Orðið á götunni er að senn líti nýr veitingastaður dagsins ljós hér á landi, sem mun sérhæfa sig í flatbökum. Sem kunnugt er þá sagði Þórarinn Ævarsson upp framkvæmdastjórastarfi sínu hjá Ikea í apríl síðastliðnum, en hann kom meðal annars að stofnun Dominos árið 1993 og kom fyrirtækinu í fremstu röð fram til ársins 2005.
Þórarinn, sem er bakari að mennt, er sagður í samstarfi með athafnamanninum Sigmari Vilhjálmssyni, sem áður var kenndur við Hamborgarafabrikkuna, en er nú helst kenndur við þriðja orkupakkann.
Sáust þeir kumpánar saman á dögunum, en Sigmar setti mynd af þeim á Instagram undir myllumerkinu #tveirharðir, sem hefur gefið sögusögnunum um samstarf þeirra byr undir báða vængi.
Orðið á götunni er að veitingastaðurinn fái nafnið California Pizza Kitchen, sem er Bandarísk keðja er stofnuð var árið 1985 og nær til Mexíkó, Ástralíu, Asíu og Suður-Ameríku og er með um 250 staði í Bandaríkjunum.
Þórarinn neitaði því í byrjun maí að hann væri að opna nýjan pizzastað, en sagði í sömu andrá að það væri aldrei að vita hvað gerðist.