fbpx
Föstudagur 22.nóvember 2024
Fókus

María Birta stígur út fyrir þægindarammann: „Sú hugmynd að ég sé orðin atvinnuglímukappi er sprenghlægileg“

Guðrún Ósk Guðjónsdóttir
Þriðjudaginn 9. júlí 2019 15:35

María Birta Bjarnadóttir. Mynd: Eyþór/DV

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

María Birta, leikkona og athafnakona með meiru, hefur verið með annan fótinn úti í Los Angeles síðastliðin sex ár að reyna fyrir sér í einum harðasta bransanum þarna úti, Hollywood-bransanum. Nýlega skrifaði María Birta undir sinn stærsta samning til þessa og mun koma fram sem glímukappi og leikkona á sviði í Las Vegas og Skotlandi. Hún leikur í nýjustu kvikmynd stórleikstjórans Quentin Tarantino, sem er jafnan talað um sem stærstu mynd ársins. Við ræddum við Maríu Birtu um leiklistarferilinn, #MeToo-byltinguna, Tarantino-ævintýrið, fríköfun og margt annað.

Hollywood

Eftir að María Birta fékk græna kortið í Bandaríkjunum hefur hún átt mun auðveldara með að fá vinnu.

„Ég er búin að taka þátt í endalausum verkefnum síðasta hálfa árið eftir að ég fékk græna kortið,“ segir María Birta. Hún útskýrir það nánar og segir að vegabréfsáritunin sem hún hafði verið með áður takmarkaði hvaða hlutverk hún mátti taka að sér. „Þú þarft eiginlega að vera í aðalhlutverki í því sem þú ert að taka þátt í. Það er náttúrlega ekkert djók að koma frá Íslandi og ætla sér að keppa á móti öllum stærstu leikkonum í heimi fyrir hlutverk í stað þess að geta unnið sig hægt og rólega upp. Þannig að það er búið að vera miklu auðveldara að komast að núna.“

María Birta
María Birta í sólinni í Los Angeles. Mynd: Instagram/@mariabirta

#MeToo-byltingin breytti miklu

María Birta hefur upplifað Hollywood bæði fyrir og eftir #MeToo-byltinguna. Hún segir að margt hafi breyst, þökk sé byltingunni.

„Það er minna ætlast til af þér,“ segir María Birta og nefnir dæmi: „Ég fór í áheyrnarprufu hjá HBO fyrir stóra þáttaröð. Vanalega myndu þeir vilja að þú myndir ganga alla leið í áheyrnarprufum. Ég átti að fara úr blússunni, en mér var sagt að ég þyrfti þess ekki. Það hefði enginn pælt í þessu fyrir #MeToo,“ segir María Birta.

„Það eru svona litlir hlutir sem hafa breyst mjög mikið. Sérstaklega ef þú ert að leika í innilegri senu á setti, þá er sérstakur samræmingaraðili (e. intimacy coordinator). Það er kona, eða maður, sem vinnur sérstaklega við það að passa að öllum líði vel, til dæmis spyrja hvort það sé í lagi að mittið sé snert. Þetta eru litlu hlutirnir en gerir það að verkum að það eru allir rosalega öruggir á setti. Það munar mjög miklu, mikið betra.“

Fleiri hlutverk fyrir konur

María Birta segir að margt annað hafi breyst í bransanum í kjölfarið.

„Það eru miklu fleiri hlutverk í boði fyrir konur í dag. Miklu bitastærri og skemmtilegri hlutverk. Sérstaklega fyrir eldri konur, því þær hafa átt rosalega erfitt síðustu árin. Við eigum svo mikið af frábærum íslenskum konum sem eru komnar yfir fertugt og það er bara eitt og eitt hlutverk sem þeim býðst sem er skemmtilegt og bitastætt og þær langar að vinna með,“ segir María Birta og nefnir þáttinn Big Little Lies.

„Þetta er risastór þáttur. Þetta hefði kannski ekki alveg verið þátturinn fyrir tuttugu árum. Þetta er það sem er að gerast, fólk vill sjá kvenhlutverkin stærri og við erum að sækjast í það. Mér finnst alltaf, og ég pæli mikið í því sjálf, að ég sé að kjósa með peningunum mínum. Ég fer sérstaklega að borga mig inn í bíóhús að sjá öll kvenhlutverkin. Ég vil meira af þessu.“

María Birta
María Birta á setti FLOW – Fabulous Ladies Of Wrestling. Mynd: Instagram/@mariabirta

Feimin á sviði

Spennandi tímar eru fram undan hjá Maríu Birtu. „Ég er að vinna að mjög spennandi verkefni. Ég er að fara á svið í fyrsta skipti. Ég er mjög, mjög stressuð yfir því,“ segir María Birta og ljóstrar því upp að hún sé rosalega feimin manneskja.

