fbpx
Þriðjudagur 26.nóvember 2024
Eyjan

Kerfisfræðingur segir Neytendasamtökin með allt niður um sig varðandi smálánin: „Þarf ekki að endurreikna neitt“

Ritstjórn Eyjunnar
Föstudaginn 26. júlí 2019 21:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Guðmundur Ásgeirsson, kerfisfræðingur, skrifar um viðbrögð Neytendasamtakanna við fregnum þess efnis að smálánafyrirtæki hyggist lækka vexti sína og starfa innan ramma laganna. Segir hann ekki allt sem sýnist í þeim efnum og segir hann fagnaðarlætin ótímabær, þar sem ekki liggi fyrir hvort fyrirtækin hyggist aðeins fara eftir íslenskum lögum, eða þeim dönsku, sem þau hafa starfað eftir hingað til:

„Nú hafa svokölluð smálánafyrirtæki ákveðið að hætta að sniðganga íslensk lög með því að leggja ólöglega háan kostnað á slík lán. Reyndar fylgir ekki sögunni hvort þau ætli einnig að hætta að sniðganga dönsk lög sem þau segjast starfa eftir, en samkvæmt dönskum lögum er skilyrði að 48 klukkustundir líði frá lánsumsókn áður en lánveiting er staðfest.

Þessari frétt var m.a. slegið upp í Fréttablaðinu í dag undir fyrirsögninni: „Smálán heyra nú sögunni til„. Sú framsetning er mjög villandi því þessi fyrirtæki eru alls ekki hætt að veita smálán, heldur hafa þau látið undan gagnrýni á ólöglega háan kostnað og ákveðið að lækka hann niður að löglegum mörkum, sem jafngilda nú 53,75% ársávöxtun samkvæmt íslenskum lögum. Smálán munu því áfram bjóðast á þeim kjörum og þó þau séu innan löglegra marka eru þetta samt dýrustu lán sem bjóðast.

Fagnaðarlæti eru ótímabær fyrr en staðreynt hefur verið hvort umrædd fyrirtæki muni standa við þessar yfirlýsingar. Sporin hræða því á meðan íslensk fyrirtæki störfuðu undir sömu vörumerkjum og eru nú í eigu Kredia Group, héldu þau því ítrekað fram að lánakjör væru innan löglegra marka en bjuggu jafnframt til dulbúinn aukakostnað á lánin sem var margfalt umfram lögleg mörk og hunsuðu alla úrskurði um að þeim væri það óheimilt.“

Neytendasamtökin misskilji málið

Guðmundur segir að Neytendasamtökin misskilji málið og bendir á tilkynningu samtakanna hvar segir:

„Stjórnvöld verða að tryggja að nú þegar fari fram endurútreikningur á öllum lánum af hálfu hlutlauss aðila eins og umboðsmanns skuldara. …“

Nefnir Guðmundur að Hagsmunasamtök heimilanna séu betur til þess fallin að veita aðstoð en Umboðsmaður skuldara:

„Það sem Neytendasamtökin virðast misskilja er að umboðsmaður skuldara er ekki gjaldfrjáls lögfræðiþjónusta eða réttindagæsluaðili fyrir skuldara, heldur hefur embættið milligöngu um að koma á nauðasamningum við kröfuhafa. Að semja um að greiða kröfur er alls ekki það sama og að hnekkja þeim sem ólöglegum og fella þær niður. Ótal margir hafa leitað til umboðsmanns skuldara með slíkar hugmyndir í von um að embættið myndi aðstoða við að fella niður ólöglegar kröfur, en komist að því að slík þjónusta er einfaldlega ekki í boði þar. Fyrir utan örfáa lögmenn er aðeins einn hlutlaus aðili hér á landi sem býður upp á aðstoð við slíkt: Hagsmunasamtök heimilanna.

Endurreikningur óþarfur

Guðmundur talar þvert á það sem Neytendasamtökin fara fram á, að endurútreikningur lána sé óþarfur:

„Varðandi „endurútreikning“ ólöglegra smálána er rétt að vekja athygli á því sem kemur fram í 3. mgr. 36. gr. c í lögum um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga nr. 7/1936 sem felur í sér innleiðingu á reglum úr Tilskipun 93/13/EBE um óréttmæta skilmála í neytendasamningum:

„Samningur telst ósanngjarn stríði hann gegn góðum viðskiptaháttum og raski til muna jafnvægi milli réttinda og skyldna samningsaðila, neytanda í óhag. Ef slíkum skilmála er vikið til hliðar í heild eða að hluta, eða breytt, skal samningurinn að kröfu neytanda gilda að öðru leyti án breytinga verði hann efndur án skilmálans.“

Undirstrikaði textinn þýðir að ef ósanngjörnum skilmála er vikið til hliðar – en ólöglegur skilmáli hlýtur jafnframt að vera ósanngjarn – þá á neytandinn rétt á því að samningurinn standi óbreyttur að öðru leyti. Þegar um lán er að ræða þýðir það að ef skilmálar um vexti eða kostnað eru ólöglegir á að fella þá brott en þá stendur eftir lán sem er vaxtalaust og án alls kostnaðar þannig að einungis þarf að endurgreiða höfuðstólinn. (Höfuðstóll samkvæmt lögum um neytendalán er sú upphæð sem upphaflega var tekin að láni og hún breytist ekkert eftir það þó sumir íslenskir verðtryggingarperrar vilji halda öðru fram.)

