fbpx
Miðvikudagur 25.desember 2024
Fréttir

Karítas myndaði hælisleitendur á Ásbrú

Auður Ösp
Sunnudaginn 16. júní 2019 19:00

kajasigvalda

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Fólk skilur oft ekki frá hvaða aðstæðum þetta fólk er að flýja og hvað blasir við þeim ef þeim er skipað að snúa til baka. Þetta er spurning um líf eða dauða,“ segir Karítas Sigvaldadóttir, mannfræðingur og ljósmyndari, en hún myndaði hælisleitendur á Ásbrú og fékk að heyra sögur þeirra í tengslum við lokaverkefni sitt úr Ljósmyndaskólanum.

Einsleitur fréttaflutningur af hælisleitendum

„Ég útskrifaðist með BA-gráðu úr mannfræði í fyrra en ég hef alltaf haft mjög mikinn áhuga á málefnum minnihlutahópa,“ segir Karítas aðspurð um hver kveikjan hafi verið að verkefninu. Hún segir fréttaflutning af málefnum hælisleitenda oft vera frekar einsleitan. „Það hefur lítið verið greint frá því hvernig ástandið er raunverulega hjá þessu fólki. Hvað þau hafa gengið í gegnum og hvað þau eru að upplifa. Mig langaði að veita innsýn inn í þeirra upplifun og líðan.“

Karítas Sigvaldadóttir

Karítas byrjaði á því að hafa samband við hælisleitendur sem höfðu áður verið í viðtölum við fjölmiðla og komst þá í kynni við Ali Alameri frá Írak og Milad Waskout frá Íran. Hún mætti síðan upp á Ásbrú til að fá viðtöl við fólk en það reyndist erfitt í fyrstu.

„Margir voru tortyggnir og spurðu til dæmis hvort ég væri blaðakona. Þá voru sumir þeirra hræddir um að hægt yrði að rekja upplýsingarnar til þeirra og að stjórnvöld myndu nota það gegn þeim. Það var eiginlega ekki fyrr en ég kynntist Ali að boltinn fór að rúlla. Hann var alveg yndislegur, hann hafði samband við fólk fyrir mig og var síðan túlkur,“ segir Karítas. Ali var vísað til Noregs í síðustu viku, og mun að öllum líkindum  vera vísað aftur úr landi þaðan, í lífshættulegar aðstæður í Írak.

Lýstu hræðilegum aðstæðum

Karlmenn sem koma einir til landsins dvelja saman í húsnæði að Ásbrú þar sem óviðkomandi er bannaður aðgangur og öryggisverðir beina fólki burt. Karítas þurfti því að hitta mennina fyrir utan húsið, á kaffihúsum eða úti í bíl. Hún ræddi við hátt í 30 manns í tengslum við verkefnið. Sumir af þeim voru búnir að dvelja á Ásbrú í nærri því heilt ár.

kajasigvalda

„Sumir deildu mjög litlu með mér, aðrir voru opnari. Sumir höfðu fengið höfnun við umsókn sinni um hæli og voru að bíða eftir niðurstöðu úr áfrýjun, aðrir voru að bíða eftir fyrsta svarinu. Það er rétt hægt að ímynda sér hvernig það er að reyna að byggja upp líf og mynda tengsl hér á landi og vera svo sendur út í óvissuna og jafnvel dauðann,“ segir Karítas en titill verkefnisins er Banvæn brottvísun.

Fjölskyldur á Ásbrú búa í íbúðum í öðru húsnæði. Auk karlmannanna ræddi Karítas við þrjár barnafjölskyldur.

„Þau tóku mér ofboðslega vel, voru yndisleg og gestrisin og buðu mig velkomna. En það var átakanlegt að heyra sögur þeirra og sjá myndir af aðstæðunum sem þau höfðu búið við.“

Ein fjölskyldan samanstóð af hjónum og þremur ungum börnum en elsti sonur þeirra hafði verið myrtur af talíbönum sem síðan hótuðu að myrða alla fjölskylduna. Fjölskyldan þurfti því að leggja á flótta.

„Eiginkonan vildi ekki láta taka mynd af sér og eiginmaðurinn vildi ekki að andlit hans myndi þekkjast á myndinni vegna þess að hann vildi ekki að neinn vissi af því að þau væru á Íslandi. Þau lýstu meðal annars hræðilegum aðstæðum í Grikklandi. Börnin þurftu að  flakka á milli tjaldbúða og jafnvel sofa á götunni. Þau urðu líka vitni að miklu ofbeldi og eiturlyfjanotkun.“

kajasigvalda

Aðstæður fjölskyldufólksins eru að sögn Karítasar afar fábrotnar og lítið sem minnir á heimili. Engar bækur, listaverk eða skreytingar á veggjum; lítið er um afþreyingu og hjá einni fjölskyldunni var sjónvarpið bilað. Þá voru nær engin leikföng fyrir börnin. Hún segir hælisleitendur upplifa að þeir séu gleymdir í kerfinu. Fólk sé vissulega þakklátt fyrir að hafa húsnæði og að geta eldað en þau upplifi gríðarlega einangrun. Aðstæðurnar minni um margt á fangelsi.

