Miklar umræður hafa skapast síðustu daga um brottvísanir hælisleitandi barna frá Íslandi, en í dag verður mótmælaganga frá Hallgrímskirkju niður á Austurvöll til að vekja athygli á að endursenda eigi börn til Grikklands, þar sem þeirra bíður aðeins ömurð og óvissa.
Hefur þingflokkur VG fengið mikla útreið í umræðunni, en það sem af er árinu 2019 hafa yfirvöld synjað 75 börnum á flótta um alþjóðlega vernd, á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar, sem sumir segja að sé brot á Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna, er kveður á um vernd barna og grundvallarmannréttinda þeirra.
Hefur Umboðsmaður barna kallað eftir fundi við dómsmálaráðherra og forstjóra Útlendingastofnunnar til að fara yfir mál barna sem fjallað hefur verið um í vikunni, sem senda á til Grikklands.
Sjá nánar: Mótmælaganga vegna brottvísunar flóttabarna frá landinu – „Líkamlegt og andlegt ofbeldi“
Samtökin Akkeri, sem „hafa það að markmiði að nýta þekkingu og reynslu þeirra sem hafa starfað sem sjálfboðaliðar við að taka á móti fólki á flótta og efla áframhaldandi hjálparstarf,“birtu árið 2016 myndband sem Katrín Jakobsdóttir, þá þingmaður Vinstri grænna, tók upp og sendi á samtökin þann 4. júlí sama ár.
„Akkeri óskaði á dögunum eftir myndböndum frá fólki sem vill bjóða flóttafólk velkomið. Við ætlum næstu daga að birta nokkur sýnishorn af þeim fallegu kveðjum sem við höfum fengið og byrjum á þessu myndbandi frá Katrín Jakobsdóttir, formanni vinstri grænna, þar sem hún segir það vera skyldu okkar allra að hjálpa fólki í neyð,“
segir á Facebooksíðu samtakanna.
Í myndbandinu, sem sjá má hér að neðan, segir Katrín meðal annars:
„Það er okkar skylda að hjálpa fólki og við getum tekið á móti fleirum“