„Ef manni er annt um starfsfólkið sitt þá vill maður aðstoða það á þessum erfiða húsnæðismarkaði“, segir framkvæmdastjórinn
IKEA stendur nú fyrir byggingu fjölbýlishúss með 36 litlum og hagkvæmum leiguíbúðum í Urriðaholtinu í Garðabæ. Tilgangurinn er að tryggja starfsfólki fyrirtækisins öruggt og gott húsaskjól á góðu verði. Einnig kemur til greina að leigja íbúðirnar stúdentum og jafnvel starfsfólki Costco.„Ef manni er annt um starfsfólkið sitt þá vill maður aðstoða það á þessum erfiða húsnæðismarkaði,“ er haft eftir, Þórarni Ævarssyni, framkvæmdastjóra IKEA, sem sagði frá verkefninu á nýafstöðnu málþingi Íbúðalánasjóðs um byggingu hagkvæmra íbúða. Umfjöllun um erindi Þórarins birtist á vefsíðu Íbúðalánasjóðs.
Hjá IKEA starfa 350 manns og hyggst fyrirtækið fjölga starfsfólki í 450 á næstu árum. Þórarinn sagði hátt hlutfall starfsfólksins vera ungt fólk eða innflytjendur og væru margir á hrakhólum varðandi húsnæði. „Þrátt fyrir að við greiðum ágætis laun, þá verður seint hægt að tala um að almennir starfsmenn í smásöluverslun séu í efri tekjumörkum. Það þýðir að stór hluti starfsmanna IKEA ver allt of stórum hluta ráðstöfunartekna sinna í húsnæði sem oft á tíðum er í lélegum gæðaflokki.“ Hann sagði að heppilegt húsnæði, á góðu verði, í göngufjarlægð við vinnustað, nauðsynlega þjónustu og fallega náttúru væri að mati IKEA mjög verðmætt til að laða að starfsfólk. „Ef það að byggja upp og reka leiguhúsnæði fyrir starfsfólk er mögulegt án þess að vinnuveitandi beri af því þungar byrðar, þá getur þetta í raun verið álitlegur kostur.“
Þórarinn segir húsnæðismál starfsfólks einnig vera mál atvinnurekenda. „Framtíðarvígvöllur fyrirtækja í framlínurekstri, t.a.m smásölufyrirtækja, verður um hæft starfsfólk. Sá sem nær til sín og heldur hæfasta starfsfólkinu stendur uppi sem sigurvegari. Við höfum ítrekað orðið fyrir því að hæft starfsfólk hefur látið af störfum hjá okkur vegna vandamála sem tengjast húsnæði á einn eða annan hátt,“ sagði Þórarinn meðal annars í erindi sínu. „Fólk hefur hætt hjá okkur af því að það hefur þurft að flytja og endað á stað þar sem það nær ekki lengur strætó í vinnuna. Ef manni er annt um starfsfólkið sitt þá vill maður aðstoða það á þessum erfiða húsnæðismarkaði.“
Fjölbýlishúsið sem IKEA hyggst reisa mun standa við Urriðaholtsstræti 10-12. Áætlað er að húsið verði tilbúið á síðari hluta næsta árs. Um verður að ræða fimm hæða hús þar sem fjórar efstu hæðirnar eru með smáíbúðum en sú neðsta er atvinnuhúsnæði í bland við geymslur fyrir íbúðirnar á efri hæð. Gæði og útlit verða samkeppnishæf þrátt fyrir að byggt sé á hagkvæman hátt en þetta hús verður fyrsta Svansvottaða fjölbýlishúsið sem reist hefur verið á Íslandi. „Íbúar eiga ekki að upplifa að þeir búi við lakari gæði en aðrir íbúar í hverfinu og íbúðirnar eiga að uppfylla allar venjulegar þarfir,“ sagði Þórarinn.
Upphaflega hugmyndin var að reyna að byggja mjög ódýrar íbúðir, sem leigja mætti út á 70 þúsund krónur á mánuði, en af ýmsum ástæðum tókst það ekki. T.a.m. var byggingarlóðin dýr, vinnan við Svansvottunina hækkaði byggingarkostnaðinn töluvert, auk þess sem ákveðið var að spara ekkert til hvað varðaði gæði hönnunar og efnis. Þórarinn nefndi einnig sérstaklega byggingarreglugerð. „Þó svo að því sé haldið fram að byggingarreglugerðin komi til móts við þá sem eru að byggja minni íbúðir, þá höfum við rekist á það að það er enn þónokkuð í land.“ Sem dæmi um íþyngjandi kröfu nefndi Þórarinn að baðherbergi þurfa að vera 5 fm í 25 fm íbúð og að krafa um stærð svala taki ekki tillit til smæðar íbúða og hversu fáir séu líklegir til að vera í hverri íbúð, komi til eldsvoða.
Þórarinn sagði endanlegan kostnað ekki enn liggja fyrir en hann telji að hægt verði að leigja minnstu íbúðirnar, fullbúnar með húsgögnum og húsbúnaði, á undir 100.000 kr á mánuði og samt vera með eðlilega ávöxtun á fjárfestingunni. „Það er minna en fólk er að greiða fyrir greni hér og þar í bænum.“
Þórarinn ræddi einnig um hugtakið „small space living“ sem hefur lengi verið einn af hornsteinum IKEA. „‘Small space living‘ gengur ekki út á það að fólk sé endilega að færa einhverjar fórnir, heldur aðlagi sig að minna plássi. Þetta er ekki „mínímalismi“ heldur breytt hugarfar og nálgun,“ sagði hann og tók sem dæmi aukna nýtingu á plássi, hvort sem það væri lóðrétt eða lárétt, samnýtingu á plássum, nettari og minni húsgögn sem gætu verið staflanleg, samanbrjótanleg, uppblásanleg eða upphengjanleg.
Þórarinn sagði að í alþjóðlegum samanburði væru Íslendingar mjög aftarlega á merinni hvað þessi mál varðar og skipaði þjóðin sér í hóp með skussum eins og Bandaríkjunum og Ástralíu. Hann sagði að á meðan 60 fm íbúð þætti lítil fyrir einstakling á Íslandi, væri meðalstærð fjölskylduíbúða í Hong Kong 43 fm. Þar nytu svokallaðar moskító-íbúðir mikilla vinsælda en þær eru 16 fm. Hann bætti við að í Austur-Evrópu væru flestar íbúðir 60 fm og þar byggju að jafnaði þrjár kynslóðir. Þar seldust ekki sófar nema hægt væri að breyta þeim í svefnsófa og nánast hvert einasta húsgagn gegndi fleiru en einu hlutverki. „Er útilokað að reyna þetta hér?“ spurði Þórarinn að lokum.