Skapari Pepe kveður froskinn í nýrri myndasögu
Teiknimyndasagnasmiðurinn Matt Furie jarðaði sköpunarverk sitt, froskinn Pepe, á táknrænan hátt í nýrri myndasögu á dögunum til að mótmæla notkun nýnasista á persónunni.
Froskurinn Pepe birtist upphaflega um miðjan síðasta áratug sem persóna í myndasögunum Boy‘s Club eftir Furie. Á næstu árum dreifðist andlit frosksins um netið í fjölbreyttum myndskrýtlum og varð hann fljótlega að vinsælu „internet-memi“.
Að undanförnu hefur hann hins vegar í síauknum mæli verið notaður sem merki Alt-right nýnasistahreyfingarinnar sem vakti alþjóðlega athygli í kringum bandarísku forsetakosningarnar í fyrra. Anti-Defamation League, samtök sem berjast gegn gyðingahatri, skilgreindu froskinn í kjölfarið sem haturstákn.
Furie hefur ítrekað látið í ljós óánægju sína og fordæmt yfirtöku nýnasista á froskinum en sagði lengi vel að hann hefði enga stjórn á málinu. Hann setti þó í gang herferð með það að markmiði að bjarga froskinum frá nýnasistunum undir myllumerkinu #SavePepe – björgum Pepe.
Eftir að það gekk ekki virðist hann hafa álitið best að kveðja þetta sköpunarverk sitt á táknrænan hátt. Í myndasögu sem gefin var út í tilefni af Degi ókeypis teiknimyndasagna, Free Comic Book Day, sjást vinir Pepes úr Boy‘s Club jarða froskinn í opinni kistulagningu.
Lestu meira: Þessi froskur gæti verið nýi hakakrossinn