Svo virðist vera sem Íslendingar sem hafa fé á milli handanna sæki frekar í að kaupa fasteignir á Spáni en sumarhús á Íslandi. Þannig hafa færri sumarhús selst það sem af er sumri en gengur og gerist.
Fjallað er um þetta í Viðskiptablaðinu sem kom út í dag.
„Við höfum séð að það er að verða mun algengara að fólk fjárfesti í húsi á Spáni eða ferðavögnum fremur en í sumarhúsi í íslensku sveitinni,“ segir Jón Rafn Valdimarsson, fasteignasali hjá Mikluborg, í samtali við Viðskiptablaðið.
Hann segir að venjulega hefjist sölutímabilið upp úr páskum en Jón segir að fljótlega hafi orðið ljóst að þetta sumar yrði ekkert í líkingu við sumarið fyrir tveimur árum. Erfitt sé að taka fyrrasumar í reikninginn þar sem veðrið þá var sérstaklega leiðinlegt, einkum á suðvesturhorninu. „Við höfum klárlega fundið fyrir minni sölu,“ segir hann.
Þá er haft eftir Heimi Hafsteini Eðvarðssyni, fasteignasala hjá Fasteignalandi, að aðstæður í efnahagslínu séu helstu ástæður minnkandi sölu.
„Umræðan í þjóðfélaginu hefur klárlega haft áhrif, til dæmis sú staðreynd að ferðamönnum sem koma hingað til lands er að fækka. Þessi neikvæða umræða hefur klárlega áhrif á kaupvilja fólks og ekki aðeins á sumarhúsum heldur líka bara fasteignum yfirhöfuð.“
Bæði Jón og Heimir telja að sumarhúsamarkaðurinn taki við sér í haust. Oft sé það þannig að sterkustu mánuðirnir séu ágúst og september.