Sveinn Andri Sveinsson, lögmaður, svarar fyrir gagnrýni sem hann hefur orðið fyrir af Skúla Gunnari Sigfússyni, oft kenndum við Subway.
Skúli gagnrýndi í morgun Svein Andra harðlega og sagði hann meðal annars vera „endaþarm íslenskrar lögmennsku“ ásamt því að hann hótaði og ógnaði til að ná sínu fram.
Sveinn Andri birti Facebook-færslu þar sem hann í raun viðurkennir að hann sé endaþarmur, en segir það hlutverk afar mikilvægt:
„Fátt er manninum mikilvægara en góðar hægðir.
Við hægðirnar losar mannslíkaminn sig við ómeltanleg efni úr fæðunni og ýmislegt fleira sem saur í gegnum síðustu 12 cm meltingarvegarins, hinn svokallaða endaþarm, og síðan út um endaþarmsopið, sem þróttmiklir hringvöðvar opna og loka.“
Þó að færsla Sveins svari Skúla hvergi beint þá er henni augljóslega beint að gagnrýni hans:
„Það er vissulega skítadjobb að vera endaþarmur, enda fær hann yfir sig skít og drullu alla daga, en hlutverk hans í velferð mannsins verður seint ofmetið.“ segir Sveinn og bætir við að lokum „Einhver verður að sjá um skítverkin.“