fbpx
Sunnudagur 24.nóvember 2024
Fréttir

„Ég svelti mig, en ég vil að börnin mín borði“

Ragna Gestsdóttir
Laugardaginn 27. júlí 2019 11:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Ég svelti mig, en ég vil að börnin mín borði. Ég veit ekki hvernig mér hefur tekist þetta, án gríns,“ segir einstæð, fimm barna móðir, sem glímt hefur við fátækt í fjölda ára. Fjölskyldan býr í leiguíbúð á höfuðborgarsvæðinu og eftir að hafa greitt leigu og aðra reikninga í byrjun hvers mánaðar er lítið eftir.

Þrjú barnanna eru á skólaaldri, yngri en 16 ára, og búa hin börnin einnig hjá móðurinni að mestu. Yngsta barnið er langveikt. Fjölskyldan hefur flust á milli íbúða og einnig reynt hvernig er að vera heimilislaus, en býr eins og áður sagði í leiguíbúð.

„Eftir að hafa skoðað margar íbúðir og alltaf fengið nei, þá fékk ég loksins já og ég pældi ekkert í verðinu eða neitt, þar sem ég þurfti að koma börnunum mínum í skóla og leikskóla. Ég endaði á að leigja íbúð á 310 þúsund kronur á mánuði með hita sem ég stend engan veginn undir, þetta er bara ógeðslega erfitt,“ segir móðirin og bætir við að eftir að hafa greitt leigu, leikskólagjöld og matarkostnað fyrir skólabörnin þegar skólinn er, þá sé ekki mikið eftir og allur peningur mjög fljótur að fara.

„Ég get ekki unnið þótt mig langi mikið til þess,“ segir móðirin sem hefur vegna sjúkdóms verið óvinnufær og á bótum í mörg ár.

Hefur ekki tök á að sækja aðstoð sem er í boði

Komið hefur fram í fréttum að Fjölskylduhjálp Íslands sé lokuð í sumar vegna slæmrar stöðu. Líkt og fleiri hefur móðirin leitað þangað eftir aðstoð. „En maður þarf að komast á staðinn til að fá hjálpina þegar hún er í boði og ekki á ég pening fyrir strætó eða þvíumlíku. Ef ég hef tök á þá reyni ég að sækja hjálp, en stundum dugar þetta svo ósköp lítið fyrir okkur og stundum fæ ég ekki úthlutun í samræmi við stærð fjölskyldunnar. Stundum er til dæmis bara ein jógúrt, hvað eiga þá hin börnin að fá? Börnin borða kannski ekki allt og við höfum fengið skrýtna hluti sem ég kann ekki að matreiða, þótt ég vilji alls ekki hljóma vanþakklát.

Ég reyni alltaf í byrjun mánaðarins að kaupa það mesta sem ég get keypt og geymt, en svo um miðjan mánuðinn, eða fyrr, er allur peningurinn búinn. Ég hef fengið 10 þúsund kall hjá henni Helgu minni, en hún á bara nóg með sig.“

Vísar móðirin þar til Helgu Bjarkar Magnúsar Grétudóttur sem birti ákall fyrir hönd móðurinnar í fjölda Facebook-hópa í vikunni.

Ákall Helgu fyrir hönd móðurinnar.

Ekkert bakland eða stuðningur

Móðirin á ekkert bakland í fjölskyldu og getur því ekki leitað neins stuðnings þar. Feður barnanna hafa heldur ekki bolmagn til að aðstoða mikið meira en sem lögbundnu meðlagi nemur.

Eitt barnið fær greiddar umönnunarbætur en þrátt fyrir það þarf móðirin að greiða hluta af kostnaði við hjálpartækin sjálf og er núna í þeirri stöðu að geta ekki sótt og greitt hjálpartæki sem barnið þarf á að halda. „Að eiga langveikt barn, það er hörmulegt að geta ekki sótt þá hluti sem barn mitt þarf á að halda. Maður reynir að nýta allt eins og mögulegt er. Til dæmis í þessum mánuði og þeim síðasta þá þurfti eitt barnanna að byrja á nýjum lyfjum og það kostar sitt og það er eitthvað sem er alls ekki hægt að sleppa.“

Hvernig ferðu að þegar peningurinn er búinn?

„Það er ótrúlegt hvað maður getur skrapað smáaura saman og búið til mat úr næstum engu. Maður er orðinn snillingur í því enda verið í krísu í mörg ár. Svo hef ég þurft að leita hjálpar, eins og til dæmis matarhjálpar. Einhvern veginn nær maður að skrimta,“ segir móðirin. „Ég er hrædd alla daga, svefnlaus og kvíðin. Hvað á ég að gera á morgun, hvað á ég að gera næsta dag?“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 2 dögum

Þessir tíu leikskólar hafa samþykkt að fara í verkfall 10. desember

Þessir tíu leikskólar hafa samþykkt að fara í verkfall 10. desember
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Sjaldséð eining í borgarráði – „Þetta hljóti að verða komið gott“

Sjaldséð eining í borgarráði – „Þetta hljóti að verða komið gott“
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Hrafnhildur Bridde fasteignasali ákærð fyrir fjárdrátt upp á yfir 115 milljónir króna

Hrafnhildur Bridde fasteignasali ákærð fyrir fjárdrátt upp á yfir 115 milljónir króna
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Pútín-skandall í Moskvu – Tík!

Pútín-skandall í Moskvu – Tík!