fbpx
Fimmtudagur 21.nóvember 2024

Innlit í líf listmálara

Kristinn H. Guðnason
Laugardaginn 15. júní 2019 20:00

Örlygur Sigurðsson Vísir 12. september 1976.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Örlygur Sigurðsson listmálari var alinn upp á Akureyri. Hann lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum á Akureyri árið 1940 og fór þá til Bandaríkjanna til að stunda myndlistarnám. Lærði hann við Minneapolis School of Art, Choinard School of Art í Los Angeles og Arts Student League í New York. Á eftirstríðsárunum dvaldi hann í Parísarborg. Haustið 1976 leit Jón Ormur Halldórsson, blaðamaður Vísis, við hjá Örlygi og tók við hann gott viðtal í gömlum sveitabæ í Laugardalnum.

„Ég er dauðfeiminn að eðlisfari þó ég sé alltaf með kjaftinn uppi. Það vilja ekki margir trúa þessu en svona er þetta samt. Maðurinn er ekki allur þar sem hann sýnist,“ sagði Örlygur.

 

Sveit í borg

Sagðist hann aldrei ætla að flytja úr húsinu, nema þá í böndum. Húsnæðið var ákaflega sérstakt en hlýlegt.

„Þetta hús er utan alls skipulags og það hæfir mér vel. Það hefur aldrei verið mikið skipulag á mínu lífi. Ofskipulagning þrúgar manninn og ég gæti aldrei kunnað vel við mig í neinu af þessum vel skipulögðu borgarhverfum. Þeir reyndu meira að segja að bjóða mér gefins lóð hérna við Sunnuveginn, sem er víst voða fínt hverfi, en ég sagði þeim að ég færi hvergi, ótilneyddur. Ég er búinn að búa hér í 30 ár og til skamms tíma vissi ég ekki hvort þetta hús fengi að standa. Fyrir utan húsið sjálft eru skepnuhús hér á bak við sem ég nota fyrir geymslur. Þetta svæði var ætlað undir eitthvað allt annað en mannabyggð á skipulagi borgarinnar.“

Ástandið batnaði þó töluvert eftir að heitt vatn var sett í húsið. Sagði Örlygur það vera það besta sem hann hefði fengið í húsið. En staðsetningin var fullkomin fyrir hann, hann hafði nálægðina við skarkala borgarlífsins en jafnframt kyrrð sveitarinnar. Úrvals aðstæður fyrir listamann.

Til Akureyrar fór Örlygur jafnan einu sinni á ári. Að eigin sögn aðeins til að njóta veðurblíðunnar og skaffa efni í kjaftasögur fyrir bæjarbúa. „Nei, Akureyri er allt of penn bær fyrir mig.“

Um menntun sína í Bandaríkjunum sagði Örlygur að þangað hafi hann orðið að fara vegna þess að Evrópa var lokuð í stríðinu. Eftir stríð fór hann, eins og flestir listamenn, í „pílagrímsferð“ til Parísar.

„Við vorum þarna nokkrir Íslendingar saman. Sumir þessara manna eru núorðið þjóðkunnir listamenn, rithöfundar og málarar. Við lifðum bóhemlífi í París og skemmtum okkur konunglega. Ég þeysti svo suður meginlandið og gerði víðreist.“

 

Skyggndist undir yfirborðið

Örlygur sagðist ekki þekkja neitt annað en að vera málari en eina starfið sem hann hafði annað unnið var á síld á Hjalteyri. Það væri þó erfitt að hafa myndlistina að atvinnu á Íslandi. Tekjurnar væru litlar og stopular en hann ætti þó góða konu sem með dugnaði sínum gerði þetta kleift.

„Ég sakna þess að sumu leyti að hafa lært að mála. Hérna í dentíð lék maður sér eins og barn með léreftið og litina og kunni ekkert að mála, maður var óbundinn og frjáls. Þegar ég kynntist listinni meira fann ég stöðugt meira til vanmáttar míns og mér finnst alltaf erfiðara að mála eftir því sem árin líða og ég kynnist listinni betur“ og enn fremur: „Ég mála orðið mest eftir pöntunum, þar sem ég er að mestu leyti í portrettmálun. Þó fæ ég inspírasjón við og við og festi hana á léreftið.“

Portrettmálun var einmitt þar sem hæfileikar Örlygs komu best fram. Hann reyndi að skyggnast undir yfirborð persónunnar sem hann málaði og draga karakterinn fram. Hann sagði:

„Maður ýkir ofurlítið sérkenni og reynir að láta manninn sjálfan koma fram. Það hjálpar mér mikið við þetta að ég vann hér áður fyrr við karikatúr. Ég teiknaði skopmyndir af fólki.“

 

Portrettmálun
Ýkti og dró fram persónueinkennin.

Umstang í kringum bókaútgáfu

En Örlygur var ekki aðeins fær listmálari. Hann var einnig þekktur fyrir ritstörf sín sem hann hóf þó ekki fyrr en um fertugt.

„Mér líkaði að mörgu leyti betur við það tjáningarform en myndlistina. Ég sameinaði þessar tvær greinar í bókum mínum með því að myndskreyta þær. Ástæðan fyrir að ég er hættur þessu, í bili að minnsta kosti, er að umstangið í kringum bókaútgáfu átti ekki við mig. Mér leiddust þessar fjármálareddingar í kringum þetta, nú skrifa ég lítið nema einhver nákominn hrökkvi upp af. Þá skrifa ég minningargrein um viðkomandi.“

Að hans sögn varð þetta þó til þess að lengja líf nokkurra gamalla frækna hans.

„Mér er sagt að þær séu svo hræddar við að ég skrifi um þær minningargrein að þeim látnum að þær þori ekki að deyja. Það er svo sem ágætt ef maður getur stuðlað að langlífi sinna nánustu,“ sagði hann kíminn. „Ég held að ég fari ekki út í frekari bókaútgáfu á næstunni. Forlagið mitt, Bókaútgáfan Geðbót, er þó enn við lýði og hefur skrifstofuaðstöðu í Volvonum mínum.“

 

Ekki hrifinn af Svíþjóð

Örlygur var víðförull maður og dvaldi um tíma á Grænlandi með þeim sem hann kallaði „villimenn“. Svíþjóð kunni hann þó illa við. Þar væri allt ofskipulagt og þrúgandi og allt svo hreint að það fær ópersónulegt svipmót. Í Svíþjóð væri jöfnuðurinn líka að kæfa allt.

„Svíar keppast um að hneykslast á Ameríkönum og gagnrýna þá fyrir allt sem miður fer í heiminum. Það er nú samt svo að þeir eru meira ameríkaníseraðir en við. Þeir draga mjög dám af Ameríkönum og apa eftir þeim á sviði vísinda og tækni. Tilfellið er, að þeir bera mikla virðingu fyrir Kananum þótt þeir láti svona. Ég tók líka fljótt eftir því að ég fékk miklu betri þjónustu þegar ég sló um mig á ensku en þegar ég reyndi að babla eitthvað á skandinavísku.“

Engu að síður vildi Örlygur ekki titla sig sem hægrimann, hann væri frekar óflokksbundinn og laus við alla isma.

Örlygur vann dyggilega að list sinni út lífið og hélt fjölda sýninga. Einna þekktastur var hann fyrir að hafa gefið sínum gamla skóla, Menntaskólanum á Akureyri, hvalbein. Hefur það verið á skrifstofu skólameistara og er eitt af táknum skólans. Örlygur lést árið 2002.

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

433Sport
Fyrir 6 klukkutímum

Andri framlengir í Garðabæ

Andri framlengir í Garðabæ
Fréttir
Fyrir 7 klukkutímum

Virknin í gosinu stöðug – Hraunið á bílastæði Bláa Lónsins enn á hreyfingu

Virknin í gosinu stöðug – Hraunið á bílastæði Bláa Lónsins enn á hreyfingu
Fréttir
Fyrir 8 klukkutímum

Þorvaldur kaus utan kjörfundar en grunar að maðkur sé í mysunni – „Hvað ætli Hæstiréttur myndi segja um það kæmi málið til kasta hans?“

Þorvaldur kaus utan kjörfundar en grunar að maðkur sé í mysunni – „Hvað ætli Hæstiréttur myndi segja um það kæmi málið til kasta hans?“
Fréttir
Fyrir 8 klukkutímum

Hvar er Svanberg? – Telur elskhuga eiginkonu Geirfinns hafa lykilupplýsingar í málinu – Hefur farið huldu höfði í Þýskalandi

Hvar er Svanberg? – Telur elskhuga eiginkonu Geirfinns hafa lykilupplýsingar í málinu – Hefur farið huldu höfði í Þýskalandi
433Sport
Fyrir 9 klukkutímum

Vonast til að fréttirnar af Guardiola og 17,5 milljarður sannfæri Haaland

Vonast til að fréttirnar af Guardiola og 17,5 milljarður sannfæri Haaland
Fréttir
Fyrir 9 klukkutímum

Lögfræðingur segir lögregluna á Suðurnesjum hafa gert ólöglega húsleit á heimili hans – „Ég er reiður“

Lögfræðingur segir lögregluna á Suðurnesjum hafa gert ólöglega húsleit á heimili hans – „Ég er reiður“