Með öðrum orðum þarf ekki að endurreikna neitt. Sá sem hefur tekið lán með skilmálum um ólöglega háan kostnað á einfaldlega að endurgreiða höfuðstólinn án þess kostnaðar. Sem dæmi: ef teknar voru 20.000 krónur að láni þá skal endurgreiða 20.000 krónur og ekkert umfram það. Enginn sérstakur útreikningur er nauðsynlegur.“

Feigðarflan að fá stjórnvöld til að skerast í leikinn

Guðmundur segir það vekja hroll að Neytendasamtökin hvetji stjórnvöld og fyrirtæki til að bregðast skjótt við, en í tilkynningu samtakanna sagði:

„Neytendasamtökin hvetja stjórnvöld og fyrirtæki til að bregðast afar skjótt við svo réttindi lántaka verði tryggð. Í því skyni benda Neytendasamtökin á málshraðann þegar ólögleg gengislán voru endurútreiknuð árið 2010.“

Rifjar Guðmundur upp endurútreikning gengislána, sem hafi haft ákveðnar afleiðingar í för með sér:

„Sporin hræða svo sannarlega við þessa upprifjun, því þegar fjármálafyrirtæki fengu leyfi stjórnvalda til samráðs um endurútreikninga gengislána í trássi við samkeppnislög og útilokuðu fulltrúa neytenda frá aðkomu að því, var niðurstaðan þvert gegn þeim lögum og reglum EES um neytendavernd sem var vísað til hér að ofan. Ekki aðeins var ákveðið að fella niður ólöglega hlutann (gengistrygginguna) heldur einnig löglega hlutann (vextina). Gott og vel, flestir hefðu getað vel við unað að lánin væru þá líka vaxtalaus, nema svo var farið í alveg ótrúlegar æfingar til að halda því fram að í staðinn skyldu koma svokallaðir „seðlabankavextir“ sem fóru upp í um 20% í hruninu.

Ekki nóg með að enginn heilvita maður hefði samþykkt að taka lán á slíkum kjörum ef þau hefðu legið fyrir við undirskrift, heldur átti þessi niðurstaða sér hvergi neina stoð í lögum og braut gróflega gegn ofangreindum EES-reglum sem ætlað er að vernda neytendur. Því hefur stundum verið haldið fram að þeir sem tóku gengistryggð lán hafi fengið þau „lækkuð“ en það er helber misskilningur því með þessum kolólöglegu æfingum voru þau í raun hækkuð, í mörgum tilfellum um helming eða jafnvel meira.“

Guðmundur gefur neytendum síðan ráðleggingar:

„Neytendur: látið ekki blekkja ykkur og hlunnfara eina ferðina enn. Ef þið hafið tekið lán sem er með ólöglegum skilmálum um kostnað, endurgreiðið þá bara sömu fjárhæð án hins ólöglega kostnaðar. Gætið þess svo framvegis að stofna ekki til viðskipta við aðila sem stunda óréttmæta viðskiptahætti.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 2 dögum

Ole Anton Bieltvedt skrifar: Grein 5 um ESB/Evrópu: Það þarf sterka Evrópu til að tryggja öryggi og velferðar barnanna okkar

Ole Anton Bieltvedt skrifar: Grein 5 um ESB/Evrópu: Það þarf sterka Evrópu til að tryggja öryggi og velferðar barnanna okkar
Eyjan
Fyrir 2 dögum

Orðið á götunni: Mun taktísk kosning ráða úrslitum um forystusætið?

Orðið á götunni: Mun taktísk kosning ráða úrslitum um forystusætið?
Eyjan
Fyrir 4 dögum

Orðið á götunni: Atlaga Stefáns Einars að Þórði Snæ hjálpar Samfylkingu – tryggir jafnvel kjör fyrrum ritstjóra Fréttablaðsins

Orðið á götunni: Atlaga Stefáns Einars að Þórði Snæ hjálpar Samfylkingu – tryggir jafnvel kjör fyrrum ritstjóra Fréttablaðsins
EyjanFastir pennar
Fyrir 4 dögum

Steinunn Ólína skrifar: Óheiðarleiki er smitsjúkdómur

Steinunn Ólína skrifar: Óheiðarleiki er smitsjúkdómur
Eyjan
Fyrir 4 dögum

Þorsteinn Pálsson leiðréttir Össur: Nei, Össur, það er ekki Viðreisn heldur Samfylkingin sem hallar sér til hægri

Þorsteinn Pálsson leiðréttir Össur: Nei, Össur, það er ekki Viðreisn heldur Samfylkingin sem hallar sér til hægri
Eyjan
Fyrir 4 dögum

Segir fund með Grindvíkingum sláandi – „Það er orðið svo þreytt að segja að hugur manns sé hjá þeim“

Segir fund með Grindvíkingum sláandi – „Það er orðið svo þreytt að segja að hugur manns sé hjá þeim“