Sveinn Kjartansson matreiðslumeistari hefur staðið vaktina á veitingastað sínum, AALTO Bistro í Norræna húsinu, í tæp fimm ár.
Sveinn hefur einnig vakið athygli fyrir sjónvarpsþætti sína, hefur verið gestakokkur og kennari við UNISG, virtan Slow Food-skóla á Ítalíu, og gefið út matreiðslubók. Sveinn er þekktur fyrir að fara spennandi og óhefðbundnar leiðir í matreiðslunni og nýta hráefni á frumlegan hátt.
Nú er hins vegar komið að tímamótum hjá Sveini, sem hyggst hefja nýtt starf í september sem forstöðumaður matar- og veitingasviðs Seðlabanka Íslands. Í viðtali við veitingageirinn.is segist hann hafa þegið starfið með þökkum, „enda heillandi og spennandi starf.“ Bætir hann við að samhentur hópur muni vinna með hjartanu og honum þar til nýr veitingamaður tekur við keflinu í Vatnsmýrinni.