„Ég á mjög erfitt með að fara upp á svið. Ég gæti alveg gert það ef þetta væri sena í bíómynd og það væru fimm hundruð manns úti í sal en það er eitthvað, ég bara fíla ekki að vera uppi á sviði. Mér finnst það mjög óþægilegt,“ segir María Birta. Henni bauðst þrjú önnur hlutverk á sama tíma en ákvað að taka þessu til að skora á sig sjálfa og stíga út fyrir þægindarammann. En hvaða verkefni er það sem María Birta er að fara að taka að sér?

„Ég er í raun ráðin sem glímukappi og leikari,“ segir hún. „Mér bauðst þetta hlutverk því upp á síðkastið er ég búin að vera að gera mínar eigin brellur (e. stunts). Mér finnst „action sport“ mjög skemmtilegt. Mig langaði að prófa eitthvað nýtt og er búin að vera að prufa mig áfram í mismunandi bardagaíþróttum.“

Því miður getur María Birta ekki sagt okkur mikið um verkefnið. „Ég skrifaði undir fimmtán blaðsíðna samning um að ég megi ekki segja neitt. En ég verð þarna í einhvers konar bardagasenu. Þetta verður í Skotlandi og Las Vegas.“

María Birta verður í tíu mánuði í Las Vegas. „Ég hef aldrei skrifað undir svona langan samning. Það fannst mér mjög stressandi, að festa mig niður því það er svo mikið í gangi. En þetta var svo spennandi tækifæri að ég gat ekki sagt nei.“

María Birta
María Birta og Elli Egilsson. Mynd: Instagram/@mariabirta

Leikur í stærstu mynd ársins

María Birta leikur í nýjustu Quentin Tarantino-myndinni, sem verður hans næstsíðasta kvikmynd. Myndin kemur út í næsta mánuði og er talað um að þetta sé stærsta mynd ársins. María Birta leikur Playboy-kanínu í myndinni.

„Ég veit í raun ekki hversu mikið sést í mig í myndinni,“ segir María Birta og segir söguna hvernig hún fékk hlutverkið ótrúlega fyndna. „Ég sótti um hlutverk og vissi að þetta yrði svona tímabilsmynd og mér fannst það æðislegt, ég elska þegar það eru búningar frá öðrum tímabilum,“ segir María Birta og bætir við að hún hafi ekki vitað að um væri að ræða Tarantino-mynd þegar hún sótti um hlutverkið.

Nokkrar vikur liðu og María Birta hafði ekkert heyrt frá framleiðendum myndarinnar. Hún reiknaði með að hafa ekki fengið hlutverkið.

„Svo kemur í ljós að ein stelpan sem fékk hlutverkið, en þetta eru tólf kanínur, held ég, laug svolítið mikið til um stærðina sína. Hún mætti og passaði ekki í búninginn. Þá var hringt í mig og ég spurð hvort ég væri viss um að mittið á mér væri nákvæmlega einhver ákveðin stærð. Ég sagðist halda það en hafi fengið mér risastórt vatnsglas þegar ég vaknaði og kannski væri það einum sentímetra stærra. Konan sem ég talaði við fór að skellihlæja í símann og sagði að það skipti engu, bara að ég væri um það bil í þessari stærð. Ég svaraði því játandi og var beðin um að mæta klukkustund síðar í mátun,“ segir hún.

Hjartað á Maríu Birtu fór á fullt og ætlaði hún ekki að trúa því að þetta væri að gerast. „Ég fór og mátaði búninginn sem smellpassaði og hann er geggjaður. Hann er alveg sérsniðinn að mér og saumaður eftir gamla stílnum. Það er geggjað að fá minn eigin búning sem er alveg saumaður á mig,“ segir María Birta. „Ég fór svo í tökur viku seinna og var á setti í tvo daga. Þetta var alveg ótrúlega gaman.“

Segir Tarantino snilling

María Birta hafði mjög gaman af því að vinna með Quentin Tarantino. „Hann er náttúrlega algjör snillingur og er algjör snillingur í að skapa geggjaðan móral á setti. Það er ótrúlega gaman að vinna á setti með honum því hann fær alla til þess að öskra í byrjun atriða frasa eins og: „Við erum hér því við elskum að gera kvikmyndir.“ Hann er svona einn af okkur, svo allir hafi gaman. Því það sést svo ef allir eru stressaðir. Tarantino er svo vingjarnlegur og skemmtilegur að þetta var svo afslappað einhvern veginn,“ segir María Birta.

