Skarphéðinn Berg Steinarsson ferðamálastjóri segir ekkert benda til þess að áhugi erlendra ferðamanna á Íslandi hafi minnkað. Samdrátturinn í ár sem virðist ætla að verða verulegur sé tilkominn vegna minna framboðs af flugsætum eftir fall WOW, en nokkurn tíma virðist ætla að taka fyrir önnur flugfélög að fylla í það skarð.
Þetta kemur fram í umfjöllun á vefnum turisti.is. Þar kemur fram að ISAVIA birti á föstudag nýja spá þar sem reiknað er með að um 1,9 milljónir erlendra ferðamanna heimsæki landið í ár eða um 400.000 færri en í fyrra. Skarphéðinn Berg telur að flugsætaframboð muni aukast aftur og í náinni framtíð muni því ferðamönnum hingað til lands fjölga á ný.
Í grein í Morgunblaðinu kemur fram að margir seljendur ferða og afþreyingar hér innanlands hafi enn ekki fundið að ráði, ef þá nokkuð, fyrir fækkuninni, en ferðamenn hingað til lands í maí voru um fjórðungi færri en í sama mánuði í fyrra. Í Moggagreininni er þeirri skoðun vísað á bug að hrun sé að eiga sér stað í ferðaþjónustunni.