úrvinnslu á öllum þessum upplýsingum. Kannski er það einmitt það sem mig langaði að gera með þessari bók. Þarna eru ekki endilega alveg nýjar pælingar en þetta er úrvinnsla á öllu því sem hefur verið að skella á manni undanfarin ár og þarna er búið til eitthvert samhengi,“ segir Bergur, en bókina segir hann byggja á ýmsum hugmyndum sem hafa sprottið upp í pistlaskrifum á undanförnum áratug en einnig byggi hún að einhverju leyti á þeim fræðilega grunni lokaritgerðar hans í mastersnámi í framtíðarfræðum í Toronto í Kanada, en hún fjallaði um ljóðrænu gagna, eða það sem hefur verið kallað Big Data.

Ein þeirra kenninga sem mér fannst hvað óvæntust – sem ég hafði að minnsta kosti ekki rekist á eða velt fyrir mér áður – var að þú telur að í dag sé að skapast ákveðið ógleymisástand vegna þess að öll gögn geymast og verða alltaf ínáanleg. Þú stingur upp á því að þetta sé andstæða við það óminnisástand sem einkennir oft endalok bæði einstaklinga – það er að segja elliglöp – og heimsvelda – þar sem undir lok blómatíma samfélagsins eru borgararnir farnir að gleyma upphafi veldisins og sameiginlegum markmiðum og þar með leysist samfélagið upp í siðferðisfalli. En ógleymisástand samtímans leiði þvert á móti til einhvers konar siðferðisbólgu.

„Já, þetta er kannski ekki rökstuddasta kenningin sem ég set fram í bókinni, en þetta tengist því hvernig allt sem maður gerir er skrásett, ef maður gerir eitthvað af sér þá fylgir það manni í stafræna fótsporinu sem maður skilur eftir sig. Við getum engu gleymt. Ég held að við þurfum að hugsa fyrirgefninguna upp á nýtt núna þegar það er hægt að grafa allt upp. Fyrirgefningin hefur alltaf verið nauðsynleg en ég held að stóra áskorun næstu áratugina sé að verða duglegri að fyrirgefa.

Ég velti sem sagt fyrir mér hvort það sé ákveðin siðferðisbólga í gangi. Við hengjum að minnsta kosti siðferðislegan merkimiða á mun fleiri hluti en við þurfum. Þetta sést líka í neyslukúltúrnum okkar. Við viljum kaupa fair trade-kaffi og kaupa neysluvörur sem stuðla að umhverfisvernd og svo framvegis. En ég held að við séum að miklu leyti búin að missa tilfinninguna fyrir umhverfisvernd, einmitt af því að það virðast felast siðferðilegar spurningar í hverri einustu ákvörðun okkar og öllu því sem við gerum. Við eru hætt að sjá skóginn fyrir trjám.“

Dulin áhrif fagurfræðinnar

Þú segir það berum orðum að markmið bókarinnar sé að sannfæra lesendur um að gefa fagurfræði meiri gaum, enda skipti hún mun meira máli í samtímanum en fólk vill vera láta – hvað áttu við með þessu?

„Þarna nota ég fagurfræði um tákn, sögur, ákveðinn stílfræðilegan strúktúr, komposition sem er allt í kringum okkur. Ég alveg sannfærður um að þetta hafi gríðarlega mikil áhrif á okkur og trompi raunar allt annað. Þegar fólk er til dæmis að reyna að skilja af hverju Donald Trump vann bandarísku forsetakosningarnar, þá finnst mér það svolítið fyndið þegar það byrjar að sökkva sér ofan í skoðanakannanir til að reyna að skilja þetta. Tökum eitt skref aftur og skoðum þetta. Þarna er maður sem býr á efstu hæð í gylltum turni sem hann byggði sjálfur, maður með gullhár sem kemur og tekur konungsdæmið. Þetta er bara eins og biblíusaga eða ævintýri, 4000 ára gömul dæmisaga. Eigum við ekki fyrst að reyna að ná utan um þetta áður en við förum í smáatriðin? Við þurfum að gera okkur grein fyrir þessu. Ég vil nefnilega ekki að bara vondu karlarnir noti fagurfræðina og táknin. Í kosningabaráttunni var Hillary Clinton bara í pólitík eins og fagurfræði skipti engu máli,“ segir Bergur Ebbi og samsinnir því að það sé nauðsynlegt að við gerum okkur grein fyrir því almenna aðdráttarafli sem tiltekin fagurfræði, sögur tákn og myndir, hafa á hverjum tíma.

