Neytendasamtökin telja vexti smálána ólögmæta og hvetja lántakendur til að krefjast endurgreiðslu ólögmætra vaxta sem þeir hafi greitt. Mörg dæmi séu um að félagsmenn leiti til samtakanna vegna slíkra lána og jafnvel þekkt að menn hafi misst aleigu sína og heimili eftir að ólöglega háar upphæðir hafi verið teknar af bankareikningi þeirra. Þetta kemur fram á vefsíðu samtakanna. Þar er greint frá máli eins félagsmanns sem var djúpt sokkinn í vítahring smálánanna.
Félagsmaður Neytendasamtakanna leitaði aðstoðar fyrir hönd sonar síns sem er fastur í vítahring smálána. Hann sýndi samtökunum yfirlit yfir lánin og vextina sem voru rukkaðir af þeim.
Sonurinn hafði á rúmu ári tekið rúmlega 1,9 milljónir í lán frá smálánafyrirtækjum. Bak við þá upphæð liggja um 100 smálán og mörg þeirra voru tekin aðeins til að greiða upp fyrri lán. Lánin voru öll veitt til skamms tíma, eða 15-30 daga. Af þessum lánum kröfðust smálánafyrirtækin um 525 þúsund króna í vexti.
„Útreikningur Neytendasamtakanna sýna að samkvæmt lögum hefði smálánafyrirtækin í mesta lagi mátt innheimta 60 þúsund króna í vexti. Vextir smálánafyrirtækjanna voru frá 1.500% til 3.000% á ársgrundvelli, en hámark leyfilegra vaxta samkvæmt lögum er 50% auk Seðlabankavaxta.“
Þar með hafði sonurinn greitt 425 þúsund krónur um fram löglegt hámark vaxta. Neytendasamtökin eru nú að aðstoða feðgana við að endurheimta þá upphæð.
Neytendasamtökin hvetja alla þá sem hafa tekið smálán að krefjast þess að fá yfirlit um lánsupphæði, lánstíma og þá fjárhæð sem þeir hafa greitt.
„Það er mat Neytendasamtakanna að ekki megi innheimta kröfur sem bera ólöglega vexti og munu samtökin halda áfram að berjast fyrir félagsmenn sína til að ná fram rétti sínum.“
Neytendasamtökin hvetja önnur fyrirtæki til að aðstoða smálánafyrirtækin ekki með neinu móti. Hvorki með því að selja þeim auglýsingar, sinna greiðslumiðlun, innheimtu eða á nokkurn annan hátt sem geti styrkt rekstur þeirra.
„Það er einungis með aðstoð eða andvaraleysi venjulegra fyrirtækja sem þessi starfsemi þrífst.“