fbpx
Miðvikudagur 25.desember 2024
Fréttir

Einelti þrífst á meðal eldri borgara á Íslandi: „Þú breytist ekki í engil við það eitt að verða aldraður“

Auður Ösp
Laugardaginn 20. júlí 2019 09:00

Mynd úr safni. Mynd:Flickr/Marcel Oosterwijk

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Einhverjir eru kannski beðnir um sitja annars staðar, bara af því þeir eru svo leiðinlegir eða vond lykt af þeim,“ segir starfsmaður á dvalarheimili  í Reykjavík. Einelti þrífst á meðal eldri borgara í þjóðfélaginu og eru karlmenn oftar í hlutverki þolanda og helgast það af fjölda kvenna í félagsstarfi og á dvalarheimilum fyrir aldraða. Algengast er að eineltið sé af andlegum toga og lýsir það sér meðal annars í baktali, illu augnaráði og höfnun. Lítið er um að starfsfólk á dvalarheimilum fái formlega þjálfun um einelti og ekki er sjálfsagt að starfsfólk sé meðvitað um eineltisáætlanir á vinnustaðnum, séu þær áætlanir til staðar.

Þetta er meðal þess sem kemur fram í niðurstöðum Péturs Kára Olsen, en í tengslum við lokaverkefni sitt til BA-gráðu í tómstunda- og félagsmálafræði við Háskóla Íslandi rannsakaði hann einelti á meðal eldri borgara á höfuðborgarsvæðinu frá sjónarhorni starfsfólks. Rannsókn Péturs Kára leiddi meðal annars í ljós að neikvæð hegðun og neikvæð samskipti eru ekki einungis vandamál sem yngri kynslóðir þurfa að glíma við.

Baktal og ljótur munnsöfnuður

Í tengslum við rannsóknina ræddi Pétur Kári við sex starfsmenn, allt konur, sem vinna á sex dvalar- og félagsheimilum eldri borgara á höfuðborgarsvæðinu. Allar eiga þær það sameiginlegt að hafa fylgst með samskiptum eldri borgara frá degi til dags og sinna einnig mikilvægu hlutverki þegar grípa þarf inn í eineltismál. Tvær kvennanna starfa sem deildarstjórar en hinar fjórar starfa sem verkefnastjóri, umsjónarmaður, leiðbeinandi og starfsmaður í aðhlynningu.

Allar konurnar segjast hafa orðið vitni að einelti á sínum vinnustað og er andlegt einelti langalgengast. Algengt er að hegðunin sé bundin við tvo til þrjá einstaklinga og svo virðist sem einstaklingar eigi helst á hættu að verða fyrir einelti í matsalnum. Aðrir staðir eru þó einnig nefndir til sögunnar, eins og vinnustofur eða opin rými.

Aðeins ein kvennanna segist hafa orðið vitni að líkamlegu einelti og vitnar hún þar til atviks þegar einstaklingi í göngugrind var hrint af öðrum með betri göngufærni.

Allar  nefna þær dæmi um mikið baktal, að fólk sé útilokað og að ljótur munnsöfnuður sé ákveðið vandamál. Þá lýsir eineltið sér einnig í gríni á kostnað annarra og niðrandi orðbragði í samskiptum einstaklinga.

Ein úr hópnum nefnir dæmi um baktal sem hún varð vitni að, en þá heyrði hún fólk segja um aðra að „þetta væri bara heilabilað og fatlað og vitlaust fólk og ætti ekkert heima hérna“.

Önnur úr hópnum segir að „yfirleitt gerist eitthvað í hverri viku.“

„Það er verið að gera lítið úr fólki sem er kannski minna veikt en það sjálft.“

Konurnar geta verið grimmar

Konurnar segja hegðun gerenda lýsa sér meðal annars í „stjórnsemi, frekju, umburðarleysi, neikvæðni og þröngsýni.“ Ein af þeim lýsir gerendum sem einstaklingum „sem vilja hafa hlutina 100 prósent eins og þeir eiga að vera“.

„Svona hefur þetta alltaf verið“ er mjög einkennandi við þeirra hugarfar.“

Önnur bendir á að eldri gerendur eineltis séu oftar en ekki fólk sem hefur átt erfitt. „Það finnur kannski vanmáttinn og finnur einhvern sem hefur ekki sama styrkleika, finna veikan punkt á einhverjum og vilja bara ýta á hann til að upphefja sjálft sig.“

Þá kemur fram að töluverð kynjaskipting er á þolendum og gerendum. Þannig eru konur í meirihluta meðal gerenda, en karlar upplifa sig oftar sem þolendur.

