Auðun Freyr Ingvarsson, sem sagði af sér sem framkvæmdastjóri Félagsbústaða í október í fyrra í kjölfar 330 milljóna króna framúrkeyrslu vegna framkvæmda við Írabakka, fékk greiddar alls 36,990 milljónir í laun og hlunnindi fyrir árið 2018. Laun Auðuns voru 20.5 milljónir árið 2017.
Þetta kemur fram í ársreikningi Félagsbústaða.
Auðun var einnig sakaður um eineltistilburði af þremur fyrrverandi starfsmönnum Félagsbústaða, en Auðun hafnaði þeim ásökunum alfarið. Sagði Vigdís Hauksdóttir, borgarfulltrúi Miðflokksins, að eineltismálið hefði verið þaggað niður innan Reykjavíkurborgar.
Kolbrún Baldursdóttir, borgarfulltrúi Flokks fólksins, kallaði eftir skýringum á þessum greiðslum á fundi borgarráðs í dag, þar sem hún spurði um hvort gerður hafi verið starfslokasamningur við Auðun. Hafi svo verið, óskaði hún eftir öllum upplýsingum um þann samning. Var fyrirspurn hennar vísað til Fjármála- og áhættusviðs.
Eyjan greindi frá því í síðustu viku að Reykjavíkurborg hefði gert alls 23 starfslokasamninga milli áranna 2011 og 2018, sem kostað hefðu 100 milljónir í viðbótargreiðslur umfram launasamninga.
Þar af stakk árið 2018 í stúf, þar sem alls 38.2 milljónir voru greiddar út fyrir alls fimm starfslokasamninga.
Tafla yfir starfslokasamninga og greiðslur Reykjavíkurborgar frá 2011 -2018.
Auðun Freyr hafnar því í samtali við Fréttablaðið að hann hafi gert starfslokasamning við Reykjavíkurborg og ekkert óeðlilegt sé við 37 milljóna greiðslu til hans á árinu 2018, um sé að ræða orlof og uppsagnarfrest:
„Það er bara einhver vitleysa. Þetta eru bara eðlileg starfslok. Fólk er með uppsagnarfrest og það er greitt út uppsagnarfrestinn. Hálft ár. Það var uppsafnað orlof og eitthvað slíkt. Þegar fólk hættir þá er greitt út sumarfrí sem var ekki tekið út.“
Sjá nánar: Auðun Freyr hafnar eineltisásökunum og kærir Morgunblaðið og blaðamann þess fyrir siðanefnd
Sjá nánar: Vigdís Hauksdóttir um eineltið:„Málið var þaggað niður“
Sjá nánar: Félagsbústaðir fóru 330 milljónir framúr áætlunum við endurbætur – Framkvæmdastjórinn sagði af sér