Breski leikarinn Roger Moore, sem er einna þekktastur fyrir leik sinn í James Bond-myndunum, er látinn, 89 ára að aldri. Þetta tilkynntu börn leikarans en í tilkynningunni kemur fram að Moore hafi látist í Sviss. Banamein hans var krabbamein sem hann hafði glímt við um skamma hríð.
Moore fæddist í London árið 1927 og eftir að hafa starfað sem fyrirsæta á sínum yngri árum skrifaði hann undir samning við HGM snemma á sjötta áratug síðustu aldar.
Ferill Moore í kvikmyndum fór rólega af stað en árið 1973 kom stóra tækifærið þegar hann túlkaði James Bond í myndinni Live and Let Die.
Allt í allt lék Moore í sex Bond-myndum á tólf ára tímabili. Síðasta Bond-mynd hans kom út árið 1985 og þá var hann orðinn 58 ára.
Auk þess að leika James Bond lék Moore í vinsælum sjónvarpsþáttum á borð við The Saint og The Persuaders! Þá lét hann sig góðgerðarmál varða og var gerður að sérstökum erindreka Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna, UNICEF, árið 1991.