Nichole Leigh Mosty, stjórnarmeðlimur og verkefnisstjóri hjá Samtökum kvenna af erlendum uppruna á Íslandi, vill að Landspítalinn svari fyrir starfauglýsingar sínar. Þetta segir þingmaðurinn fyrrverandi í Facebook-færslu.
Nichole segir nýjar auglýsingar Landspítalans „Ýta undir neikvæðar staðalímyndir varðandi konur af erlendum uppruna.“
Í þessum auglýsingum sem Nichole ræðir um er annars vegar óskað eftir Hjúkrunarfræðingi og hins vegar starfsmanni í eldhús, en Nicole bendir sérstaklega á myndirnar sem fylgja auglýsingunum, sem hún telur afar neikvæðar.
„Hvítar íslenskar konur brosandi óskast á kvenlækingadeild 21A og kona dökk á hörund með hárnet í eldhús,“
Nichole bendir einnig á að konan sem sést á mynd í starfsauglýsingunni hafi ekki gefið leyfi fyrir myndbirtingunni.
„Hún gaf aldrei leyfi til að nota hennar andlit í auglýsinguna. Við óskum eftir því fyrir hennar hönd að þessi mynd verði tekin niður og önnur hlutlaus mynd af starfinu verði sett í staðinn.“
„En fremur teljum við það óþarfa fyrir LSH að ýta undir staðalímyndir af konum af erlendum uppruna í láglaunuðum störfum og Íslendinga í fagstarfinu þegar við vitum að LSH er með faglærðan hjúkrunarfræðing af erlendum uppruna í starfinu.“