fbpx
Mánudagur 25.nóvember 2024
Fókus

Ragga glímdi við streitu og kulnun – „Maður er bara harður og þetta er eitthvað sem aðrir eru að glíma við en ekki ég“

Ragna Gestsdóttir
Mánudaginn 27. maí 2019 12:30

Ragga nagli Mynd: Hanna

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Ragnhildur Þórðardóttir er landsþekkt sem Ragga nagli og er virk á samfélagsmiðlum undir því nafni þar sem hún skrifar um heilsu á mannamáli. Ragga er búsett í Kaupmannahöfn, en heldur tryggð við Ísland, kemur reglulega hingað og heldur fyrirlestra um heilsu. Það var einmitt einn slíkur, Korter í kulnun, sem vakti athygli blaðamanns og því var tilvalið að setjast niður með Röggu og fræðast nánar um hana sjálfa og þetta fallega orð kulnun, sem er eigi að síður heiti á ástandi sem getur haft alvarlegar afleiðingar í för með sér fyrir heilsu fólks.

Þetta er hluti af stærra viðtali í helgarblaði DV.

„Ég fór sjálf að glíma við smá streitu og kulnun fyrir 2–3 árum, fór að sofa illa og var farin að upplifa ýmislegt eins og mikla síþreytu. Ég var að vakna eftir 7–8 klukkustunda svefn, en var samt þreytt. Ég var farin að fá mikið hárlos og líkamleg einkenni líka, eins og mikið mígreni. Það var rosalega mikið að gera hjá mér, eins og er alltaf, ég er eins og þeytiskífa milli landa með fyrirlestra og námskeið. Svo er ég með stofuna mína úti og að vinna sem sálfræðingur er ekkert eins og að vinna á kassa í stórverslun, þú stimplar þig ekkert út þegar vinnudegi lýkur. Þú ert kannski enn að hugsa um eitthvert mál þegar þú kemur heim, erfitt viðtal situr í þér. Þannig að maður er undir þessu streituálagi þegar maður kemur heim og er ekki í vinnunni per se.“

Á þessum tíma æfði Ragga einnig mikið og var með alla bolta á lofti og að eigin sögn einhvern veginn búin að brenna öll kertin. „Þannig að ég þurfti aðeins að endurskoða hjá mér, skala niður æfingar, og horfast í augu við að ég er ekki lengur 25 ára. Ég þarf meiri hvíld en áður. Ég hef alltaf verið orkumikil og getað æft mikið og lagt mikið á skrokkinn, svo fór hann að segja mér að hann réði ekki alveg við þetta álag lengur, en ég var svona að streitast á móti. Þannig að þetta voru svona margir samverkandi þættir og ég áttaði mig á að ég var að byrja að upplifa streitu, eitthvað sem ég hélt að ég myndi aldrei upplifa. Ég er að vestan, úr Djúpinu,“ segir Ragga og steytir hnefann. „Maður er bara harður og þetta er eitthvað sem aðrir eru að glíma við en ekki ég. Svo þurfti ég að kyngja hrokanum.“

Ragga er í toppformi, borðar hollt, hugsar vel um sig og fer snemma að sofa. Reynsla hennar sýnir að enginn er óhultur fyrir streitunni. Hún fór að kynna sér málið og komst að því að streituhormónið kortisól var í rugli hjá henni. „Ég hakaði við afar margt í einkennum þess sem kallast truflun á HPA-ásnum, sem er undirstúkan, heiladingullinn og nýrnahetturnar. Þetta er kerfi sem vinnur saman, heilinn skynjar ógn og þá sendir hann út boð um að losa út streituhormónin adrenalín og kortisól. Þau sjá um að draga blóð út í líkamann af því að við eigum að vera klár í baráttu. Hormónin hægja á meltingu, slökkva á kynhvöt, sjáöldrin víkka, æðarnar tútna út, það er svo margt sem fer í gang sem á að búa okkur undir að berjast.“

Ragga er virk á samfélagsmiðlunum Snapchat og Instagram: ragganagli, og á Facebook- síðu og á heimasíðu sinni.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 2 dögum

Nicole Kidman sögð ljúga um frægu ljósmyndina

Nicole Kidman sögð ljúga um frægu ljósmyndina
Fókus
Fyrir 2 dögum

Dularfull dagsetningardeiling sjónvarpsstöðvanna veldur netverjum heilabrotum – „Hvað er í gangi? Samruni?“

Dularfull dagsetningardeiling sjónvarpsstöðvanna veldur netverjum heilabrotum – „Hvað er í gangi? Samruni?“
Fókus
Fyrir 4 dögum

Jólalag Klöru verður einkennislag pakkasöfnunar í ár

Jólalag Klöru verður einkennislag pakkasöfnunar í ár
Fókus
Fyrir 4 dögum

Sölvi hugrakkari, opnari og vinafleiri en áður – Flestir þögðu þegar stormurinn gekk yfir

Sölvi hugrakkari, opnari og vinafleiri en áður – Flestir þögðu þegar stormurinn gekk yfir