fbpx
Mánudagur 25.nóvember 2024
Eyjan

Túristi í einn dag í miðborg Reykjavíkur – Þetta kostar göngutúrinn

Ragna Gestsdóttir
Sunnudaginn 28. júlí 2019 19:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Ísland er dýrasta land Evrópu, en neysluverð á Íslandi var að meðaltali 56% hærra hér en annars staðar í Evrópu árið 2018. DV ákvað því að leika sér í einn dag sem ferðamaður í höfuðborginni og athuga hvað dæmigerður fyrsti dagur gæti kostað ferðamanninn.

Sjá einnig: Ísland er dýrasta landið í Evrópu – „Þetta var smá áfall“

Ferðamaðurinn byrjar á morgunmat á hóteli sínu, sem er í miðbænum, í göngufæri við helstu kennileiti borgarinnar, veitingastaði, verslanir og mannlíf. Eftir staðgóðan morgunverð sem er innifalinn í verði hótelgistingarinnar heldur túristinn síðan spenntur og glaður út í daginn.

Við þessa úttekt ákváðum við að bóka herbergi á Centerhotel Miðgarður sem er á frábærum stað við Hlemm, í göngufæri við miðbæinn, Laugardalinn, Perlu og fleiri staði. Einstaklingsherbergi, 18 fermetrar, í viku frá 24.–31. júlí kostar 1.313 evrur, sem er 180.735 krónur eða 25.819 krónur nóttin. Í herberginu er hárblásari, sími, flatskjár, öryggishólf, minibar, hitaketill, auk þess sem morgunverðarhlaðborð er innifalið.

Centerhotel Miðgarður við Hlemm.

Fyrsta daginn í Reykjavík ákveður ferðamaðurinn að taka sér göngu frá hótelinu og um miðbæinn og því er öllum stöðum sleppt sem eru fyrir utan þann hring.

Næst hótelinu er Hið íslenska reðasafn, sem Sigurður Hjartarson, fyrrverandi sögu- og spænskukennari, stofnaði árið 1997 á Húsavík, safnið var flutt til Reykjavíkur og nýtur mikilla vinsælda meðal ferðamanna. Nauðsynlegur viðkomustaður til að komast að því hver sé með það stærsta (og það minnsta) í heimi. Aðgangseyrir er 1.700 krónur

Sigurður á reðrasafninu

Mannlífið á Laugaveginum er ókeypis að skoða, einstaklega litríkt og skemmtilegt á mörgum tungumálum, enda segja margir að engir íslendingar finnist lengur í miðbænum. Við Frakkastíg er tekið á sprett upp götuna að Hallgrímskirkju. Ferð með lyftunni kostar 900 krónur og er skemmtilegt að eiga orðastað við kirkjunnar verði þegar þeir eða ferðamaðurinn henda í klassíska frasann „Going up?“ sem hver ferðamaður telur kirkjuvörðinn vera að heyra í fyrsta sinn.

Hallgrímskirkja og styttan af Leifi Eiríkssyni, gjöf Bandaríkjamanna í tilefni af Alþingishátíðinni árið 1930.

Eftir að hafa smellt af ótalmörgum myndum yfir miðborgina úr turninum, enda gerist ekkert nema það sé myndað og skjalfest á samfélagsmiðlum, og af styttunni af Leifi Eiríkssyni, sem enginn hefur haft rænu á (enn þá) að rukka fyrir aðgang að, er eitt fallegasta listasafn bæjarins, Listasafn Einars Jónssonar, hinum megin við götuna, heimsótt. 1.000 krónur kostar inn á safnið, en ókeypis er inn í höggmyndagarð hans og er hann því kjörinn fyrir þá sem þola ekki söfn og/eða tíma ekki að eyða pening í söfn, því í garðinum er að finna einstakan fjársjóð í höggmyndum Einars.

Skuld Inntak verksins er af siðferðilegum toga, um ábyrgð mannsins á gjörðum sínum.

Eftir þrjá viðkomustaði er kall náttúrunnar orðið hávært og maginn einnig farinn að krefjast næringar. Það er því fyrirtak að á næsta horni er Café Loki, sem býður upp á alls konar girnilegan og klassískan íslenskan mat á fínu verði. Á matseðlinum má meðal annars finna rúgbrauð með plokkfiski, kjötsúpu, flatbrauð og skyr. Tvennt er nauðsynlegt að kynna sér á Loka: rúgbrauðsísinn og veggmynd á annarri hæð hússins, sem listamennirnir Sigurður Valur Sigurðsson og Raffaela teiknuðu og máluðu af Ragnarökum og fleiri sögum úr norrænu goðafræðinni. Þar koma meðal annars við sögu æsirnir Baldur, Freyja og Loki og þannig eru nálægar götur tengdar saman: Lokastígur, Baldursgata og Freyjugata. Fyrir valinu verður heimabakað flatbrauð með hangikjöti, rúgbrauðsís og kaffibolli, samtals kostar það 2.830 krónur.

Listaverkið á 2. hæð. Mynd DV/Sigtryggur Ari Jóhannsson

Næst á dagskrá er Mekka íslensks handverks í miðbænum, Skólavörðustígurinn. Þar sem VISA-kortið er lítið notað það sem af er degi er ferðamanninn farið að kitla svolítið að strauja það og það er enginn ferðamaður með mönnum nema kaupa eitthvað fallegt og einkennandi sem sýnir að hann hafi heimsótt borgina og landið.

