Íslensk kvikmyndagerð á sér stutta en áhugaverða sögu. Aðeins tæplega fjörtíu ár eru síðan framleiðsla á íslenskum kvikmyndum fór að taka almennilega við sér og íslenskar myndir að koma reglulega fyrir augu kvikmyndaunnenda. Á nýju árþúsundi hefur íslensk kvikmyndagerð blómstrað, íslenskar myndir náð máli og notið virðingar víða um heim. Nú er kominn tími til að líta yfir farinn veg og hefur DV fengið 18 sérfræðinga til að velja bestu íslensku bíómyndina frá upphafi. Á Topp 11 listanum er tíu myndir eftir karlleikstjóra en aðeins einni mynd er leikstýrt af konu, elsta myndin er 35 ára en tvær nýjustu eru frá árinu 2015, þrjár af ellefu bestu myndunum eru byggðar á skáldsögum, Dagur Kári leikstýrir tveimur myndum á listanum en Friðrik Þór á flestar, þrjár talsins.
Hápunktur magnaðs ferils Friðriks Þórs Friðrikssonar er líklega Börn náttúrunnar, sem er eina íslenska myndin sem hefur verið tilnefnd sem besta erlenda myndin á Óskarsverðlaunahátíðinni. Gísli Halldórsson leikur roskinn bónda sem bregður búi og flyst á elliheimili í Reykjavík. Hann hittir gamla vinkonu sína og saman strjúka þau af elliheimilinu til að halda á æskuslóðirnar.
„Mikilvægasta mynd íslenskrar kvikmyndasögu er Börn náttúrunnar eftir Friðrik Þór Friðriksson, en hlutur hans í íslenskri kvikmyndasögu verður ekki ofmetinn,“ segir Björn Þór Vilhjálmsson, lektor í kvikmyndafræði við Háskóla Íslands. „Ég held að það hafi bjargað miklu fyrir þróun íslenskrar kvikmyndamenningar að við eignuðumst evrópskan listabíósmeistara á akkúrat þeim tímapunkti sem við gerðum. Frá Rokkinu í gegnum Skytturnar og að Börnunum, þarna sjáum við ísbrjót í mannsmynd að verki, ísbrjót sem er gegnsósa í módernísku kvikmyndahefðinni, þekkir hana eins og handarbakið á sér.“
Oddný Sen, kvikmyndafræðingur og verkefnastjóri kvikmyndafræðslu í Bíó Paradís, nefnir myndina einnig sem eina bestu íslensku kvikmyndina frá upphafi: „Börn náttúrunnar eftir Friðrik Þór Friðriksson er listavel gerð. Sagan er einföld og innri átök eru sýnd með látlausum hætti. Myndin er vel uppbyggð og það er stígandi í myndinni þannig að eftir því sem líður á myndina endurspeglar landslagið sálarástand persónanna og verður villtara og frumstæðara. Líf og dauði, æska og elli mynda hrífandi andstæður og í lokin er vel heppnuð vísun í aðra kvikmynd; Himinn yfir Berlín eftir Wim Wenders, en í henni ganga englar um Berlín og hugga þá jarðnesku sem þjást. Bruno Ganz, sem leikur engil í þeirri mynd, birtist hjá Þorgeiri þegar hann er búinn að jarða vinkonu sína og snertir hann.“
Mikilvægasta mynd íslenskrar kvikmyndasögu er Börn náttúrunnar eftir Friðrik Þór, en hlutur hans í íslenskri kvikmyndasögu verður ekki ofmetinn.
Næstbesta mynd íslenskrar kvikmyndasögu er frumraun Dags Kára Pétursson, Nói albínói frá árinu 2003. Myndin fjallar um hinn 17 ára gamla Nóa, leikinn af Tómasi Lemarquis, sem býr í afskekktu og snjóþungu sjávarþorpi á Vestfjörðum. Hann þráir að komast burt og leggur á ráðin um flótta frá heimabænum en áætlanirnar renna þó klaufalega úr greipum hans.
