Albertína Friðbjörg Elíasdóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, kaus að afsala rétt sínum til að svara andsvari Gunnars Braga Sveinssonar, þingmanns Miðflokksins, á Alþingi í dag í umræðum um gjaldtöku vegna fiskeldis í sjó og fiskeldissjóðs.
Gunnar Bragi hafði spurt Albertínu:
„Telur háttvirtur þingmaður ekki áhyggjuefni, að í tillögunum meirihlutans sé ekki gert ráð fyrir hvernig þessi fiskeldissjóður eigi að starfa ?“
Á meðan að ræðu Gunnars Braga stóð vék Albertína sér að Bryndísi Haraldsdóttur, 6. varaforseti þingsins og þingmanns Sjálfstæðisflokksins, sem að lokinni ræðu Gunnars Braga sagði, eftir nokkra rekistefnu:
„Þingmaður hefur afsalað sér réttinum til að svara andsvari.“
Kynnti hún svo Ólaf Ísleifsson í pontu.
Albertína vildi ekki tjá sig um málið við Eyjuna, en Albertína er ein þeirra sem kom til tals á Klaustur barnum þar sem þingmenn Miðflokksins hæddust að hinum og þessum í þjóðfélaginu, svo mörgum þótti nóg um, þar á meðal siðanefnd Alþingis, sem taldi að ummælin féllu undir gildissvið siðareglna þingmanna. Forsætisnefnd á hinsvegar eftir að álykta um þá niðurstöðu.
Björn Leví Gunnarsson, þingmaður Pírata, bendir á þetta á Facebooksíðu sinni og lofar Albertínu fyrir framtak sitt:
„Rokkfokkingstig til Albertínu sem svaraði ekki andsvari Gunnari Braga. Takk fyrir að vera þú Albertína.“