Í dag skrifaði Vestfjarðastofa og Vesturlandsstofa undir samstarfssamning sem snýr að þróun ferðamannaleiðarinnar Hringvegs 2. Um er að ræða ferðamannaleið sem er um 850 km löng og liggur um sjö sveitarfélög á Vestfjörðum og Dalabyggð á Vesturlandi.
Lagt er upp með að ferðaleiðin Hringvegur 2 verði aðdráttarafl fyrir svæðið allt árið, en það verður raunhæfur möguleiki þegar Dýrafjarðargöng opna og í framhaldi af því heilsársvegur um Dynjandiheiði.
„Margir áhugaverðir staðir, söguslóðir og starfsemi eru á þessari leið og hér er um að ræða svæði sem við teljum að eigi mikið inni þegar að kemur að ferðaþjónustu,“
segir í tilkynningu.
Einnig hefur verið gengið frá samningi við breska ráðgjafafyrirtækið Blue Sail sem sérhæfir sig í þróun slíkra ferðamannaleiða og hefur meðal annars komið að verkefnunum, Arctic Coast Way á Norðurlandi, Celtic Routes og Wild Atlantic Way.
Gert er ráð fyrir að leiðin verði formlega opnuð á sama tíma og Dýrafjarðargöng sem áætlað er að verði í september 2020.