Ásgeir H. Ingólfsson, skáld og menningarblaðamaður, nefnir myndina sem eina þá allra bestu sem gerð hefur verið á Íslandi: „Maður var alinn upp við íslenskar sveitamyndir með vondu hljóði – sveitin týndist aðeins á tíunda áratugnum en í upphafi nýrrar aldar kom Nói, þetta var smábæjarlífið eins og maður kannaðist við það, ekki einhver horfinn heimur.“
„Hinn ógleymanlegi listræni heimur Nóasögunnar fjallar um lífið og dauðann, hversdagsleika og annarleika, innri og ytri veruleika,“ segir Heiða Jóhannsdóttir, aðjúnkt í kvikmyndafræði, um myndin. „Nói albínói nýtir af listfengi alla þætti kvikmyndalistar;kvikmyndatöku, sagnasmíð, myndmál, tónlist, umhverfingu og leiklist. Tónlist Slowblow umvefur jafnframt heiminn eins og gullþráður.“
Nína Richter, sjónvarpsgagnrýnandi Lestarinnar, segir myndina hreinlega vera meistaraverk:
„Það er eins og ég gleymi alltaf aftur og aftur hvað þessi mynd er alveg fáránlega frábær, og svo þegar ég sé hana aftur þá er ég alveg gapandi af hrifningu, í hvert sinn. Ég hef séð hana örugglega tíu sinnum. Sagan, myndræna frásögnin, sviðsmyndin, litavinnslan og leikframmistaða Tómasar Lemarquis er alveg í heimsklassa. Tónlist Slowblow er síðan algjörlega ómissandi hluti af verkinu. Síðan tekst þessari mynd að slá á velflestar nóturnar á tilfinningaskalanum, fyndin og hrikalega sorgleg í senn. Ég man þegar ég sá hana nýja á sínum tíma, þá hugsaði ég „Vá, þetta er líklega besta íslenska mynd sem gerð hefur verið.“ Svo hélt ég að það myndi nú breytast fljótlega, en það gerði það bara ekki. Þessi mynd kom eins og skrattinn úr sauðarleggnum og setti nýtt viðmið fyrir íslenskt kvikmyndagerðarfólk. Algjört meistaraverk.“
Þessi mynd kom eins og skrattinn úr sauðarleggnum og setti nýtt viðmið fyrir íslenskt kvikmyndagerðarfólk. Algjört meistaraverk.
Anna María Karlsdóttir kvikmyndaframleiðandi, Arnar Elísson kvikmyndafræðingur, Ásgeir Ingólfsson menningarblaðamaður, Baldvin Z kvikmyndagerðarmaður, Björn Þór Vilhjálmsson lektor í kvikmyndafræði við Háskóla Íslands, Elsa G. Björnsdóttir kvikmyndagerðarkona, Heiða Jóhannsdóttir aðjúnkt í kvikmyndafræði við Háskóla Íslands, Helga Rakel Rafnsdóttir kvikmyndagerðarkona, Hugleikur Dagsson teiknimyndasögu- og sjónvarpsþáttagerðarmaður, Hrönn Marinósdóttir stjórnandi Reykjavík International Film Festival, Kristinn Þórðarson kvikmyndaframleiðandi, Maríanna Friðjónsdóttir fjölmiðlari, Nína Richter sjónvarpsgagnrýnandi Lestarinnar, Oddný Sen kvikmyndafræðingur og verkefnastjóri kvikmyndafræðslu í Bíó Paradís, Tómas Valgeirsson kvikmyndagagnrýnandi Fréttablaðsins, Valur Gunnarsson rithöfundur og kvikmyndagagnrýnandi, Þóra Hilmarsdóttir kvikmyndagerðarkona, Þórir Snær Sigurðarson umsjónarmaður kvikmyndaþáttarins Hvíta Tjaldið á ÍNN.