fbpx
Föstudagur 22.nóvember 2024
Eyjan

Hörður segir hæfisnefndarmenn vera fúskara – Seðlabankastjóraumsækjendur gátu sagt hvað sem er um sjálfa sig í viðtölum

Ritstjórn Eyjunnar
Föstudaginn 28. júní 2019 09:26

Hörður Ægisson

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Framkvæmd nefndarinnar á hæfnismatinu ber þess merki að vinnan hafi mestanpart verið í skötulíki. Í gagnrýni umsækjenda er bent á að nefndin hafi lagt huglægt og óskiljanlegt mat á stjórnunarhæfileika – enginn greinarmunur er gerður á reynslu stjórnenda sem höfðu mannaforráð og hins vegar setu í stjórnum í opinberum stofnunum – þar sem starfsferilskrár hafi verið teknar gildar án rannsóknar á því hvort fyrri störf hafi í raun krafist stjórnunarhæfileika. Umsækjendur gátu því, eins og einn nefnir, sagt hvað sem er um sjálfa sig. Allt er þetta með miklum ólíkindum,“

segir í leiðara Harðar Ægissonar, ritstjóra Markaðarins, í Fréttablaðinu í dag, en minnst sjö af þeim átta umsækjendum sem ekki voru metnir mjög vel hæfir til að gegna stöðunni, hafa andmælt mati hæfisnefndar og borið við verulegum vanköntum á ráðningarferlinu, hvar jafnræðisreglan hafi verið brotin.

Hörður segir að ráðningarferlið beri vott um „fúsk“:

„Skiptir hæfni í mannlegum samskiptum máli við mat á hæfni umsækjenda til að stýra einni mikilvægustu stofnun landsins? Að mati hæfisnefndar um embætti seðlabankastjóra virðist svo ekki vera. Sérstaklega var kveðið á um í skipunarbréfi hennar að hún skyldi meta hæfni umsækjenda í mannlegum samskiptum. Í drögum að niðurstöðum nefndarinnar, sem fjallað er um í Fréttablaðinu í dag, kemur hins vegar fram að hún hafi einungis stuðst við viðtöl nefndarmanna við tólf umsækjendur við mat á þessum þætti. „Í viðtölunum komu allir umsækjendur vel fyrir og er á grundvelli þeirra ekki forsenda til að gera upp á milli þeirra,“ segir í umsögninni. Svo mörg voru þau orð. Útilokað er að slík vinnubrögð, sem endurspegla ágætlega það fúsk sem einkennir alla vinnu nefndarinnar, væru viðhöfð þegar seðlabankastjórar í okkar nágrannaríkjum eru skipaðir.“

Ónothæft mat

Hörður nefnir að vald og ábyrgð eigi að haldast í hendur og telur vinnubrögðin áfellisdóm yfir störf nefndarinnar sem kalli á inngrip forsætisráðherra:

„Forsætisráðherra, í samráði við forystumenn ríkisstjórnarinnar, þarf að taka þá nauðsynlegu ákvörðun að setja hæfnismat nefndarinnar að mestu til hliðar og ráðuneytið framkvæmi þess í stað sitt eigið sjálfstæða mat á hæfni umsækjenda. Ráðherra á fárra annarra kosta völ. Það er óhugsandi að niðurstaða nefndarinnar, sem fer ekki með skipunarvaldið og hefur jafnframt misst allan trúverðugleika, verði að óbreyttu ein höfð til grundvallar við þessa stóru og mikilvægu ákvörðun.“

Ferlið

Tólf voru boðaðir í viðtal af hæfisnefndinni í fyrstu umferð. Þau Arnór Sighvatsson, Ásgeir Jónsson, Gylfi Magnússon, Jón Daníelsson og Katrín Ólafsdóttir voru í kjölfarið boðuð í aðra umferð viðtala, þar sem komið var inn á stjórnunarhæfileika, stjórnunarstíl og umfang mannaforráða, en þau atriðið voru nánast ekkert rædd í fyrstu umferð.

Þar af leiðandi töldu þeir sem ekki voru boðaðir í seinni umferðina að jafnræðisreglan hafi verið brotin, þar sem þeim gafst ekki kostur á að ræða um stjórnunarhæfileika sína fyrir nefndinni og því hafi nefndin ekki fengið heildstæðan samanburð á umsækjendum.

Hæfisnefndin mat fjóra karla mjög vel hæfa til að gegna starfi seðlabankastjóra, en það eru þeir Arnór Sighvatsson, Ásgeir Jónsson, Gylfi Magnússon og Jón Daníelsson.

Þá taldi hún þau Gunnar Haraldsson, Gylfa Arnbjörnsson, Katrínu Ólafsdóttur, Sturlu Pálsson og Sigurð Hannesson vel hæf til að vera seðlabankastjórar.

Þeir sem töldust hæfir voru Ásgeir Brynjar Torfason, Jón Gunnar Jónsson og Vilhjálmur Bjarnason.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt