fbpx
Laugardagur 23.nóvember 2024
Fréttir

Kanadísk fjölskylda ætlar í mál við Sjóvá – „Við erum eyðilögð“

Auður Ösp
Föstudaginn 12. júlí 2019 20:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Við þurfum á allri mögulegri hjálp að halda. Þetta er búið að vera algjör hryllingur, og svo er ótrúlega mikil leynd í kringum þetta. Ég missti pabba minn, ég missti minn helsta ráðgjafa og leiðarljós í lífinu. Hann var sá sem hélt fjölskyldunni saman og núna er búið að skilja okkur eftir í molum. Hann var svo ungur, og átti eftir stóran part af lífi sínu. Við erum eyðilögð,“ segir Sarah Wagstaff í samtali við DV. Sarah er dóttir Arthurs Grants Wagstaff, sem lést í flugslysi á Íslandi árið 2015. Flugmaður vélarinnar, Arngrímur Jóhannsson, fyrrverandi forstjóri flugfélagsins Atlanta, komst lífs af úr slysinu.

Rannsóknarnefnd flugslysa skilaði skýrslu um málið á seinasta ári. Tryggingafélagið Sjóvá, sem tryggði flugvélina, hefur neitað fjölskyldunni um bætur vegna slyssins og byggir ákvörðun sína meðal annars á því að Grant hafi ekki verið sá sem flaug vélinni umræddan dag.

Fjölskyldan er staðráðin í að ná fram réttlæti og hyggst nú leita til dómstóla hér á landi.

 Slysið

Íslenskir fjölmiðlar fjölluðu ítarlega um flugslysið á sínum tíma. Forsaga málsins er sú að Arngrímur Jóhannsson réð Grant, föður Söru, til ferja vélina frá Íslandi til Bandaríkjanna. Arngrímur er atkvæðamikill í fluggeiranum á Íslandi og hefur unnið mörg þrekvirkin í háloftunum. Grant var reyndur flugmaður og höfðu þeir Arngrímur starfað saman áður þegar flugvélin var flutt hingað til lands árið 2008. Þá flugu þeir henni hingað til lands frá Bandaríkjunum og tók ferðalagið átján daga. Vélin tók á loft frá Akureyri þann 9. ágúst 2015 og stefndi á Keflavíkurflugvöll en þaðan átti að fljúga til Minneapolis í Bandaríkjunum. Um var að ræða eins hreyfils sjóflugvél af gerðinni Beaver með kallmerkið N610LC.

Vélinni var flogið út Eyjafjörð frá Akureyri, yfir Þelamörk og inn í Öxnadal. Ekki var hægt að fljúga yfir Öxnadalsheiði og var vélinni því snúið við innarlega í Öxnadal og flogið í átt að Staðartunguhálsi. Þar var  stefnan svo tekin í átt að botni Hörgárdals en þar reyndist einnig ófært vegna lágra skýja og var vélinni því snúið við. Þegar vélin kom kom aftur að Staðartunguhálsi tóku félagarnir þá skyndiákvörðun að fljúga inn í Barkárdal. Þar brotlenti vélin, rúmlega 45 mínútum eftir flugtak. Eldur kom upp í flakinu og Arngrímur og Grant reyndu báðir að komast út úr vélinni. Arngrímur komst út af sjálfsdáðum, með alvarlega áverka, en hann var með meðvitund þegar hann fannst. Grant var hins vegar látinn þegar viðbragðsaðilar náðu á vettvang.

Ljósmynd/Rnsa.is

„Lífssýnin verður öðruvísi“

Arngrímur tjáði sig síðar við Vikudag og rifjaði upp þennan örlagaríka dag. Lýsti hann þessu sem „verstu upplifun sem ég hef gengið í gegnum, að sitja við hliðina á látnum vini mínum lengst uppi í fjöllum og geta ekkert gert.“

Á öðrum stað sagði hann:

„Svona reynsla gjörbreytir lífi manns. Ég hafði til dæmis mikla ástríðu fyrir listflugi fyrir slysið en núna get ég ekki hugsað mér að snúa vélinni á hvolf. Ég er orðinn varkárari og hræddur við að detta. Lífssýnin verður öðruvísi.“

Í samtali við DV á sínum tíma sagði Ragnar Guðmundsson, rannsakandi hjá flugslysasviði rannsóknarnefndar samgönguslysa, að aðstæður hefðu verið erfiðar og að rannsókn slyssins gæti tekið langan tíma.

„Því flóknari sem rannsóknin er tekur hún lengri tíma. Vettvangur slyssins er mjög erfiður því slysið gerist á þannig stað og því má búast við að rannsókn muni taka langan tíma,“ segir Ragnar og fram kom að rannsóknin gæti tekið allt að þrjú ár.

Ljósmynd/Rnsa.is

Í skýrslu rannsóknarnefndar samgönguslysa kemur meðal annars fram að flugvélin hafi verið töluvert of hlaðin. Var það einn af meginþáttum þess að slysið átti sér stað þar sem það olli talsverðri skerðingu á afkastagetu hennar. Þá voru ekki sjónflugsskilyrði á flugleiðinni yfir Tröllaskaga.

Þá kemur fram í skýrslunni að „mannlegir þættir hafi átt stóran þátt í flugslysinu og þá sé einnig talið að blöndungsísing hafi haft áhrif.“ Í skýrslunni kemur enn fremur fram að báðir flugmenn um borð hafi verið ákaflega reyndir og þekkt vélina eins og lófann á sér. Hugsanlega hafi þeir hins vegar ruglast í mati sínu vegna þess að þeir höfðu áður flogið vélinni, með breytingum, í 2.680 kílógramma þyngd.

Arngrímur sá eini sem var tryggður

Fram hefur komið að samkvæmt skilmálum tryggingarskírteinis var Arngrímur einn tryggður sem flugmaður umræddrar vélar og svo farþegar ef einhverjir voru. Þá var vélin einnig tryggð.

Roslyn Wagstaff, móðir Söruh og ekkja Grants, tjáði sig um málið við Fréttablaðið fyrr á árinu og spurði meðal annars hvort „enginn væri ábyrgur fyrir því að líf þeirra sem voru um borð væru rétt tryggð“.

„Það hlýtur að vera að annaðhvort tryggingartakinn eða tryggingarfélagið hafi átt að tryggja að þetta væri forgangsmál þegar trygging var keypt. Ég býst við að sá sem keypti trygginguna andi nú léttar yfir því að eign hans var tryggð og hann því fengið bætur – sem er miklu mikilvægara en mannslíf.“

Í grein Fréttablaðsins í mars síðastliðnum kom fram að lögmanni hjá Opus, sem sá um mál fjölskyldunnar hér á landi, yfirsást að skráður eigandi flugvélarinnar var ekki Arngrímur sjálfur heldur var vélin skráð hjá eignarhaldssjóði í Bandaríkjunum. Arngrímur var hins vegar skjólstæðingur eignarhaldssjóðsins og réð því yfir vélinni sem slíkur.

Við skýrslutöku hjá lögreglu sagði Arngrímur að flugvélin hefði verið í eigu sjóðs í Bandaríkjunum, það væri „cover“ en að vélin væri í hans vörslu. Í skýrslu rannsóknarnefndar samgönguslysa kemur fram að Arngrímur sé „skráður umráðamaður vélarinnar“ en ekki eigandi.

„Ef lögmaður fjölskyldunnar hefði komið auga á þessa staðreynd í tæka tíð hefði fjölskylda Grants Wagstaff getað höfðað skaðabótamál í Bandaríkjunum og átt þar von á margfalt hærri bótum vegna fráfalls hans ef málið ynnist. Tveggja ára fyrningarfrestur í Bandaríkjunum leið hins vegar í ágúst 2017 án þess að nokkuð væri að gert ytra. Öll sund virðast því lokuð fyrir fjölskylduna þar í landi,“ segir enn fremur í grein Fréttablaðsins.

Ætla að ná fram réttlæti

Fjölskyldan hyggst fara með málið fyrir dómstóla á Íslandi, en það kostar sitt. Hafa þau því hrundið af stað söfnun á vefsíðunni Gofundme.com.

„Hann skildi eftir sig þrjú börn og eiginkonu í Kanada. Aðstæður slyssins hafa verið til rannsóknar í nokkur ár og á meðan hefur fjölskyldan þurft að bíða eftir bótum frá tryggingafélaginu,“ segir Sarah og bætir við að faðir hennar hafi verið aðal fyrirvinna fjölskyldunnar.

Rannsókn málsins lauk á seinasta ári og segir Sarah að eftir endalausa bið eftir svörum hafi fjölskyldunni að lokum verið neitað um bætur, bæði frá fjölskyldunni sem réð föður hennar og einnig frá Sjóvá tryggingafélagi.

„Sjóvá heldur því fram að hann hafi verið „flugmaður ekki að fljúga“ sem þýðir að engar bætur verða greiddar fyrr en málið hefur verið tekið fyrir hjá dómstólum.“

Þá er fjölskyldan ósátt við að tryggingafélagið Sjóvá hafi notast við upplýsingar úr skýrslu rannsóknarnefndar samgönguslysa og telur Sarah að slíkt sé ólöglegt. Þá telur hún að skilgreining rannsóknarnefndar samgönguslysa sé einfaldlega ekki rétt. Líkt og fyrr segir var faðir hennar skilgreindur sem „pilot not flying.“ Það skjóti skökku við þar sem að flugvélin sem um ræðir var ekki skilgreind sem tveggja manna flugvél heldur eins manns flugvél.

Þess má geta að tekið er fram í skýrslum rannsóknarnefndar samgönguslysa að innihaldið sé ekki ætlað til notkunar í þeim tilgangi að ákvarða sök eða ábyrgð. Þá megi ekki nota innihald skýrslnanna sem sönnunargagn fyrir dómstólum.