„Það er dýrt að taka strætó til Reykjavíkur þegar þú ert að lifa á 7 til 8 þúsund krónum á viku. Þannig að þau eru þarna í marga mánuði að gera ekki neitt,“ segir Karítas og bætir við að þá geti liðið margir mánuðir þangað til börnin fá að fara í skóla.

kajasigvalda

Leyfa sér ekki að dreyma

Karítas segir flesta hælisleitendur upplifa gríðarlegt vonleysi. „Sérstaklega karlmennirnir. Þeir eru orðnir svo vanir því að einhver í húsinu sé vakinn upp um miðja nótt og sendur úr landi. Þeir eru allir að reyna eins og þeir geta að halda í vonina.“

Karítas segist ekki hafa orðið vör við að fólkið hafi upplifað fordóma hér á landi. „Viðhorfið þeirra var frekar þannig að Íslendingar væru mjög opnir og hlýlegir. Gagnrýnin beinist að stjórnvöldum, að það sé verið að framfylgja Dyflinnarreglugerðinni og halda mönnum í einangrun á meðan.“

kajasigvalda

Einn af karlmönnunum sem Karítas ræddi við á sér þann draum heitastan að fá atvinnuleyfi á Íslandi og verða leikskólakennari. „Það er mikilvægt að hafa í huga að hælisleitendur eru fyrst og fremst fólk, ólíkir einstaklingar með ólíkar þarfir og væntingar. Sumir eru með stóra drauma varðandi framtíðina en aðrir leyfa sér það ekki, fyrir þeim er nóg í bili að hafa stað að búa á.“

Meirihluti einstaklinganna sem Karítas ræddi við voru haldnir áfallastreituröskun og margir að glíma við þunglyndi og kvíða. „Einn þeirra sagði við mig að hann væri að berjast við mikið þunglyndi og að honum liði margfalt verr með því að vera einangraður á þennan hátt. Þegar ég spurði einn úr hópnum af hverju hann hefði flúið heimalandið þá svaraði hann: „Ég man það ekki.“ Hann treysti sér ekki einu sinni í að rifja það upp.“

Viðbrögðin við verkefninu létu ekki á sér standa á útskriftarsýningu Ljósmyndaskólans. „Það voru margir sem sögðu mér eftir á að þau hefðu ekki gert sér grein fyrir hversu alvarleg staðan væri hjá þessum hópi,“ segir Karítas en hún segist vel geta hugsað sér að fara lengra með verkefnið og jafnvel nýta þá aðra miðla.

kajasigvalda

„Það er að mörgu leyti búið að afmennska þennan hóp og þess vegna er svo auðvelt að ráðast gegn þeim. Við verðum að hafa í huga að þetta eru manneskjur og þau eiga rétt á öruggu lífi í öruggu umhverfi eins og við öll.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Eiginkona Assads sögð ætla að sækja um skilnað

Eiginkona Assads sögð ætla að sækja um skilnað
Fréttir
Í gær

Siggi lýsir fyrstu jólunum án sonarins sem lést á árinu – „Maður er foreldri áfram. Maður verður að sýna andlitið“

Siggi lýsir fyrstu jólunum án sonarins sem lést á árinu – „Maður er foreldri áfram. Maður verður að sýna andlitið“
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Sólveig Anna óttast ekki Sigurð G. og SVEIT – „Bring it on“

Sólveig Anna óttast ekki Sigurð G. og SVEIT – „Bring it on“
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Þessi matvæli eiga alls ekki að geymast í ísskáp

Þessi matvæli eiga alls ekki að geymast í ísskáp
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Vatnsstríð á Reykhólum – Norðursalt var óstarfhæft eftir að Þörungaverksmiðjan skrúfaði fyrir rörið

Vatnsstríð á Reykhólum – Norðursalt var óstarfhæft eftir að Þörungaverksmiðjan skrúfaði fyrir rörið
Fréttir
Fyrir 3 dögum

Mælir með að heimsækja þessa tvo staði í Evrópu áður en þeir verða of vinsælir

Mælir með að heimsækja þessa tvo staði í Evrópu áður en þeir verða of vinsælir