„Niðurstaðan mín er að í dag hafi almenn afstæðishyggja um fagurfræði orðið ofan á í samfélaginu, persónuleg reynsla er álitin trompa allt annað þegar við hugsum um fagurfræði. Ef að þér finnst bíómynd góð þá skiptir ekki máli hvort hún fái góða dóma. Í sjálfur sér er þetta gott og skiljanlegt, því allt of lengi hefur fólk lifað við að það séu einhverjir fagurkerar sem ákveði hvað sé fallegt. En það sem hefur böggað mig við þetta er að kúltúrinn tekur þetta stundum svo langt að það að einhver upplifi eitthvað er álitið útiloka það að einhver annar upplifi það sama – „enginn getur skilið mínar upplifanir.“ En þegar mann dreymir eitthvað, þegar maður fær hugmynd, eða þegar manni finnst eitthvað fallegt, þá á maður ekki að útiloka að einhverjum öðrum finnist það líka fallegt. Þá er samhygðin farin að virka öfugt.“

Bergur Ebbi segir alla fagurfræðina í kringum Donald Trump minna á biblíusögu eða ævintýri.
Gullsleginn kóngur Bergur Ebbi segir alla fagurfræðina í kringum Donald Trump minna á biblíusögu eða ævintýri.

Haf, ský, þoka eða stofuhiti

Þú heldur því fram að þeir stóru kraftar sem fylgja upplýsingabyltingunni hafi ekki enn myndgerst í samvitund fólks á sama hátt og kjarnorkubyltingin myndgerðist í sveppaskýi kjarnorkusprengjunnar og vofði síðan yfir almenningi næstu áratugina og mótaði ótta þeirra og drauma. Þangað til sveppaskýið birtist okkur þurfum við hins vegar að reyna að finna nýjar líkingar til að skilja stöðu okkar í heiminum. Ein þeirra líkinga sem þú notar yfir tilvistarástand fólks í dag og er gegnumgangandi í bókinni er hugtakið „stofuhiti“. En af hverju lýsir þetta ástandi okkar í samtímanum?

„Við lýsum heiminum alltaf með líkingum. Við gleymum því til dæmis oft að internetið er líking. Við líkjum ákveðnum hlut við net, sem er efnislegur eða hugmyndafræðilegur hlutur. Það er ekkert að þessu – internetið er raunar alveg brilljant líking. Við tölum líka um upplýsingahaf, en það finnst mér svolítið úrelt pæling. Með því hugsum við okkur ákveðið magn, alveg gríðarlegt magn en samt tiltekið magn og við sjáum fyrir okkur að við getum farið upp úr á þurrt land eða verið ofan í þessu hafi. Ég hugsa hins vegar að það sé betra að hugsa sér þetta ástand sítengingar og gagnasöfnunar sem einhvers konar móðu, þoku eða eitthvað gufukennt dót – það er úti um allt og það er bara hálfáþreifanlegt, það sameinar okkur en byrgir okkur líka sýn, Það er áhugavert hvernig upplýsingatækniiðnaðurinn er líka farinn að tala um þetta svona, farinn úr einhvers konar geim – „vortex of space“ – fagurfræði yfir í það að tala um ský. Auðvitað vilja þau láta þetta líta svolítið betur út, tala um að geyma hluti í skýinu frekar en þokunni. Skýið er svo fallegt og er langt fyrir ofan okkur. Mig langaði að taka þetta enn lengra og fór að nefna þetta ástand „stofuhiti“. Í eðli sínu er stofuhiti rosalega margt, það er málamiðlun margra ólíkra hitastiga, þetta eru kjöraðstæður en samt er eitthvað þrúgandi við hugtakið, smá innilokunarfílingur en samt er pottþétt gott útsýni, þetta er gott hitastig en þú vilt samt ekki alltaf vera svona.“

Með hugtakinu ertu að reyna að myndgera þetta ástand sem við lifum við til að gera okkur betur grein fyrir því. Ef ég skil þig rétt þá er þetta einmitt hlutverk samfélagsrýna og listamanna, að skapa ný hugtök og nýjar myndir sem gera okkur grein fyrir ástandi okkar?

