Veftímaritið Þjóðmál, sem telst til hægri vængs stjórnmálanna, hefur tekið að sér að flokka gesti Silfursins á RÚV eftir hinu pólitíska litrófi, nánar tiltekið gesti dagskrárliðarins Vettvangs dagsins, þar sem fjórir gestir taka þátt í umræðum um það sem helst bar á góma í vikunni á undan.
Í talningu Þjóðmála í fyrra kom fram að af 55 gestum þáttarins féllu 28 þeirra undir skilgreininguna vinstri menn, 11 voru miðjumenn, og níu töldust til hægri manna.
Nú hefur Þjóðmál gert nýja, uppfærða talningu, sem nær fram í apríl á þessu ári.
Þá kemur í ljós að af 121 gesti teljast 63 einstaklingar til vinstri manna, 23 til miðjumanna og 21 til hægri manna. Athuga skal að sumir gestir hafa mætt tvisvar og eru því taldir tvisvar.
Alls 14 manns eru óflokkaðir, en þeir eru Aðalheiður Ámundadóttir, blaðamaður, Frosti Logason fjölmiðlamaður, Helgi Seljan fréttamaður, Kristján Sigurjónsson fréttamaður, Lóa Pind Aldísardóttir fjölmiðlamaður, Ragnar Önundarson viðskiptafræðingur, Sigurður Már Jónsson blaðamaður, Steinunn Stefánsdóttir fjölmiðlamaður, Sylvía K. Ólafsdóttir verkfræðingur, Þóra Hallgrímsdóttir lögmaður, Þórður Snær Júlíusson ritstjóri, og Þórir Guðmundsson ritstjóri.
Eru því hlutföllin nokkurn veginn þau sömu og fyrir áramót, þar sem vinstri menn teljast í góðum meirihluta.
Hannes Hólmsteinn Gissurarson, prófessor í stjórnmálafræði og umdeildur hægri maður, hefur tekið að sér að flokka nokkra þeirra sem falla undir óflokkuðu skilgreiningu Þjóðmála:
„Af þeim, sem eru hér óflokkaðir, myndi ég nú setja Þórð Snæ, Helga Seljan og Lóu Pind sem vinstri menn og Ragnar Önundarson sem hægri mann,“
segir Hannes.
Þess má geta að Þjóðmál flokka þingmenn og borgarfulltrúa Miðflokksins til miðju, en ljóst er að einhverjir gætu viljað flokka þá til hægri.
Talning og flokkun Þjóðmála er gerð til hliðsjónar af lögum um Ríkisútvarpið ohf. sem kveður á um skyldur RÚV til óhlutdrægni og fyllstu hlutlægni í allri umfjöllun og fréttaflutningi.
„Eftirfylgni á þessum lögum er þó ávallt háð huglægu mati,“
segir á vef Þjóðmála.