fbpx
Laugardagur 23.nóvember 2024
Eyjan

Íbúasamtök Miðborgarinnar brjáluð út í Reykjavíkurborg – Heimta hærri styrk

Ritstjórn Eyjunnar
Miðvikudaginn 5. júní 2019 13:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Íbúasamtök Miðborgar Reykjavíkur (ÍMR) hafa sent ályktun til Dags B. Eggertssonar borgarstjóra og þeirra sem standa að úthlutun úr Miðborgarsjóði, þar sem kvartað er yfir því að ÍMR hafi aðeins fengið 700 þúsund krónur fyrir árið 2019, sem er aðeins tvö prósent af úthlutuðu fé sjóðsins:

„Stjórn Íbúasamtakanna harmar þann hug sem kemur fram í garð íbúa miðbæjarins í þessari úthlutun en eitt helsta hlutverk Miðborgarsjóðs er að stuðla að því að miðborgin sé góður staður til búsetu.  Það skýtur því skökku við að þessi úthlutun er sú eina sem ætluð er sjálfsprottnum verkefnum íbúanna í úthlutun ársins 2019,“

segir í ályktun ÍMR.

Lítil sneið af stórri köku

Úthlutun Miðborgarsjóðs skiptist í grófum dráttum þannig að 7.900.000 krónur renna til listviðburða, afþreyingar og menningartengdrar starfsemi, 21.400.000 krónur fara í verslun og þjónustu og 700.000 krónur til starfsemi Íbúasamtaka Miðborgar Reykjavíkur, alls 30 milljónir.

„Það má segja að styrkurinn til ÍMR sé eina framlagið til íbúa miðborgarinnar sérstaklega því ekki verður séð að neinir af menningarviðburðunum séu fyrir íbúa miðbæjarins fremur en aðra borgarbúa og gesti miðborgarinnar, innlenda sem erlenda og ekkert fé rennur til að bæta verslun og þjónustu í miðborginni sem gagnast íbúunum sérstaklega sem þó væri ekki vanþörf á“,

segir í ályktuninni, en ÍMR hafði sótt um styrk til að fjármagna starfsemi sína í Spennistöðinni, félags- og menningarmiðstöð miðborgarinnar sem einnig er íbúahús miðbæjarins.

„Enginn sérstök fjárveiting er til Spennistöðvarinnar sem íbúahúss og hefur því starfsemin, sem miðar að því að styrkja nærsamfélagið í miðborginni sem á margan hátt stendur höllum fæti, verið fjármögnuð með styrkjum og að mestu unnin í sjálfboðavinnu. Sótt var um 1.550.000 krónur til að reka málþing og smiðjur og standa undir annarri starfsemi ÍMR og var það skorið niður um rúmlega helming í úthlutun sjóðsins en umsókn um styrk til að kaupa flygil í Spennistöðina var hafnað.“

Í reglum um sjóðinn segir:

„Hlutverk Miðborgarsjóðs er að stuðla að því að miðborgin sé góður staður til búsetu sem og áhugaverður og aðlaðandi áfangastaður fyrir íbúa og aðra hagsmunaaðila borgarinnar, landsmenn alla og erlenda gesti”.

Í ályktun ÍMR er harmað að samtökin hafi ekki fengið myndarlegri stuðning:

„Miðborg Reykjavíkur er flóknari að samsetningu en önnur hverfi borgarinnar og því er hlutverk ÍMR margþættara en íbúasamtaka í öðrum hverfum. Í miðborginni er fjöldi hagsmunaaðila meiri og meiri hreyfing á íbúunum en í öðrum hverfum og það leiðir af sér að hagsmunagæsla er íbúunum þeim mun mikilvægari en hverfisvitund er á margan hátt minni meðal þeirra en íbúa annarra hverfa. Þess vegna er mikil þörf á öflugum málsvara og lifandi og fjölbreyttu starfi og það veldur stjórn ÍMR miklum vonbrigðum að stjórn Miðborgarsjóðs skuli ekki hafa skilning því og vilji ekki leggja Íbúasamtökunum lið með myndarlegri hætti.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Eyjan
Í gær

Þorsteinn Pálsson leiðréttir Össur: Nei, Össur, það er ekki Viðreisn heldur Samfylkingin sem hallar sér til hægri

Þorsteinn Pálsson leiðréttir Össur: Nei, Össur, það er ekki Viðreisn heldur Samfylkingin sem hallar sér til hægri
Eyjan
Í gær

Segir fund með Grindvíkingum sláandi – „Það er orðið svo þreytt að segja að hugur manns sé hjá þeim“

Segir fund með Grindvíkingum sláandi – „Það er orðið svo þreytt að segja að hugur manns sé hjá þeim“