Gistiskýlið við Lindargötu hefur verið til umræðu undanfarna mánuði. Í apríl síðastliðnum greindi DV frá gríðarlegri óánægju starfsfólks með vinnustaðinn og einn þeirra, Tómas Jakob Sigurðsson, sagði að sprautufíklar hefðust þar við eftir að skaðaminnkunarstefna borgarinnar var tekin upp fyrir tveimur árum síðan. Sérstök neyslurými væru á salernum staðarins. Þessu fylgi álag, ofbeldi og öryggisleysi.
Þeir sem leita til skýlisins eru líka óánægðir. DV ræddi við tvo menn, Stefán Stefánsson og Örn Sigfússon, sem hafa þurft að gista í Gistiskýlinu en sá fyrrnefndi er bundinn við hjólastól. Mennirnir voru nýbúnir að skrá sig inn í Gistiskýlið eins og þeir þurfa að gera á hverjum degi.
Þetta er brot úr stærri umfjöllun í helgarblaði DV.
„Það eru níu mánuðir síðan ég lét Féló vita af húsnæðisvanda mínum og ég er núna búinn að vera í tvær vikur í Gistiskýlinu,“ segir Stefán, 38 ára, sem greindist með MS sjúkdóminn fyrir um tíu mánuðum. Hann herjar mjög hratt á Stefán og eftir aðeins fjóra mánuði var hann kominn í hjólastól.
Hvernig er aðstaðan þarna?
„Hún er ekki góð, eiginlega eins og að vera í helvíti.“
Örn, 61 árs, hefur verið töluvert lengur í húsnæðisvanda og að eigin sögn hefur hann staðið í stappi við „félagsmálabatteríið“ í 35 ár. Um Gistiskýlið segir hann: „Þetta er ruslahaugur, það er verið að losa sig við vandamál. Og með því sama eru þeir að búa til meira vandamál.“
Stefán segir að það að þurfa að leita til Gistiskýlisins sé eins og að fara í fangelsi, frelsið sé ekkert.
„Það er litið á mann sem þriðja flokks manneskju og allt ákveðið fyrir mann. Núna skaltu vakna, núna skaltu borða, núna skaltu sofa.“
Sem dæmi þá kom nýlega sjónvarp á staðinn en það er aðeins kveikt á því í fimm tíma á sólarhring. Nettenging er á staðnum en hún er aðeins fyrir starfsfólkið.
Líkt og hjá gaflörunum á kreppuárunum þá er veðmál um hverjir komast inn. Klukkan 16 er hægt að skrá sig og þá er hleypt inn í húsið. En menn byrja að standa í röð klukkan 15. 25 pláss eru á staðnum og allt að 50 manns komast ekki að. „Fyrstur kemur, fyrstur fær,“ segir Stefán.
Færð þú einhvern forgang í ljósi þinna veikinda?
„Nei,“ segir Stefán. „Og hann er settur í versta herbergið,“ segir Örn. „Herbergi númer 401, þar sem er veikt fólk, sem skítur og mígur á sig. Fólk sem er samt ekki í dópi.“
Jafnframt segist Stefán ekki fá neina aðstoð, þó hann sé bundinn við stólinn.
„Ég þarf að fara tvisvar, þrisvar í viku upp á spítala í sterasprautur. Síðan er ég er alltaf að meiða mig og brjóta mig eitthvað, til dæmis á höfuðkúpu og fingrum. Ég er alltaf að detta því ég hef svo lítið jafnvægi.“
Hvað gera þeir sem ekki komast inn?
Örn segir: „Þá verða þeir að gjöra svo vel að finna sér upphitað bílastæðahús eða reyna að komast inn til einhvers. Sumir hafa getað farið í einhverjar kjallarakompur hérna í bænum.“
Hægt er að fara út aftur eftir að hafa skráð sig en eftir klukkan 23 er hætta á að missa plássið. Öllum er síðan vísað burt klukkan 10 á morgnana. Örn segir:
„Manni er skipað á bás. Það eru sex manns í hverju herbergi. Einn gluggi er í herbergi, 20 sinnum 40 sentimetrar að stærð. Það er öll loftræstingin fyrir sex viðrekandi menn og lyktin eftir því.“
Stefán hefur verið á biðlista eftir félagslegu húsnæði, bæði hjá borginni og hjá Brynju, hússjóði Öryrkjabandalagsins. Hann segist hafa fengið samþykki en síðan gerist ekkert.
„Það er ekkert að losna. Ég er búinn að bíða í níu mánuði og vitað var allan tímann að ég væri að missa leiguhúsnæðið á frjálsum markaði og um ástand mitt.“
Hafa ber í huga að samkvæmt 9. grein laga um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi þjónustuþarfir segir:
„Fatlað fólk á rétt á húsnæði í samræmi við þarfir þess og óskir og félagslegri þjónustu sem gerir því kleift að búa á eigin heimili og stuðlar að fullri aðlögun þess og þátttöku í samfélaginu.“
Samrýmist staða þín reglum um málefni fatlaðs fólks og NPA reglugerðinni?
„Nei. Ég sótti meira að segja um húsnæðishjálp, til að þrífa og þess háttar. Mér var sagt að það tæki því ekki því að ég væri að missa húsnæðið.“
Þjónustumiðstöð Vesturbæjar, Miðborgar og Hlíða hefur umsjón með Gistiskýlinu. Hrafnhildur Ólöf Ólafsdóttir deildarstjóri ræddi við DV.
Hvernig samrýmist það lögum um réttindi fatlaðs fólks og NPA reglugerð að maður bundinn við hjólastól þurfi að leita til Gistiskýlisins á hverjum degi og fái enga aðstoð?
„Við getum ekki af persónuverndarástæðum upplýst um samskipti og stuðning við viðkomandi einstakling en í sambærilegum málum er leitast við að kynna einstaklingum rétt sinn og aðstoða á allan hátt við að fá þá þjónustu sem viðkomandi þarfnast. Einstaklingar eru aðstoðaðir við að fá inni á gistiheimili og er boðinn stuðningur en viðkomandi einstaklingur verður að vilja þiggja þá aðstoð sem við bjóðum. Það heyrir til algjörra undantekninga að fatlaðir einstaklingar leiti til Gistiskýlisins.“
Teljið þið að frelsi einstaklinga sé nægt í Gistiskýlinu?
„Gestir Gistiskýlisins eru beðnir um að sýna öðrum gestum tillitssemi og halda næturró“ og enn fremur. „Vegna opnunartíma Gistiskýlisins verðum við að biðja gesti um að yfirgefa skýlið klukkan 10 á morgnanna. Hægt er að koma með mat með sér og borð upp í matsal á þeim tímum sem matsalurinn er opinn.“
Við DV sögðu bæði Stefán og Örn hins vegar að ekki mætti taka mat með sér inn.
Er öryggi eigna fólks tryggt á staðnum?
Hrafnhildur segir: „Við reynum að tryggja öryggi eigna fólks með því að bjóða gestum upp á læsta skápa, en það eru ekki allir gestir tilbúnir að nýta sér þann möguleika.“
Hvað varðar plássleysi og skort á einkalífi segir hún:
„Aðsóknin á gistingu í Gistiskýlinu er mjög mikil en skýlið er það eina sinnar tegundar á Íslandi og ekkert annað sveitarfélag rekur slíka starfsemi. Vegna aðsóknarinnar var fleiri dýnum bætt við tímabundið en unnið er að standsetningu á öðru neyðarskýli og verður það vonandi tilbúið til notkunar í haust.“