„Ekki spurning. Þetta er það sem skáldin hafa gert. „A Hard Rain’s a-Gonna Fall“ eftir Bob Dylan er bara biblísk saga óttans árið 1962, heimsendalegt en órætt, fólk skynjaði þetta bara. Ég ætla ekki að segja að skáldin hafi verið eitthvað betri þá en ég held að skáld nútímans eigi enn eftir að finna sitt hljóðfæri. Það fattaði til dæmis enginn að rafmagnsgítarinn myndi spila slíkt hlutverk þegar hann kom fyrst fram, þá var hann bara kallaður steikarpannan. En þetta var hljóðfærið sem spilaði inn í bjögunina á þeim tíma. „Narratíf“ hvers tíma semur sig sjálft en listamenn opinbera okkur það. Í Bandaríkjunum í dag vantar til dæmis þess konar skáld. Það er kannski helst að mér sýnist grínistarnir séu með þetta í Ameríku í dag.“

Þannig að spurningin er hvort listamennirnir munu geta sýnt okkur sveppaský upplýsingabyltingarinnar áður en hamfarirnar eiga sér stað?

„Já, en kannski verða þetta ekki hefðbundnar hamfarir. Kannski verður þetta frekar eitthvað í líkingu við kjarnorkuna – fyrst og fremst tákn sem við lifum undir. Kannski eru helstu hamfarir sem við getum ímyndað okkur núna einhvers konar risastór gagnaleki sem hefði áhrif á allan almenning. Við skynjum þessa ógn, en sjáum þetta ekki beint. Fjölmiðlar flytja jú fréttir af gagnalekum og eflaust eru einhverjir listamenn að semja um gagnaleka en það hefur ekki beint náð í gegn.“

Frekar en upplýsingahaf segir Bergur Ebbi gagnlegra að hugsa ástand sítengingar og gagnasöfnunar sem einhvers konar gufu eða þoku. Myndin er af þokuverki japanska listamannsins Fujiko Nakaya fyrir utan Tate-nútímalistasafnið í London.
Þoka Frekar en upplýsingahaf segir Bergur Ebbi gagnlegra að hugsa ástand sítengingar og gagnasöfnunar sem einhvers konar gufu eða þoku. Myndin er af þokuverki japanska listamannsins Fujiko Nakaya fyrir utan Tate-nútímalistasafnið í London.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 4 klukkutímum

Love Island-par hætt saman – „Mér hefði aldrei dottið í hug að saga okkar myndi enda, sérstaklega með þessum hætti“

Love Island-par hætt saman – „Mér hefði aldrei dottið í hug að saga okkar myndi enda, sérstaklega með þessum hætti“
Eyjan
Fyrir 4 klukkutímum

Ólga vegna gjaldskráa á Akureyri – „Ef þeir taka ekki þátt í þessu gefur það auga leið að samningar munu losna“

Ólga vegna gjaldskráa á Akureyri – „Ef þeir taka ekki þátt í þessu gefur það auga leið að samningar munu losna“
Fréttir
Fyrir 5 klukkutímum

Kona vann dómsmál gegn Selfossveitum – Borgaði aðeins helming heitavatnsreikningsins vegna þess að henni þótti vatnið of kalt

Kona vann dómsmál gegn Selfossveitum – Borgaði aðeins helming heitavatnsreikningsins vegna þess að henni þótti vatnið of kalt
Pressan
Fyrir 6 klukkutímum

Trump útskýrir hvers vegna hann hljómaði furðulega í viðtalinu við Musk

Trump útskýrir hvers vegna hann hljómaði furðulega í viðtalinu við Musk
Fréttir
Fyrir 7 klukkutímum

Þrjóska Úlfgríms bjargaði Margréti úr eldsvoðanum í gær

Þrjóska Úlfgríms bjargaði Margréti úr eldsvoðanum í gær
433Sport
Fyrir 7 klukkutímum

Bruno búinn að skrifa undir og verður sá launahæsti hjá United

Bruno búinn að skrifa undir og verður sá launahæsti hjá United
Eyjan
Fyrir 8 klukkutímum

Segir Sjálfstæðisflokkinn ætla að sprengja ríkistjórnina og láta kjósa með skömmum fyrirvara

Segir Sjálfstæðisflokkinn ætla að sprengja ríkistjórnina og láta kjósa með skömmum fyrirvara
433Sport
Fyrir 8 klukkutímum

Fullyrt að United sé á fullu í viðræðum um leikmann sem Ten Hag elskar

Fullyrt að United sé á fullu í viðræðum um leikmann sem Ten Hag elskar