Bandaríski leikarinn Shia LaBeouf hefur verið krafinn um fimm milljónir Bandaríkjadala, eða um hálfan milljarð íslenskra króna, vegna atviks sem varð á veitingastað í Los Angeles í aprílmánuði.
Málið vakti talsverða athygli á sínum tíma enda náðist það á myndband þegar leikarinn öskraði ókvæðisorðum að barþjóninum.
Forsaga málsins er sú að LaBeouf fór út að borða og skemmta sér á stað sem heitir Jerry‘s Famous Deli. Með í för var eiginkona leikarans, Mia Goth. Barþjónninn David Bernstein neitaði að gefa hjónunum meira áfengi og það fór mjög fyrir brjóstið á leikaranum.
Myndband af atvikinu var birt á vef TMZ eftir að það kom upp en á því má heyra LaBeouf meðal annars kalla barþjóninn „helvítis rasista“ áður en hann barði hnefanum í borðið. Það virðist hafa verið nóg til þess að barþjónninn, Bernstein, ákvað að stefna leikaranum og krefja hann um greiðslu fimm milljóna Bandaríkjadala.
Bernstein óttaðist að LaBeouf myndi ganga í skrokk á sér og segir í stefnunni að atvikið hafi fengið mikið á hann. Hann þjáist af kvíða og ótta og þá hafi hann verið hafður að háði og spotti á samfélagsmiðlum. Lögmaður leikarans hefur hafnað bótakröfunni.