„Mér finnst það helst vera konurnar sem eru mikið að tala og segja ljótt um og við aðra, þær eru grimmar,“ segir ein úr hópnum og önnur tekur í sama streng.  „Það eru eingöngu konur sem mér finnst ég heyra þetta frá.“

Fram kemur að þeir sem eru veikari fyrir eru auðveldari skotmörk fyrir gerendur og oft er gert grín að þeim einstaklingum. Ein konan nefnir dæmi um einstakling sem sé hættur að sækja í félagsstarfið vegna framkomu annarra þjónustuþega í hans garð. Þá segir önnur að mikið sé um hópamyndun, eða svokallaða „klíkumyndun.“

Þögla kynslóðin

Fram kemur að ástæður eineltis meðal eldri borgara geti verið margþættar. Ein helsta ástæðan, að sögn viðmælenda, sé fáfræði; fáfræði fólks varðandi hvert annað og virðingarleysi gagnvart mismunandi einstaklingum. Ein úr hópnum tengir ástæðuna að einhverju leyti við elliglöp og bendir á að fólk sem er komið á þennan aldur og jafnvel farið að tapa hluta af eigin getu, skilji ekki alveg af hverju.

„Og af því að það skilur það ekki sjálft, þá byrjar það oft svona að acta out.“

Önnur bendir á að fólk haldi í öll sín einkenni í gegnum lífið: einstaklingar breytist ekkert endilega þó að þeir eldist.

„Þó maður verði gamall, þá verður maður ekki bara engill. Maður heldur öllum sínum einkennum allt lífið. Það týnist ekkert.“

Þá kemur einnig fram að samskipta og hegðunarmynstur eldri borgara sé gjarnan litað af þeirri staðreynd að þessi aldurshópur á það til að leiða vandamálin hjá sér frekar en takast á við þau.

Ein úr hópnum talar um hina „þöglu kynslóð.“ Kynslóðinni sem var kennt að tala ekki um vandamálin.

„Þetta er kynslóð sem að tók öllu kannski þegjandi, þau þurftu að hafa fyrir lífinu strax þegar þau voru ung eða jafnvel börn.“

Flestar kvennanna  segja starfsfólk yfirleitt grípa yfirleitt inn í þegar upp koma atvik sem flokkast geta undir einelti. Yfirleitt er þá næsti yfirmaður látinn vita. Minna ber þó á því að aðrir þjónustuþegar grípi inn í eineltistengdar aðstæður.

Lítið um fræðslu

Rannsóknin leiðir einnig í ljós að lítið er um að starfsfólk fái formlega þjálfun eða kennslu í því að stuðla að fyrirbyggjandi aðgerðum gegn einelti. Fjórar af konunum sex hafa aldrei farið á sérstakt námskeið eða fengið formlega fræðslu um það hvernig best sé að bregðast við og taka á eineltismálum. Konurnar eru almennt sammála um mikilvægi þess að bjóða upp á fræðslu og ein úr hópnum bendir á hversu mikið skorti á að boðið sé upp á fræðslu um þessi mál fyrir þessa kynslóð. „Ég hef ekki einu sinni tekið eftir því að eitthvað þannig sé í boði.“

Eineltisáætlanir og úrræði

Þegar konurnar eru spurðar að því hvort þeirra vinnustaður sé með sérstaka eineltisáætlun og hvaða úrræði standi skjólstæðingum til boða eru svörin mismunandi. Tvær segjast ekki vera vissar, ein segir ekkert slíkt vera á hennar vinnustað og ein segist gera ráð fyrir að allir starfsstaðir Reykjavíkurborgar séu með einhvers konar áætlun. Sú sjötta bendir á að það séu „einhverjar áætlanir“ sem sviðið sjálft ætti að fara eftir, en viðurkennir að hafa lítið rætt við annað starfsfólk um þær.

Þegar konurnar eru spurðar hvort einstaklingar geti verið reknir úr, vísað frá eða meinaður aðgangur að félagsstarfi vegna hegðunar eru flest svörin á þá leið að ekki hefði reynt á það enn sem komið er. Hins vegar talar ein þeirra  um hálfgert ráðaleysi. „Svo veit maður aldrei hvað maður má gera. Þú getur allt í einu verið kærður fyrir það að vernda þitt umhverfi af því að þessi einstaklingur var vondur.“

Tómstundafræðingar væru frábær viðbót

Pétur Kári segist ekki hafa áttað sig á í upphafi hversu greinileg þörf og vöntun er á fagfólki innan þessa sviðs. Allir viðmælendur tala um mikilvægi þess að tómstundafræðingar séu ráðnir í störf sem snúa að velferð eldri borgara, en af þeim fimm stöðum sem heimsóttir voru, var aðeins einn með starfandi tómstundafræðing. Telja konurnar að tómstundafræðingur gæti komið með ferskan andblæ, nýjar áherslur og upplýsingar inn í starfið. Það sé í raun nauðsynlegt til að skapa nýtt viðhorf.

