Umsátrið um Stalíngrad
Umsátrið um Stalíngrad var ein mannskæðasta orrusta sögunnar. Um tvær milljónir hermanna og óbreyttra borgara féllu í valinn þá rúmu fimm mánuði sem hún stóð yfir. Frá ágúst 1942 til febrúar 1943. Sovétmenn sneru taflinu á austurvígstöðvunum sér í vil þennan vetur en fórnarkostnaðurinn var hár. Fæstir féllu fyrir byssukúlum eða sprengjum. Flestir frusu eða sultu í hel.
Hungursneyðin í Írlandi
Árið 1845 kom upp sjúkdómur í kartöfluplöntunni á Írlandi sem um þriðjungur þjóðarinnar reiddi sig á. Í kjölfarið fylgdi átta ára hungursneyð en nýlenduherrarnir Bretar komu Írum ekki til hjálpar. Ein og hálf milljón svalt í hel í heimalandinu og svipaður fjöldi flúði land. Aðallega til Bretlands, Ameríku og Ástralíu. Íbúafjöldinn hefur aldrei náð sér á strik. Þegar hungursneyðin skall á bjuggu rúmlega átta milljónir í landinu en sú tala helmingaðist á örfáum árum. Í dag búa um fimm milljónir í Írlandi.
Móðuharðindin
Þann 8. júní árið 1783 hófst gos í Lakagígum í Vestur-Skaftafellssýslu sem lauk ekki fyrr en í febrúar ári seinna. Eitruð aska barst yfir allt. Bændur brugðu búi, búfénaður drapst og um 10 þúsund Íslendingar sultu í hel í hamförunum sem fengu nafnið Móðuharðindin. Brennisteinsmökkurinn barst út í gufuhvolfið og með vindum langt út fyrir landsteinana. Inngeislun sólar minnkaði og hitastig á norðurhveli lækkaði um hálfa gráðu. Talið hefur verið að þetta hafi valdið uppskerubresti á meginlandi Evrópu sem var upptakturinn að frönsku byltingunni.
100 ára stríðið
100 ára stríðið, á milli Englendinga og Frakka, er reyndar rangnefni. Það var ekki eitt stríð heldur nokkur og auk þess varði það 116 ár, frá 1337 til 1453. Eins og svo oft á miðöldum snerist stríðið ekki um hugmyndafræði heldur lönd og titla því að Englandskonungar gerðu tilkall til frönsku krúnunnar. Óljóst er hversu mikið mannfallið var, en það er talið hafa verið í kringum þrjár milljónir. Frakkar unnu stríðið og vísar að þjóðerniskennd vöknuðu meðal fólks í báðum löndum.
Svarti dauði
Svarti dauði er bakteríusýking sem berst með rottum og veldur kýlapest með miklum sótthita og uppköstum með blóði. Sjúklingur lifir aðeins í örfáa daga. Sjúkdómurinn barst frá Asíu til Evrópu um miðja 14. öld og tók um 75 milljónir mannslífa. Mannfjöldi Evrópu náði sér ekki á strik í eina og hálfa öld og ofsóknir gegn gyðingum voru fylgifiskur. Svarti dauði kom hins vegar ekki til Íslands fyrr en árið 1402. Svarti dauði hefur reglulega komið upp síðan en í dag eru til lyf við sjúkdómnum og aldrei hefur hann tekið jafn marga og í faraldrinum mikla.