Hún mun því miður ekki mæta á forsýningu myndarinnar hér á landi því hún verður í Skotlandi.

María Birta
María Birta elskar að vera í vatni og segir fríköfun skemmtilegt sport.
Mynd: Instagram/@mariabirta

Fríköfun

María Birta er að æfa fríköfun sem snýst um að kafa án súrefnisbúnaðar. Hún sá færslu frá vinkonu sinni á Facebook um fríköfun.

„Ég elska köfun og ég elska vatn. Ég var einu sinni í eina sundballett landsins. Mér líður mjög vel í vatni og stressast ekkert upp. Mér hefur líka alltaf fundist gaman að halda niðri í mér andanum og kafa,“ segir María Birta. „Ég skellti mér á námskeið og það gekk svona glimrandi vel, mikið betur en ég bjóst við. En það er vegna þess að ég á mjög auðvelt með að þrýstijafna eyrun á mér. Margir eiga erfitt með að fara svona djúpt niður og losa spennuna í eyrunum,“ segir María Birta og varð strax ástfangin af sportinu.

„Þetta er eitthvað sem allir ættu að læra. Þetta er magnað. Ég vissi ekki að líkami minn gæti gert það sem hann gerir þegar ég er í vatni. Það er bara erfitt að lýsa þessu, hvað maður lærir mikið á sinn eigin líkama í þessu sporti.“

Horfðu á Maríu Birtu segja frá atvikinu í spilaranum hér að neðan.

Hélt hún myndi deyja

Dýpsta sem María Birta hefur farið eru 42 metrar. „Ég þori nú alveg að viðurkenna það, en kennarinn minn sagði mér það ekki fyrr en deginum eftir, að ég mátti ekkert fara neðar en tuttugu metra, en ég vissi það ekki. Ég hélt ég mætti bara prufa mig áfram. Ég var áður búin að fara niður á 36 metra,“ segir María Birta og lýsir köfuninni.

„Ég fór niður og mér leið alveg rosalega vel, köfunin var búin að ganga mjög vel,“ segir María Birta og heldur áfram: „Ég var ekkert að pæla í hvaða dýpt ég væri að fara. Ég var með lokuð augun og toga mig niður. Síðan sneri ég mér við og sá töluna 38 við hliðina á mér. Ég trúði þessu ekki og vissi að það væri stutt í botninn. Það voru tíu mínútur í lokun á sundlauginni og ég ákvað að skella mér niður. Ég togaði mig niður, snerti botninn og spyrnti mér síðan upp. Um leið og ég spyrnti mér upp hugsaði ég: „Vá, þetta voru mikil mistök, þú ert að fara að drukkna,““ segir María Birta og hlær.

„Þetta var það fyrsta sem ég hugsaði. „Þetta var aðeins of langt, María mín.“ En svo var ég bara „jæja, ekki hugsa um þetta. Þú varst að æfa björgun og það eru allir þarna uppi að horfa á þig og voru líka að æfa björgun. Þannig þegar þú drukknar, vertu komin eins nálægt toppnum og þú getur.“ Ég hélt áfram að synda í rólegheitunum og alla leiðina upp var ég að segja mér sjálfri að hætta að panika og hugsa það versta. Því maður notar loftið þegar maður er að hugsa svona mikið. Svo allt í einu tek ég eftir því að ég er komin á fjórtán, fimmtán metrana, þá eru lungun orðin aftur nógu stór til að vinna með mér eins og loftblaðra og toga mig upp. Þegar ég finn að ég er farin að lyftast upp þá finn ég að ég næ á toppinn. En það var alveg smá panik þarna neðst niðri. Ó mæ god, þetta var klikkað.“

María Birta í Óróa.

Athyglin eftir Óróa

María Birta vakti mikla athygli eftir leik sinn í Óróa og skaust upp á stjörnuhimininn á Íslandi eftir að hafa leikið í Svartur á leik. Hún segir athyglina sem hún fékk eftir Óróa hafa verið óþægilegri en sú sem hún fékk eftir Svartur á leik.

„Mun óþægilegri. En það var kannski að ég bjóst ekki við þessari athygli eftir Óróa, engan veginn. Ég vaknaði bara einn daginn, þetta er það sem er svo fyndið við að vera í blöðunum, að þú veist ekkert fyrr en þú sérð blaðið til sölu í Bónus. Ég vakna einn daginn og á forsíðu Séð og heyrt stóð „Kynþokkafyllsti Íslendingurinn“ og svo stór mynd af mér. Það var svona: Guð minn almáttugur, hvað er í gangi hérna? Vinir mínir voru mjög duglegir að gera bilað grín að mér,“ segir María Birta.

„En öll sú athygli, því ég var svo engan veginn undirbúin fyrir hana, fannst mér mjög óþægileg. Ég var kannski aðeins meira tilbúin þegar Svartur á leik kom út en ég fór samt til Bretlands í þrjá mánuði daginn eftir frumsýningu.“

María Birta fyrir Svartur á leik.

Nektaratriðið

María Birta lék í nektaratriði í Svartur á leik. Hún segist ekki hafa fengið neikvæð viðbrögð nema frá einni manneskju.

„Það var ein stelpa sem fannst atriðið vera niðurlægjandi. Og ég er engan veginn sammála,“ segir María Birta. „Þetta var gróft atriði og ég geri mér grein fyrir því, en það var ástæðan fyrir því að ég fíla atriðið. Af því að ég var alveg sammála Óskari leikstjóra þegar hann sagði að hann vildi að þetta væri alveg eins og þetta er. Því þetta er ekki fallegur heimur.“

Henni fannst ekki erfitt að vera nánast nakin allan tímann. „Þetta er bara eins og hver önnur vinna fyrir mér. Ég kippi mér ekki upp við það að ég sé nakin eða aðrir séu naktir, enda erum við fyrir mér ekki mjög nakin. Það að ég sé berbrjósta þýðir ekki að ég sé nakin.“

Í kókópöffs-baði með Ólafi Darra

Aðspurð hvað sé það undarlegasta sem hún hefur lent í eða gert á leiklistarferlinum á María Birta erfitt með að ákveða.

„Jii … ég þarf aðeins að hugsa þetta. Það er mjög margt sem hefur verið mjög skrýtið. Ætli það skringilegasta sé ekki þegar ég og Ólafur Darri fórum í mjólkurbað með kókópöffs. Og sú sena var klippt út úr myndinni, hún hefur örugglega verið aðeins of skrýtin. En við vorum með skeiðar að borða kókópöffs í baði. Mjög spes,“ segir María Birta og vísar í kvikmyndina XL.

Dr. Phil reiður náungi

Við báðum Maríu Birtu um að segja okkur hvaða stjarna hafi komið henni á óvart fyrir að vera vingjarnleg og óvingjarnleg.

„Dwayne Johnsson er einn vingjarnlegasti náungi í heiminum. Hann er þekktur fyrir að vera mjög indæll og maður sá það. Ég spjallaði ekkert við hann en að sjá hann á setti, hann er ógeðslega fyndinn og yndislegur. Það er ástæðan fyrir því að honum gengur svona vel líka, hann er náttúrulega sjarmerandi,“ segir María Birta.

„Ég trúi ekki að ég sé að fara að segja þetta en Dr. Phil er ekkert ofboðslega næs gaur,“ segir María Birta og hlær. „Ég hef hitt hann nokkrum sinnum. Við búum við hliðina á Paramount Studios og ég hef yfir þrjátíu sinnum hitt hann. Konan hans er yndisleg og allir aðrir í fjölskyldunni hans en ekki hann. Hann er kominn með ógeð, vinnur hrikalega mikið og svo stingur hann af til Frakklands. Hann er alltaf þar á sumrin,“ segir María Birta. Hún segir hann ekki vera dónalegan heldur reiðan mann.

„Hann er kominn með ógeð af þessu, held ég. Svo er hann kannski bara rosalega næs heima hjá sér, en að sjá hann á setti. Um leið og það er öskrað CUT þá verður hann alveg brjálaður.“

Hamingjusöm hjón. Mynd: Instagram/@mariabirta

Pankynhneigð í hjónabandi

María Birta tilgreinir sig sem pankynhneigða og hefur verið gift listamanninum Ella Egilssyni síðan árið 2014.

„Ég hef alltaf laðast að persónuleikum en hafði aldrei heyrt um pankynhneigð fyrr en ég var 21 árs,“ segir María Birta. Þegar María Birta giftist Ella héldu margir að hún væri „orðin gagnkynhneigð“.

