„Á morgun greini ég lögreglunni frá samskiptum mínum við þá bræður dagana fyrir atburðinn. Hvernig Gunnar hótaði að gera þetta og hvernig ég reyndi að tala hann ofan af því. Líka hvernig ég reyndi að vara Gísla við,“ segir Heiða Þórðar, systir hálfbræðranna Gísla Þórs Þórarinssonar og Gunnars Jóhanns Gunnarssonar. Laugardagsmorguninn 27. apríl varð Gunnar bróður sínum að bana með skotvopni sem hann varð sér úti um daginn áður. Atburðurinn átti sér stað í smábænum Mehamn í Finnmörku í Norður-Noregi, þar sem þeir bræður voru báðir búsettir.
Áður hefur komið fram í fréttum að Gunnar hafði í hótunum við bróður sinn í aðdraganda voðaverksins en upplýsingarnar sem Heiða lætur DV í té núna eru nýjar. Hún átti í löngum textasamskiptum við báða bræðurna og nokkrum símtölum dagana fyrir atburðinn. „Ég var til skiptis að reyna að koma vitinu fyrir Gunnar, ég reyndi að tala hann ofan af því að gera þetta. Þess á milli var ég að koma upplýsingum til Gísla og vara hann við,“ segir Heiða í einkaviðtali við DV um málið.
Þrátt fyrir þetta – þrátt fyrir hótanirnar og þá staðreynd að Gunnar fór að heimili Gísla með skotvopn – telur Heiða að þetta hafi verið slys. „Ég held að þetta hafi verið hræðilegt slys en ekki morð að yfirlögðu ráði.“ Að vissu leyti styður það þessa skoðun Heiðu að Gísli var skotinn í læri en ekki hjartað eða höfuðið. „Ég held að hann hafi vissulega ætlað að ógna honum en ekki deyða hann,“ segir Heiða.
Þess má geta að Heiða, Gísli heitinn og Gunnar, eiga sömu móður. Hún átti við geðrænan vanda að stríða og lést fyrir nokkrum árum. Þau eiga hins vegar öll hvert sinn föður.
Hótanirnar virtust um tíma orðin tóm þó að vissulega hafi þær vakið Heiðu og Gísla ótta á öðrum tímum. „Við vorum jafnvel að grínast með þetta, ég og Gísli. Svona brjálaður gálgahúmor. Ég sagði til dæmis einu sinni: Jæja, Gísli minn, gerðu nú eitthvað skemmtilegt, það er bara sólarhringur eftir.“ – Þegar tiltekinn dagur þegar Gunnar ætlaði að láta til skarar skríða var liðinn hjá án þess að nokkuð kæmi fyrir, var Heiðu létt og svo virtist sem Gunnar ætlaði ekki að gera alvöru úr hótun sinni.
Eins og alkunna er varð Gísli ástfanginn af barnsmóður Gunnars og þau tóku upp samband. Gísli var guðfaðir barna Gunnars og hafði haldið þeim undir skírn. Sonur Gunnars var skírður í höfuðið á Gísla. „Þessi tveir snillingar voru miklir vinir. En þegar Gísli sagði við Gunnar, Fyrirgefðu en ég elska þessa konu, þá brast eitthvað í Gunnari og þessi hræðilega atburðarás fór af stað. Ég reyndi eins og ég gat að tala um fyrir Gunnari, benda honum á að hann myndi jafna sig á þessu, við værum öll fjölskylda og við myndum komast yfir þetta saman,“ segir Heiða.
Miðvikudaginn fyrir voðaatburðinn innritaði Gunnar sig inn á geðdeild í Noregi:
„Nálgunarbannið kom 17. apríl en þremur dögum síðar fer hann sjálfviljugur á geðdeild. Hann óttaðist hugsanir sínar sem snerust um að drepa Gísla og síðan sjálfan sig.
Ég frétti síðan að hann sé búinn að útskrifa sig sjálfur af geðdeildinni en hann fór þá út á sjó og þess vegna hafði ég ekki áhyggjur lengur.“
En þetta var stuttur túr og Gunnar kom í land síðla föstudags. Um kvöldið fór hann að drekka með manni að nafni Almar Smári, sem var um tíma grunaður um samverknað í málinu, en hefur verið látinn laus. Eldsnemma á laugardagsmorguninn komu þeir að heimili Gísla og hið hræðilega atvik sem sú heimsókn hafði í för með sér þekkja lesendur.
„Ég hélt fyrst að hann hafi verið skotinn í hjartað eða höfuðið þegar mér er tjáð að hann hafi verið drepinn. En skotið var í annað lærið, slagæðin brast og honum blæddi út,“ segir Heiða, sem á afar erfitt með að kyngja því að sjúkraliðsmenn hafi ekki komið Gísla til bjargar og ekki hlúð að honum fyrr en lögregla kom á vettvang. Liðu 40 mínútur þar til sjúkraliðsmenn sem voru komnir á vettvang hlúðu að Gísla. Þá var það of seint.
„Þetta er með ólíkindum og eitthvað sem er ekki hægt að sætta sig við,“ segir Heiða.
Fyrir utan hvar skotið lenti, en Gunnar sagði í játningu á Facebook rétt eftir atburðinn að skot hefði hlaupið úr byssunni, þá segir Heiða að vegna kynna sinna af báðum bræðrunum þá trúi hún því ekki að Gunnar hafi myrt Gísla af yfirlögðu ráði:
„Þrátt fyrir dómana sem hann hefur á bakinu þekki ég hann ekki sem þann mann sem myndi gera þetta. Ég hef aldrei séð hann sýna af sér ofbeldisfulla hegðun. Hann er viðkvæmur og með stórt hjarta. Ég veit að hann rauf nálgunarbann og fór þarna með byssu og ég veit að hann ætlaði að ógna Gísla en ég held ekki að hann hafi ætlað að myrða hann. Það verður eflaust allt brjálað þegar fjölskyldan les þetta en þetta er það sem mér finnst og ég hef rétt á að segja það.“
Að sögn Heiðu hefur afar lengi geisað ófriður í fjölskyldunni og nær hann langt aftur í kynslóðir.
„Ég elskaði þessa tvo bræður mína afar heitt en hef ekki átt samskipti við aðra í fjölskyldunni í tíu ár. Ég þekki þetta fólk ekkert lengur.“
Aðspurð segir Heiða að hún muni vafalaust eiga aftur í samskiptum við Gunnar í fyllingu tímans. „Ég er ekki sú manneskja að taka mér heimild til að dæma nokkurn mann og já, ég mun örugglega verða einhvern tíma í sambandi við hann. Þetta er bróðir minn og ég elska hann. Ég lít á þetta sem hræðilegt slys og þar við situr.“
Heiða er nokkuð kunn fyrir ritstörf og blaðamennsku auk þess sem hún hefur ritstýrt vinsælum dægurmálavef. Einnig hefur hún unnið markaðsstörf. Á síðustu árum hefur hún látið að sér kveða í flokksstarfi í Sjálfstæðisflokknum. Heiða hefur ýmsa fjöruna sopið á lífsleiðinni en segist aldrei hafa orðið fyrir öðru eins áfalli og dauða Gísla:
„Þetta er það svakalegasta högg sem ég hef orðið fyrir. Ólýsanlegur sársauki. Stundum nær maður ekki andanum, þetta er svo óendanlega sorglegt. En ég mun samt ná mér aftur með tíð og tíma.“