Gullgrafarar fagna flóðatíð í norðanverðri Kaliforníu
Flóðatíð hefur verið í norðurhluta Kaliforníu undanfarnar vikur og mánuði og hafa margir hugsað sér gott til glóðarinnar í kjölfarið. Ástæðan er sú að flóðin hafa komið talsverðri hreyfingu á jarðveginn á stórum og vinsælum gullleitarsvæðum í norðanverðri Kaliforníu.
Fjölmiðlar vestanhafs greindu frá þessu um helgina, þar á meðal Chico Enterprise-Record og CBS San Francisco. Samkvæmt þeim hafa flóðin gert það að verkum að gull, sem áður var í jörðinni, er nú komið upp á yfirborðið. Þannig hafi gamlar og yfirgefnar gullnámur fyllst af vatni með fyrrgreindum afleiðingum.
Allt þetta hafi gert það að verkum að gull hafi fundist á svæðinu undanfarnar vikur og í sumar, þegar meiri þurrkatíð verður, séu líkur á að gullæði grípi um sig í Kaliforníu. Það gerðist einmitt árið 1997 þegar mikil flóð gengu yfir í Kaliforníu.
Fjölmargir eru sagðir hugsa sér gott til glóðarinnar í sumar. „Nú verður gaman,“ sagði til dæmis einn gullgrafari, Bob Van Camp, í samtali við Chico.