Bílar koma fyrir í fjölda kvikmynda, í þeim flestum gegna þeir ekki mikilvægara hlutverk en að koma sögupersónum frá A til B, en í nokkrum kvikmyndum eru þeir veigamikill hluti af sögunni. Kíkjum á nokkrar slíkar myndir.
Myndin, sem byggð er á bók Stephens King, segir frá Arnie, nördalegum unglingi sem eignast rauðan Plymouth Belvedere bíl sem kallast Christine, og fer í að gera hann upp. Eftir því sem vinnunni vindur fram, verður eigandinn sífellt meiri töffari. Vinur Arnie kemst að því að eiginkona og dóttir fyrri eiganda bílsins hafði látið lífið í bílnum og fljótlega fer hið rétta eðli Christine að koma í ljós.
Ferris Bueller ákveður að skrópa einn dag í skólanum og fær kærustu sína og besta vin sinn með í þau áform. Hann nær einnig að sannfæra vininn um að fá bíl föður hans, sem er Ferrari 250 GT 1961, „lánaðan“. Dagurinn verður eftirminnilegur, þar sem þau eru með skólastjórann á hælunum allan tímann, en hann grunar þau um græsku. Hins vegar fer ekki svo vel fyrir bílnum eins og sjá má í einu kostulegu atriði myndarinnar.
Tímaflakk hefur verið vinsælt þema í kvikmyndum og hér smíðar dr. Emmett Brown tímavél úr DeLorean DMC-12 bíl sem færir hann og vin hans, Marty McFly, til fortíðar og framtíðar, og heim aftur. Eini vandinn er að bíllinn þarf beina braut til að ná 88 mílum á klukkustund. Saman lenda vinirnir í alls konar vandræðum og ævintýrum, meðal annars því að móðir Marty verður ástfangin af honum í fortíðinni.
Njósnari hennar hátignar, James Bond eða 007, er ekki bara fyrir fallegar konur og vodka martini, hristan ekki hrærðan, hann keyrir líka um á aragrúa fallegra bíla, sem flestir eru búnir alls konar aukabúnaði sem nauðsynlegur er spæjara sem ætlar að bjarga heiminum á rúmum tveimur klukkustundum. Einn af þeim fallegustu er árgerð 1963 af Aston Martin DB5.
„The Tumbler“ sem Bruce Wayne/Batman keyrir um á er upprunalega hannaður fyrir herinn, útbúinn tveimur risastórum byssum að framan. Með því að ýta á réttan takka er hægt að þeysast út á mótorhjóli og einnig getur bílinn stokkið milli húsþaka. Nauðsynlegur bíll fyrir ofurhetju.