„Það fór rosalega í taugarnar á mér. Ég á ofboðslega marga vini í samkynhneigðum samböndum og skilgreina sig sem alls konar. Að sjá að um leið og ég var ekki sýnilega með hinu liðinu þá bara allt í einu hegða sér allir öðruvísi við mig. Mér finnst ég njóta allra þeirra forréttinda í lífinu sem ég fékk ekki þegar ég var að hitta kvenmann. Það var bara pirrandi að taka eftir því. Fólk sættir sig betur við mig eftir að ég giftist Ella,“ segir María Birta.

„Mér finnst fyndið þegar fólk segir við mig að það hafi grunað að ég væri gagnkynhneigð og þetta hafi bara verið tímabil áður en ég giftist Ella. Þá segi ég oft: „Já, þegar þú byrjaðir með manninum þínum, var það þá þegar þú varðst gagnkynhneigð? Ég hef oft sagt þetta, mér er alveg sama þó ég móðgi einhvern. Þetta er svo þröngsýnt að halda að ég breyti um kynhneigð við það að kynnast einhverjum þegar þú gerir það ekki. Þetta er svo heimskulegt, ætla að leyfa mér að segja það.“

María Birta og Elli kynntust á Facebook. María Birta sendi á hann fyrirspurn um málverk og aðeins tíu dögum seinna voru þau byrjuð saman. „Við vorum ekki einu sinni búin að hitta hvort annað en við urðum strax svo brjálæðislega ástfangin,“ segir María Birta.

Engin eftirsjá

Við spurðum Maríu Birtu hvort hún sjái eftir einhverju og hún svarar neitandi.

„Nei. Ég myndi ekki segja það,“ segir María Birta og segir að allt sem hafi gerst hafi leitt hana þangað sem hún er í dag.

„Sú hugmynd að ég sé orðin atvinnuglímukappi er sprenghlægileg. Elli er stundum bara: „Hvað er að gerast?“ En það var algjört djók og þannig er allt líf mitt og hefur alltaf verið. Það kemur einhver upp að mér og spyr hvort ég vilji prufa eitthvað, og svo allt í einu er ég í því alla daga. Þannig kom fyrsta hlutverkið. Baldvin Z og Ingibjörg Reynis báðu mig að koma í einhverja prufu. Ég fór í prufu upp á djókið og fékk hlutverkið,“ segir María Birta og vísar í Óróa.

„Svo er ég bara orðin leikkona. Svona hefur allt líf mitt verið. Það er ekki hægt að sjá eftir neinu. Þetta átti allt saman að gerast.“

Horfðu á þáttinn í heild sinni hér að neðan.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Í gær

Íslensk hjón fóru á kaffihús í miðbænum – Fengu áfall þegar reikningurinn kom

Íslensk hjón fóru á kaffihús í miðbænum – Fengu áfall þegar reikningurinn kom
Fókus
Fyrir 2 dögum

Mynd af hjónunum á veitingastað vekur athygli: Sorglegur sannleikur sem flest pör þekkja

Mynd af hjónunum á veitingastað vekur athygli: Sorglegur sannleikur sem flest pör þekkja
Fókus
Fyrir 2 dögum

Segja atvikið í bardaganum sýna að úrslitin hafi verið fyrir fram ákveðin

Segja atvikið í bardaganum sýna að úrslitin hafi verið fyrir fram ákveðin
Fókus
Fyrir 2 dögum

Dómnefnd FKA skipuð fyrir árlega viðurkenningarhátíð 

Dómnefnd FKA skipuð fyrir árlega viðurkenningarhátíð 
Fókus
Fyrir 3 dögum

Lára og lyfjaprinsinn eiga von á erfingja

Lára og lyfjaprinsinn eiga von á erfingja
Fókus
Fyrir 3 dögum

Örlagarík reynslusaga Evu Gunnarsdóttur komin út – Hefur tekist á við mikla erfiðleika

Örlagarík reynslusaga Evu Gunnarsdóttur komin út – Hefur tekist á við mikla erfiðleika
Fókus
Fyrir 4 dögum

Nýfæddu tvíburarnir fengu óhefðbundin nöfn

Nýfæddu tvíburarnir fengu óhefðbundin nöfn
Fókus
Fyrir 4 dögum

Sigmar um móður drengs sem kemur að lokuðum dyrum – „Öll fjölskyldan er í því að passa upp á að drengurinn deyi ekki“

Sigmar um móður drengs sem kemur að lokuðum dyrum – „Öll fjölskyldan er í því að passa upp á að drengurinn deyi ekki“