Reykjavíkurborg mun ekkert gera í máli Hildar Lilliendahl en líkt og hefur komið fram var hún í gær dæmd fyrir ummæli sín í tengslum við Hlíðarmálið svokallaða. Víða á samfélagsmiðlum hefur verið kallað eftir því að hún verði rekin úr starfi sínu á skrifstofu Reykjavíkurborgar.
Fréttablaðið greinir frá þessu og hefur eftir Bjarna Brynjólfssyni, upplýsingafulltrúa borgarinnar, að starfsfólk hafi alltaf frelsi til að tjá skoðanir sínar á opinberum vettvangi. Í það minnsta meðan trúnaður í starfi sé ekki brotinn. Bjarni segir það frelsi vera verndað af tjáningarfrelsisákvæði stjórnarskrárinnar.
Hildur var dæmd til greiðslu miskabóta vegna ummæla á samfélagsmiðlum um tvo menn tengda meintu nauðgunarmáli í Hlíðunum haustið 2015. Hildur var dæmd til að greiða hvorum manni 150 þúsund krónur, auk málskostnaðar.