Þjóðhátíð í Vestmannaeyjum er magnað fyrirbæri sem flestir Íslendingar hafa einhverja reynslu af, en í ár eru 145 ár liðin frá því fyrst var haldin hátíð í Herjólfsdal. Í sögulegu samhengi er hátíðin einstök meðal íslenskra útihátíða. Þrátt fyrir að Þjóðhátíð í Eyjum hafi þróast í gegnum tíðina eru mörg atriði hennar byggð á áratuga hefðum.
Í júlí verður heimildarmyndin Fólkið í Dalnum frumsýnd, en það eru Eyjapeyjarnir Sighvatur Jónsson og Skapti Örn Ólafsson sem standa að myndinni.
Í kringum Þjóðhátíðina árið 2013 kviknaði hugmynd að gerð heimildarmyndarinnar hjá þeim Sighvati og Skapta Erni. Að þeirra mati var og er löngu kominn tími til að skrásetja þessa mögnuðu sögu í formi heimildarmyndar. Árið 2014 hófumst þeir félagar handa þegar liðin voru 140 ár frá því fyrst var haldin Þjóðhátíð í Vestmannaeyjum.
Upphaflega var ætlunin að gera einni hátíð skil í stuttri heimildarmynd. Fljótlega kom í ljós að það væri ekki raunhæft fyrir eitt tökulið að fanga viðburðinn með upptökum á einni hátíð. Undanfarin fimm ár hafa þeir Sighvatur og Skapti Örn þannig unnið að gerð heimildarmyndar um Þjóðhátíð.
Afraksturinn er mjög mikið af efni frá síðustu fimm hátíðum. Tekin hafa verið á annað hundrað viðtöl við fólk sem tengist hátíðinni með einum eða öðrum hætti og ætla má að annað myndefni telji nokkra tugi klukkutíma.
Hugmyndin er að segja sögu Þjóðhátíðar í gegnum upptökur síðustu ára. Fylgst hefur verið með tveimur fjölskyldum við hátíðahaldið, allt frá undirbúningi að frágangi. Fjallað verður um hefðirnar, tónlistina, lífið í hústjöldunum, sjálfboðaliðana og öryggismálin. Eyjamenn gera sér grein fyrir hversu mikið verk er að halda Þjóðhátíð sem er stærsta fjáröflun ÍBV íþróttafélags.
Tilgangurinn með útgáfu myndarinnar er að miðla sögu Þjóðhátíðar í nútíð og fortíð til stærri hóps en áður, innan lands sem utan. Hátíðin er elsta útihátíð landsins en sú fyrsta fór fram í Herjólfsdal 1874. Á alheimsvísu er fjölskyldu- og tónlistarhátíðin í Eyjum byggð á sterkari grunni en margar aðrar viðlíka skemmtanir.
Undanfarin ár hefur mikil umræða verið hér á landi um öryggisþátt Þjóðhátíðar og annarra útihátíða. Í myndinni verður fjallað sérstaklega um hversu mikil áhersla er lögð á gæslu og öryggi hátíðargesta. Þjóðhátíðarnefnd ÍBV vinnur að hátíðinni árið um kring og er mikill metnaður lagður í dagskrá og alla umgjörð.
„Þjóðhátíð í Eyjum hefur vaxið undanfarin ár og hefur skapast umræða meðal Eyjamanna um þolmörk hátíðarinnar. Með tilkomu Landeyjahafnar hefur flutningsgeta stóraukist. Í myndinni er fjallað um þróun hátíðarinnar og ljósi varpað á hversu miklu máli hún skiptir fyrir verslun og þjónustu í Eyjum,“
segir Sighvatur.
Halldór Gunnar Pálsson, kórstjóri Fjallabræðra og höfundur þjóðhátíðarlaganna Þar sem hjartað slær frá árinu 2012 og Ástin á sér stað frá 2016, sér um tónlistina í myndinni.
„Ég hef verið lánsamur síðastliðin ár að fá að kynnast Þjóðhátíð og heimamönnum og fengið að vinna náið með mikið af góðu fólki sem gerir hátíðina að veruleika hvert einasta ár. Ég hef fylgst með þessu verkefni í fjarska í þó nokkurn tíma og verið spenntur að sjá útkomuna. Ég er ánægður að vita til þess að verið sé verið að festa á filmu þá ótrúlegu vinnu sem fer í að koma þessu á koppinn. Einnig veit ég að þeir félagar eru að reyna að komast að kjarnanum í því hvað Þjóðhátíð er í raun og veru og svara þeirri spurningu hvað sé svona sérstakt við þessa hátíð,“
segir Halldór Gunnar sem efast ekki um að svarið leynist í myndinni.
„Þegar Sighvatur og Skapti Örn báðu mig um að taka að mér tónlistina í myndinni þá var svarið einfalt og svarið var já. Eftir 10 ár í Dalnum fannst mér ég vera tilbúinn í að skapa stemningu fyrir þessa mynd sem lýsir því hvernig mér líður þegar ég geng um Herjólfsdal,“
segir Halldór Gunnar.
Öllum upptökum er lokið og eftirvinnsla myndarinnar stendur yfir. Það er krefjandi að gera svo stóru og viðamiklu viðfangsefni skil sem Þjóðhátíð er. Það hefur útheimt mikla vinnu og ekki síður fjármuni.
Stærstu stuðningsaðilar myndarinnar á framleiðslutímabilinu hafa verið Menningarráð Suðurlands, Eimskipafélag Íslands, Vinnslustöðin í Vestmannaeyjum, Ísfélag Vestmannaeyja og ÍBV – íþróttafélag.
„Á endasprettinum við framleiðslu heimildarmyndarinnar leitum við nú eftir stuðningi í gegnum hópfjármögnunarsíðuna Karolina Fund. Þar verður hægt að styðja við bakið á okkur gegn því að fá meðal annars miða á forsýningu myndarinnar ásamt því að fá nafnið sitt í kreditlista hennar. Við stefnum á að forsýna Fólkið í Dalnum í Eyjum og í Reykjavík núna í júlí, en nánari upplýsingar liggja fljótlega fyrir. Við hvetjum alla unnendur Þjóðhátíðar til að leggja okkur lið,“ segir Skapti Örn.
Nánari upplýsingar um söfnina hjá Karolina Fund má finna hér:
https://www.karolinafund.com/project/view/2488