Pétur Kári tekur fram að þó svo að rannsóknina beri að taka alvarlega þá alhæfi hún ekki um aðra samkomustaði eldri borgara í samfélaginu. Þörf sé á frekari rannsóknum til að skilja betur hvers vegna einelti meðal aldraða eigi sér stað og á sama tíma hvernig hægt sé að koma í veg fyrir að það.

„Gera má ráð fyrir því að ekki nokkur manneskja óski sér þess að verða fyrir einelti. Hvað þá þegar fólk er komið á eftirlaunaaldur, tímabilið sem oft er kennt við gullárin (e. golden years). Það er því mikilvægt að auka eineltisfræðslu fyrir aldraða sem og þá sem starfa með þeim,“ segir Pétur Kári og bætir við að tómstundafræðingar geti gegnt þar lykilhlutverki en sérfræðiþekking þeirra fælist meðal annars í að leiða saman hópa, stuðla að félagslegum þroska, velferð og hæfni með fjölbreyttum viðfangsefnum.

Eitthvað er í ólagi

Pétur Kári segir niðurstöður rannsóknarinnar í raun ekki hafa komið á óvart. Það sé greinilegt að einelti sé vandamál sem samfélög búa við og virðist ekki skipta neinu máli á hvaða aldri fólk er.

„Í ljósi þess hvaða niðurstöðum rannsóknin skilaði er áhugavert að velta því fyrir sér hvort þessir öldruðu einstaklingar sem eru gerendur í þessari rannsókn hafi einnig verið að leggja aðra í einelti á sínum yngri árum.

Miðað við kenningar í öldrunarfræðum má gera ráð fyrir að svo sé, en samfellukenningin tekur einmitt á þessari vangaveltu. Samkvæmt henni reyna einstaklingar að halda í sín persónueinkenni og gildi út lífið. Með því fæst rökstuðningur fyrir því að einstaklingar sem eru gerendur eineltis í æsku séu líklegir til að halda því áfram þegar á fullorðinsár er komið.“

Hann segir einnig áhugavert að velta því fyrir sér hvaða hugmyndir samfélagið hefur um hugtakið einelti. Það að einelti meðal eldri borgara hafi ekki verið rannsakað áður er að hans mati merkilegt.

„Jafnvel gerir samfélagið ekki ráð fyrir því að fullorðnir og aldraðir einstaklingar leggi aðra í einelti, en á sama tíma samþykkir það og finnst það sjálfsagður hlutur að börn og unglingar verði fyrir einelti. Þarna er eitthvað í ólagi og spurningin er hvort við sem samfélag getum breytt hugsunarhætti okkar þegar kemur að einelti og eldri borgurum.“

Niðurstöðurnar gefa einnig til kynna mikilvægi þess að opna umræðuna um einelti meðal eldri borgara og nauðsyn þess að fræða og upplýsa þá þjónustuþega sem sækja á samkomustaði eldri borgara.

„Að sama skapi virðist þörfin á fræðslu einnig liggja hjá vinnustöðunum sjálfum og starfsfólkinu þar. Misskilningur á milli kynslóða á sama málefni virðist vera vandamál sem þarfnast lagfæringar,“

segir Pétur Kári og bætir við að það geti verið ágætis byrjun að auka fræðslu og gera hana sýnilegri og aðgengilegri fyrir aldraða einstaklinga sem og þá sem starfa með öldruðum.

„Gamla fólkið er alls ekki heilagt og það þarf að veita því athygli eins og öðrum, því eins og einn sagði: „Þú breytist ekki í engil við það eitt að verða aldraður.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 2 dögum

Pútín gæti staðið frammi fyrir alvarlegum vanda á næsta ári

Pútín gæti staðið frammi fyrir alvarlegum vanda á næsta ári
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Allt brjálaðist hjá dularfullri rússneskri útvarpsstöð

Allt brjálaðist hjá dularfullri rússneskri útvarpsstöð
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Netverjar bjartsýnir eftir kynningu nýrrar ríkisstjórnar – „Faðmlag segir meira en 1000 orð“

Netverjar bjartsýnir eftir kynningu nýrrar ríkisstjórnar – „Faðmlag segir meira en 1000 orð“
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Sólveig Anna óttast ekki Sigurð G. og SVEIT – „Bring it on“

Sólveig Anna óttast ekki Sigurð G. og SVEIT – „Bring it on“
Fréttir
Fyrir 4 dögum

Segir Áslaugu hafa bjargað lífi manneskju á veitingastað

Segir Áslaugu hafa bjargað lífi manneskju á veitingastað
Fréttir
Fyrir 4 dögum

Vatnsstríð á Reykhólum – Norðursalt var óstarfhæft eftir að Þörungaverksmiðjan skrúfaði fyrir rörið

Vatnsstríð á Reykhólum – Norðursalt var óstarfhæft eftir að Þörungaverksmiðjan skrúfaði fyrir rörið