fbpx
Laugardagur 04.janúar 2025
Fréttir

Aldís var fjórum mínútum frá dauðanum

Auður Ösp
Föstudaginn 26. júlí 2019 10:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Ef eitthvað á leiðinni hefði klikkað, flugvélin bilað eða einhver seinkun hefði orðið, þá væri ég ekki hér í dag,“ segir Aldís Freyja Magnúsdóttir, íbúi í Vestmanneyjum,  en hún var lífshættulega komin þegar hún fékk utanlegsfóstur á seinasta ári og missti hátt í fjóra og hálfan lítra af blóði. Ekki mátti muna nema örfáum mínútum þegar sjúkraflugvél frá Akureyri lenti í Eyjum og sótti Aldísi.

„Ef við værum með okkar eigin sjúkraflugvél hér á Suðurlandi þá hefði ég kannski ekki verið jafn nálægt dauðanum og ég var,“ segir Aldís í samtali við DV.

520 kílómetrar á milli

Árið 2010 gengu Sjúkratryggingar Íslandsfrá samkomulagi við Mýflug vegna sjúkraflugs á Vestmannaeyjasvæði. Flugfélag Vestmannaeyja hafði áður sinnt fluginu en síðan misst flugrekstrarleyfið. Sjúkraflugvél fyrir Vestmannaeyjar er því staðsett á Akureyri, í um 520 kílómetra fjarlægð.

Skilgreindur viðbragðstími hjá Mýflugi er 35 mínútur frá því beiðni berst þar til flugvélin er tilbúin til flugtaks frá Akureyrarflugvelli. Flugtími til Vestmannaeyja er 40–45 mínútur. Þá eru þyrlur Landhelgisgæslunnar reiðubúnar að taka að sér sjúkraflug á Vestmannaeyjasvæði ef vél Mýflugs getur ekki lent í Vestmannaeyjum.

Kostnaður vegna sjúkraflugs til og frá Vestmannaeyjum árið 2016 nam tæpum 29 milljónum króna en það er um sjö prósent af kostnaði vegna sjúkraflugs á landinu öllu en kostnaður við allt sjúkraflug Mýflugs nam tæpri 391 milljón króna á síðasta ári.

Þá nam kostnaður vegna þyrluflugs Landhelgisgæslunnar til Vestmannaeyja rúmri 1,1 milljón króna. Það samsvarar um 13 prósentum kostnaðar við allt flug Landhelgisgæslunnar á síðasta ári, en kostnaður við það var rúmar 8,6 milljónir króna.

Í nóvember á seinasta ári greindu Eyjafréttir frá því að það sem af var af ári hefði þurft að kalla til sjúkraflugvél eða þyrlu til sjúkraflutninga milli lands og Eyja í að meðaltali 2,7 skipti á viku.

„Það eru komin 110 flug með Mýflugi það sem af er ári. Það er erfiðara að fá tölfræði hjá Landhelgisgæslunni en okkur telst til að það séu um 10–12 þyrluflug það sem af er á þessu ári,“ sagði Styrmir Sigurðarson, yfirmaður sjúkraflutninga á Suðurlandi.

Þá kom fram að árið 2016 var meðalkostnaður eins sjúkraflugs, miðað við öll sjúkraflug, 584.793 krónur og má búast við að hann hafi hækkað umtalsvert síðan þá.

Greiðar samgöngur eru mannréttindi

Sara Sjöfn Grettisdóttir, ritstjóri Eyjafrétta, ritaði harðorðan pistil í apríl síðastliðnum þar sem hún gagnrýndi að engin sjúkraflugvél væri til staðar á Suðurlandi.

„Í mínum haus er akkúrat ekkert rökrétt við þetta og hreinlega verið að taka óþarfa áhættu með líf fólks,“ ritaði Sara og bætti við á öðrum stað:

„Ég velti fyrir mér hversu margar fjölskyldur eiga svona sögur, af bið eftir sjúkraflugi. Hvað þarf að gerast til að laga þetta, þarf fólk að deyja í biðinni svo eitthvað breytist?

Ég verð svo reið þegar ég hugsa um þetta! Hvað er verið að bjóða okkur upp á? Eigum við ekki betra öryggi skilið. Ætti ekki að vera algjört forgangsatriði að koma þessu í lag. Örugg heilbrigðisþjónusta og greiðar samgöngur eru mannréttindi sem ættu að vera aðgengileg hverjum einasta Íslendingi.“

Missti 90 prósent af blóði sínu

Það var um miðjan febrúar á seinasta ári að Aldís komst að því að hún væri ófrísk.