Það er líka „must“ að kaupa íslenska lopapeysu, enda ekkert íslenskara nema ef vera skyldi kindin sjálf. Þó að margar slíkar séu handprjónaðar í kínverskum vélum í dag hefur túristinn ekki endilega vit eða skoðun á því og lætur persónulegan smekk, verð og áferð ráða valinu. Alvöru handprjónuð lopapeysa er fundin í Handprjónasambandi Íslands fyrir 27.900 krónur.

Lopapeysur í öllum litum. Mynd: DV

Túristinn man allt í einu að hann steingleymdi ferðahandbókinni heima á náttborðinu og nauðsynlegt er að hafa slíka í ferðinni, því snjallsíminn kemur ekki alltaf í veg fyrir bókina. Í Eymundsson kippir hann með sér nokkrum íslenskum reyfurum á ensku og þessar bækur gera hann 11.396 krónum fátækari.

Bókin er betri Mynd: DV

Þrátt fyrir að sólin glenni sig þennan dag með þeim afleiðingum að allir Íslendingar eru á hlýrabol er kominn smá hrollur í ferðamanninn sem hugsar líka til þess að daginn eftir ætlar hann Gullna hringinn, því ákveður hann að splæsa í húfu og vettlinga. Bylur frá 66°Norður verður fyrir valinu, enda töff og erfitt að bera fram (datt engum í hug að nota Eyjafjallajökull?), 12.400 krónur straujast hér léttilega á kortið.

Eftir rúnt um miðbæinn þar sem Tjörnin, Ráðhúsið, Harpa, Miðbakkinn og fleira er myndað í gríð og erg er hungrið aftur farið að segja til sín og Bæjarins bestu eru fyrri kvöldmatur dagsins. Þessi litli krúttlegi skúr hefur staðið af sér allar framkvæmdir og fegrun í áratugi og er alltaf eins. Pylsa með öllu og kók, 730 krónur, takk fyrir túkall! Svo er auðvitað smellt í selfí líkt og Clinton kallinn forðum daga.

Bill Clinton, fyrrverandi Bandaríkjaforseti, fékk sér eina með öllu þegar hann var í miðborginni 24. ágúst 2004. Maja, er með honum á mynd, en hún hefur afgreitt í vagninum í áratugi.

Pönksafnið er neðst í Bankastræti og kostar 1.000 krónur inn, lítið og áhugavert safn um pönkmenningu borgarinnar, þar sem safnverðirnir vita allt um pönkið og menninguna, enda þátttakendur í henni þegar hún blómstraði sem best.

Gunnþór Sigurðsson safnvörður. Mynd: Einkasafn

Svo, líkt og við flytjum heim ýmiss konar varning merktan sólarlöndum eftir ferðir okkar þangað, dregur túristinn upp veskið og kaupir þrjá vinsæla hluti merkta Íslandi í Lundanum á Laugavegi, sem samtals kosta hann 6.070 krónur í því sem seinna verða rykfallnar minjar í geymslunni (eða Góða hirði hans lands) um góða Íslandsferð.

Bolur, skotglas og lyklakippa. Mynd: DV

Eftir að hafa skolað af sér gönguna og skipt um galla á hótelinu er komið að kvöldverði og hótelstarfsmaðurinn mælir með Old Iceland, Laugavegi 72. Kjötsúpa, fiskur dagsins ásamt tveimur bjórum kosta 8.280 krónur.

Þreyttur eftir frábæran fyrsta dag í Reykjavík ratar túristinn svo inn í næstu matvörubúð við hótelið, óafvitandi að 10–11 er með dýrustu búðum bæjarins og raðar í einn poka alls konar kræsingum til að eiga á hótelherberginu. Íslenskt nammi, snakk, gos, kex og ostar og kortið straujað í síðasta sinn þennan dag fyrir 4.822 krónur.

Alls konar óhollusta Mynd: DV

Kostnaður við fyrsta dag Íslandsreisunnar er 79.028 krónur og VISA-kortið rétt að byrja að hitna. Einn dagur á hótelinu er síðan 25.819 krónur eins og kom fram í byrjun, þannig að heildarkostnaður fyrsta dags er 104.847 krónur.

(Allar myndir eru fengnar frá heima- eða Facebook-síðu viðkomandi fyrirtækja nema annað sé tekið fram).

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Fyrir 3 dögum

Arnar Þór Jónsson: Það er siðrof á íslenskum fjármálamarkaði – kannski þarf að setja lög á Seðlabankann

Arnar Þór Jónsson: Það er siðrof á íslenskum fjármálamarkaði – kannski þarf að setja lög á Seðlabankann
Eyjan
Fyrir 3 dögum

Orðið á götunni: Sigurður Ingi ræðst á Bjarna Ben – „Þegar ölið er af könnunni er vináttan úti“

Orðið á götunni: Sigurður Ingi ræðst á Bjarna Ben – „Þegar ölið er af könnunni er vináttan úti“
Eyjan
Fyrir 4 dögum

Sigurður Ingi hjólar af krafti í Sjálfstæðisflokkinn – „Þá hefðum við átt að segja nú er nóg komið“

Sigurður Ingi hjólar af krafti í Sjálfstæðisflokkinn – „Þá hefðum við átt að segja nú er nóg komið“
Eyjan
Fyrir 4 dögum

Arnar Þór Jónsson: Íslensk fyrirtæki og heimili eiga ekki lengur skjól í Valhöll – það er löngu búið að henda þeim þaðan út

Arnar Þór Jónsson: Íslensk fyrirtæki og heimili eiga ekki lengur skjól í Valhöll – það er löngu búið að henda þeim þaðan út