fbpx
Laugardagur 14.desember 2024
Fókus

Hópur hressra kvenna hjólaði um hálendi Íslands: „Svona ferð lifir lengi í minningunni“

Ragna Gestsdóttir
Sunnudaginn 30. júní 2019 19:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Anna Kristín Ásbjörnsdóttir kynntist fjallahjólum þegar hún var meðlimur í Hjálparsveit skáta, í dag skipuleggur hún fjallahjólaferðir um hálendi Íslands fyrir erlenda ferðamenn. Nýlega hjólaði hún með hóp íslenskra kvenna um ótroðnar slóðir á hálendi Íslands í ferð sem heitir Fjallahjólarokk.

Fararstjórinn Anna Stína nýtur sín í náttúrunni.

„Þetta er sjötta árið í röð sem ég býð íslenskum konum upp á Fjallahjólarokk sem gengur út á að kynna sér fjallahjólamennskuna á fjöllum. Inga Dagmar Karlsdóttir sá um fyrstu tvær ferðirnar með mér en nú vinn ég þetta eingöngu gegnum fyrirtækið mitt, Bike Company.“

Brottför: Hópurinn heldur af stað.
Hressar Konurnar voru allar ánægðar með ferðina.

Ferðirnar og hópinn notar Anna Stína til að prófa nýjar leiðir. „Það vita konurnar og koma með því hugarfari að stundum hef ég ekki farið leiðina sjálf. Þetta er orðinn þægilegur kjarni góðra kvenna sem þekkja konseptið mjög vel og svo eru aðrar sem eru að koma í fyrsta sinn. Það er alltaf gaman að kynna fjallahjól fyrir fólki í fyrsta sinn. Á hjóli upplifir maður hálendið með allt öðrum hætti.“

Konurnar voru þrjátíu talsins, sumar hafa mætt í allar Fjallahjólarokkferðirnar, aðrar eru að koma í fyrsta sinn. Sumar þekkja enga og mæta einar, á meðan aðrar koma nokkrar saman.

Skemmtilegast Anna Ragnhildur segir ferðina það skemmtilegasta sem hún hefur gert.

„Þetta er það allra skemmtilegasta sem ég hef gert á ævinni,“ sagði Anna Ragnhildur Halldórsdóttir, sem var í sinni fyrstu ferð. „Ég held að þetta sé það allra besta hrós sem þú getur fengið og sýnir hvað þetta er gaman,“ segir Anna Stína. „Nokkrar kvennanna fóru langt fram úr þægindarammanum, þetta er erfitt og sérstaklega fyrir óvanar, en svona ferð lifir lengi í minningunni. Þessar konur eru mjög fjörugar.“

Nagli Konurnar báru hjólin yfir straumharðar ár.

Hvaða leið hjóluðuð þið í ár? „Þetta er algjör leynileið,“ svarar Anna Stína og hlær, „þær hafa áður farið með mér frá Háafossi niður á Spöng, upp á Reynisfjall, allt Fjallabak nyrðra, núna vorum við meira að Fjallabaki syðra. Við hjóluðum í heild níutíu kílómetra, þar af fimmtíu kílómetra annan daginn, en ferðin var þrír dagar í heildina.“

Frakklandsreynsla nýtt fyrir fjallahjólaferðir

Árið 1996 bjó Anna Stína í Frakklandi og rak ferðaskrifstofu sem sérhæfði sig í göngu- og skíðaferðum um Norðurlöndin fyrir frönskumælandi ferðamenn. „Þegar ég flutti aftur heim tók ég mér smá pásu frá öllu sem heitir skipulagning eða leiðsögn. Svo bara dregst maður aftur að því sem maður þekkir best og hefur ástríðu fyrir,“ segir Anna Stína, sem bjó að mikilli reynslu frá Frakklandi í sölu ferða til Íslands, Færeyja, Grænlands og Noregs, auk þess sem hún vann sem leiðsögumaður í ferðunum.