„Daginn eftir vaknaði ég með gnístandi verk í kviðnum og fór á klósettið þar sem ég endaði á að svitna og engjast um af sársauka. Ég reyndi að kalla á frænku mína sem ég bjó með og það reyndi svo á að ég kastaði upp í sturtuna við hliðina á mér. Um leið fann ég að allt blóð fór úr hausnum á mér. Á endanum kom frænka mín fram og hún fór með mig beint upp á sjúkrahúsið í Eyjum.“

Aldís var lögð inn á sjúkrahúsið í skyndi þar sem henni voru gefin verkjalyf og blóð.

„Sem betur fer hafði ég tekið þungunarpróf kvöldið áður, því um leið og ég sagði að ég væri ófrísk þá fattaði hjúkrunarfræðingur strax hvað var í gangi: ég var að missa fóstur. Í staðinn fyrir að blæða niður þá var allt mitt blóð að safnast upp í leginu á mér svo ég var að missa blóð mjög hratt,“ segir Aldís en hún missti rúmlega 90 prósent af blóðinu og var að eigin sögn sárþjáð þrátt fyrir mikla morfíngjöf. Fór það svo að hún kláraði allar þær blóðbirgðir sem til voru á sjúkrahúsinu, á meðan beðið var eftir sjúkraflugvélinni.

Kallað var á sjúkraflugvél á vegum Mýflugs en en það tók rúmlega 40 mínútur að koma vélinni til Vestmannaeyja.

„Mér var svo skutlað í sjúkrabíl upp á flugvöll og flogið með mig beint í bæinn. Ég var með meðvitund allan tímann og það eina sem ég heyrði voru orðin „akút“, „medic bíll“ og „vantar blóð“. Um leið og við lentum í Reykjavík tók á móti mér sjúkrabíll þar sem mér var gefið meira blóð.“

Þegar komið var á Landspítalann var Aldísi rúllað beinustu leið inn á skurðstofu.

„Ég áttaði mig ekkert á alvarleika málsins fyrr en ég vaknaði eftir aðgerðina og var tjáð af lækninum að ég hefði verið með utanlegsfóstur sem fékk að dafna of lengi í eggjaleiðara og það bókstaflega sprakk. Um 4,3 lítrar af blóði mínu höfðu safnast fyrir í leginu á mér og hún sagði mér að ef ég hefði komið fjórum mínútum seinna inn á skurðstofuna þá hefði ég látið lífið. Hver mannslíkami er bara með rúma fimm lítra af blóði svo það er hægt að ímynda sér hvað ég missti mikið og hratt.

En sem betur fer þá lifði ég þetta af, ég var þó mjög slöpp og var frá vinnu í rúma tvo mánuði. Af því að ég frestaði því svo lengi að taka þungunarpróf þá var fóstrið orðið um sjö vikna og þess vegna var þetta einmitt mun stærri aðgerð en venjuleg fóstureyðing með skurðaðgerð. Ég er með þrisvar sinnum stærra ör en eins og eftir keisara. En um mína sögu er tvennt að segja. Í fyrsta lagi: Ekki bíða með að taka þungunarpróf ef ske kynni að fóstrið væri utanlegs. Í öðru lagi: Það er alveg fáránlegt að það skuli ekki vera sjúkravél til staðar í Eyjum eða þá að minnsta kosti í Reykjavík.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Lögmenn gagnrýna að „fyrirtæki úti í bæ“ rannsaki umferðarslys

Lögmenn gagnrýna að „fyrirtæki úti í bæ“ rannsaki umferðarslys
Fréttir
Í gær

Vilhjálmur með ákall eftir umdeildar hækkanir: „Getum við ekki öll verið nokkuð sammála þessu?“

Vilhjálmur með ákall eftir umdeildar hækkanir: „Getum við ekki öll verið nokkuð sammála þessu?“
Fréttir
Í gær

Nýr þingmaður Flokks fólksins lætur Þórarin Inga heyra það: „Stundum er gott að hafa vit á því að þegja“

Nýr þingmaður Flokks fólksins lætur Þórarin Inga heyra það: „Stundum er gott að hafa vit á því að þegja“
Fréttir
Í gær

Mogginn skýtur föstum skotum á Ingu Sæland: „Svik eru ekki svik, heldur eitthvað allt annað“

Mogginn skýtur föstum skotum á Ingu Sæland: „Svik eru ekki svik, heldur eitthvað allt annað“