„Snapparar, þið hafið kennt mér að lífið er svo miklu betra ef ég bara þríf húðina á mér með tveimur mismunandi vörum á kvöldin, ber svo á mig þrjú mismunandi krem og nota uppáhalds maskana ykkar þess á milli. Ég sver það, það er allt annað að sjá mig,“ segir í upphafi pistils sem birtur er á Menn.is og hefur slegið í gegn. Þar fá íslenskir lífstílsbloggarar og snapparar á baukinn. Pistillinn er kaldhæðinn og skilaboðin eru að Íslendingar hugsi of mikið um að eignast alla skapaða hluti og hamingjan sé ekki fólgin í því. Pistlinum er beint eins og áður segir að íslenskum lífstílsbloggurum.
„Ég má samt ekki gleyma að hugsa um hárið og neglurnar. Það er lágmark að eiga nokkrar tegundir af hármaska, hárnæringu og sjampói, olíu í hárendana,olíu á naglaböndin, æj fokkit keyptu þetta bara allt! Ég ætla samt ekki að eyða öllum peningnum í snyrtivörur og krem, ég verð að eiga föt líka. Það er lang best að kaupa sér nýja flík vikulega því hamingjan sem fylgir því endist svo lengi. Ég er aldrei í neinum vafa með hvað ég á að kaupa vegna þess að ég er mötuð með því á instagram, snapchat og lífstílsbloggunum sem þekja Facebookveggina. Lífstílsbloggarar, takk,“
Segir pistlahöfundur sem ákvað að koma ekki fram undir nafni og bætir við:
„Ef þú vilt ekki vera eins og algjör steinaldarmaður þá verðurðu að fá þér sérstaka TE-skeið til að færa skandinavíska te-ið þitt yfir í handmálaða iittalabollann. Helltu booztinu þínu yfir í krukku með loki, röri og handfangi og fáðu þér sæti. Meðan þú situr í gærubólstraða stólnum þínum með te, booztkrukku og meraki ilmkertið á kantinum hugsaðu þá aðeins út í þetta.“
Eru þetta lífsgæði og hamingja? Eða erum við orðin sjúk í þetta litla augnablik af gleði sem nýir hlutir og vörur færa okkur?
„Við elskum auglýsingar, við elskum þær svo mikið að við biðjum snappara um að sýna okkur hvað þeir eru að kaupa sér. Þurfum við þetta til að lifa hamingjusömu lífi?“
„Við skulum halda áfram að mata sjálfan okkur með auglýsingum, því næstu mánaðamót verð ég einum hlut nær hinu innihaldsríka og fullkomna lífi sem ég bara veit að mun gera mig meira hamingjusama.“