„Eftir að ég flutti aftur heim tók ég þrjú ár í að leita að næsta tækifæri og var leiðsögumaður í alls konar ferðum; norðurljósaferðum, klassískum dagsferðum, vetrarferðum með skólahópa, Grænlandsferðum og erfiðum tjaldferðum fyrir fjallaleiðsögumenn,“ en Anna Stína lauk leiðsögunámi árið 2016 frá Háskóla Íslands.“

Anna Stína á fyrirtækið Bike Company, sem sérhæfir sig í fjallahjólreiðum á Íslandi. Fyrirtækið var stofnað af fjórum strákum og vinum sem voru alltaf með fjallahjólaferðir fyrir strákahópa. „Ég kem síðan inn með þeim árið 2015 og kaupi fyrirtækið árið 2017 og hef verið með það ein síðan. Ég byggi fyrirtækið út frá minni reynslu frá Frakklandi. Ég tók út dagsferðir og fór að skipuleggja lengri ferðir og er með sérhæfðar ferðaskrifstofur erlendis sem sjá um að selja ferðirnar fyrir mig. Þetta er bara að byggjast upp hægt og rólega. Þýska sjónvarpsstöðin Arte var með mér og sex öðrum konum í ferð í fyrrasumar og í myndbandi frá þeirri ferð sést mjög vel hvernig ferðirnar fara fram.“

Að sögn Önnu Stínu koma flestir þeirra sem hjóla í ferðum hjá henni frá Norður-Ameríku, en í sumar hafa Frakkar og Spánverjar komið sterkt inn. „Í boði eru mjög erfiðar ferðir fyrir mjög vana hjólara og svo auðveldari ferðir fyrir þá sem vilja meira njóta en þjóta. Jóga er blandað inn í sumar ferðirnar. Í flestum ferðum gistum við í fjallaskálum og á hostelum. Ég er mikið með sérhópa og sérferðir þannig að ég aðlaga mig að hverjum hópi fyrir sig.“

Næturstaður Einn af gististöðunum.

Anna Stína leggur mikla áherslu á mataræði og egótúrisma í öllum ferðum. „Að við förum vel með landið og hvernig við hjólum um það.“

Ferðirnar sem Anna Stína býður upp á eru ekki auglýstar fyrir Íslendinga. „En þeir eru velkomnir með og nú stendur til að bjóða upp á ferðir sem heita „Ride with the locals“ þar sem blandað væri saman erlendum og íslenskum ferðalöngum. Ég veit ekki um neinn sem býður upp á slíkar ferðir.“

Auk þess að hjóla með ferðamenn um landið á fjallafjólum tilheyrir Anna Stína tíu kvenna ævintýrahópi sem kallar sig Kríurnar. „Við ferðumst saman minnst tvisvar á ári, annars vegar á fjallahjólum og hins vegar á fjallaskíðum. Kríurnar eru 10 ára en árið 2009 fórum við í fyrstu alvöru fjallahjólaferðina þegar við hjóluðum Laugaveginn. Að vera í svona hópi og þvælast um landið gefur manni einnig heilmikla reynslu sem ég nýti fyrir fjallahjólaferðirnar mínar.“

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 2 dögum

„Ógeðslegt“ með hverri kærastinn er að halda framhjá – „Hún er sextug en klæðir sig eins og hún sé tvítug“

„Ógeðslegt“ með hverri kærastinn er að halda framhjá – „Hún er sextug en klæðir sig eins og hún sé tvítug“
Fókus
Fyrir 2 dögum

Læknar sögðu Anton Bjarka að hafa engar áhyggjur af góðkynja æxlinu – Fann fyrir reiði þegar það kom í ljós að það væri illkynja og ágengt

Læknar sögðu Anton Bjarka að hafa engar áhyggjur af góðkynja æxlinu – Fann fyrir reiði þegar það kom í ljós að það væri illkynja og ágengt
Fókus
Fyrir 2 dögum

Mun Karl Bretakonungur stíga til hliðar um jólin?

Mun Karl Bretakonungur stíga til hliðar um jólin?
Fókus
Fyrir 3 dögum

Þekkirðu fólkið? – Mexíkósk kona leitar upplýsinga um fólkið sem faðir hennar umgekkst sem skiptinemi á Íslandi fyrir hálfri öld

Þekkirðu fólkið? – Mexíkósk kona leitar upplýsinga um fólkið sem faðir hennar umgekkst sem skiptinemi á Íslandi fyrir hálfri öld
Fókus
Fyrir 4 dögum

Raunveruleikastjarna birti sláandi mynd – Hefur nánast eytt aleigunni að komast til botns í þessu

Raunveruleikastjarna birti sláandi mynd – Hefur nánast eytt aleigunni að komast til botns í þessu
Fókus
Fyrir 4 dögum

Elísabet Reynis um Ozempic – „Mitt svar er einfalt og hreint NEI!“

Elísabet Reynis um Ozempic – „Mitt svar er einfalt og hreint NEI!“