„Okkur hefur verið tjáð að það sé útilokað, eða að minnsta kosti afar ólíklegt að við munum ekki fá réttlæti fyrir dómstólum,“ segir Sarah jafnframt. Fjölskyldan hyggst fara með málið fyrir dóm á þessu ári. Sarah segir fjölskylduna þó engan veginn hafa efni á málaferlunum. Þau leita því allra leiða til að geta náð fram réttlæti.

Ein leið sem þau hafa farið er að hrinda af stað fyrrnefndri söfnun á vef Gofundme.com og óska eftir frjálsum fjárframlögum. Vonast þau til að ná að safna 100 þúsund Bandaríkjadölum. Að sögn Söruh mun söfnunarféð fara í málskostnað auk ferðakostnaðar.

Hún segir fráfall föður síns hafa skilið eftir sig gríðarlega stórt skarð og fjölskyldan hafi verið skilin eftir í miklu áfalli. Föðuramma hennar missti annan son sinn, frænda Söruh, úr hjartaáfalli aðeins nokkrum mánuðum áður en slysið varð.

Í samtali við blaðamann segir Sarah föður sinn að mestu leyti hafa haldið fjölskyldunni uppi  fjárhagslega. Nú eigi þau systkinin ekki lengur þetta bakland.

„Hann var með langhæstu tekjurnar og hann passaði upp á okkur öll. Núna erum við að berjast í bökkum við að borga fyrir hluti sem við vitum að hann hefði hjálpað okkur með, eins og skólagjöld, fasteignakaup, brúðkaup og þess háttar. En missirinn er auðvitað ekki bara fjárhagslegur. Við erum búin að missa pabba úr lífi okkar.“

Hún segir málið opið og þau hafi því ekki verið í neinum samskiptum við  fjölskylduna sem réð föður hennar til að ferja vélina þennan dag. „Sjóvá hefur tjáð okkur að dómstólar verði að úrskurða í málinu. Við eigum engra kosta völ.“

Einstakur

Í minningargrein sem rituð var á sínum tíma kemur fram að Grant hafi látist við að gera það sem hann elskaði mest af öllu – að fljúga. Hann tók einkaflugmannspróf 16 ára gamall og lauk síðar meir atvinnuflugmannsprófi. Hann flaug víða um heim og víkkaði sjóndeildarhringinn; lifði meðal annars af flóðbylgjurnar við Indlandshaf árið 2004 og tók þátt í björgunaraðgerðum. Hann elskaði íþróttir, hafnabolta mest af öllu, og var þjálfari í hafnaboltaliði allra barna sinna.

Sarah ritaði einnig minningargrein á sínum tíma.

„Samband okkar var einstaklega opinskátt og náið og við gátum endalaust rætt um daginn og veginn,“ ritaði hún meðal annars. „Það var ekkert sem ég gat ekki rætt við hann um og ég átti alltaf stuðning hans vísan. Hann var vanur að segja að það væri algjörlega tilgangslaust að stressa sig yfir litlu hlutunum í lífinu, og að hann vildi ekkert frekar en að ég væri hamingjusöm og mér liði vel.“

Sarah hitti föður sinn í seinasta skipti rúmlega viku áður en hann lést og segist hafa skilið við hann „friðsæl og sterk.“

Hún segir fráfall föður síns hafa veitt henni hvatningu til að leggjast í ferðalög, og þannig ætli hún að heiðra sitt eigið líf um leið og hún heiðrar minningu föður síns.

Í minningarathöfn föður síns hélt Sarah sömuleiðis ræðu.

„Hann var ótrúlega góður pabbi, og fyrir mér þýðir það að hann var líka ótrúlega góður vinur,“ sagði Sarah meðal annars.

„Pabbi minn var alltaf til staðar fyrir mig tilfinningalega og kom fram við mig af hreinskilni, sem hefur kennt mér að njóta lífsins og umgangast það af ást og virðingu. Takk pabbi, þú varst frábær manneskja og ótrúlegur pabbi, ég elska þig svo mikið.“

Hér má nálgast heimasíðu söfnunarinnar.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Sýknaður að hluta eftir bílaeltingaleik í Kjós – Þótti ekki líklegur til stórræða á 19 ára gömlum bíl

Sýknaður að hluta eftir bílaeltingaleik í Kjós – Þótti ekki líklegur til stórræða á 19 ára gömlum bíl
Fréttir
Í gær

Hrafnhildur Bridde fasteignasali ákærð fyrir fjárdrátt upp á yfir 115 milljónir króna

Hrafnhildur Bridde fasteignasali ákærð fyrir fjárdrátt upp á yfir 115 milljónir króna
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Kröfur í bú veitingastaðarins Héðins reyndust mun meiri en áður var talið

Kröfur í bú veitingastaðarins Héðins reyndust mun meiri en áður var talið
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Björn Valur líkir ferð Sigmundar Davíðs í VMA við æluferð Ásmundar Einars

Björn Valur líkir ferð Sigmundar Davíðs í VMA við æluferð Ásmundar Einars