fbpx
Fimmtudagur 12.desember 2024

Menningarverðlaun DV 2016: Tilnefningar í arkitektúr

Kristján Guðjónsson
Laugardaginn 4. mars 2017 13:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Menningarverðlaun DV fyrir árið 2016 verða veitt miðvikudaginn 15. mars næstkomandi klukkan 17.00 í Iðnó. 45 verkefni, hópar og einstaklingar eru tilnefndir til verðlaunanna í ár í níu flokkum; kvikmyndum, leiklist, dansi, tónlist, myndlist, arkitektúr, hönnun, bókmenntum og fræðum, en auk þess veitir forseti Íslands sérstök heiðursverðlaun og lesendaverðlaun dv.is verða veitt. Föstudaginn 3. mars hefst netkosning á dv.is sem stendur til miðnættis 14. mars, þar sem lesendum gefst tækifæri til að kjósa þá tilnefningu sem þeim líst best á – sú tilnefning sem hlýtur flest atkvæði í netkosningunni hreppir lesendaverðlaun dv.is.

Taktu þátt í kosningunni!


Tilnefningar í arkitektúr

Fosshótel Jökulsárlón, hannað af Bjarna Snæbjörnssyni, arkitekt FAÍ

Fosshótel Jökulsárlón stendur við rætur Öræfajökuls á Hnappavöllum á milli Skaftafells og Jökulsárlóns. Á hótelinu eru 104 herbergi og var það áskorun að koma fyrir svo stórri byggingu mitt í ósnertri náttúrunni. Form hússins kallast á við hlíðarnar í kring, en það er brotið upp í smærri einingar og útveggjum er hallað, sem tilvísun í fjöllin.

Byggingarfræðileg nálgun er áhugaverð, en fyrsta og önnur hæð eru byggðar úr krosslímdum timbureiningum, sem byggðar eru upp ofan á steyptan kjallara. Byggingin er klædd svartri timburklæðningu og með torfþak og vísar þannig í gömlu torfbæina. Að mati dómnefndar fellur byggingin vel að landslaginu í kring og þrátt fyrir stærð er mælikvarði hússins manneskjulegur og í samræmi við umhverfið. Uppbrot í formi og hallandi veggir skapa ákveðna dýnamík. Vistvæni og nálgun í byggingartækni er fersk og samkvæmt nútímakröfum, um leið og svartir útveggir og torfþök vísa í menningararfleifð okkar torfbæina.


Saxhóll, viðkomu- og útsýnisstaður hannaður af Landslag

Viðkomu- og útsýnisstaðurinn Saxhóll í Þjóðgarðinum Snæfellsjökli er vinsæll á meðal ferðamanna. Hóllinn er 45 metra hár keilulaga gígur með lausu lítt grónu gjalli í hlíðum. Með sívaxandi fjölda gesta hafði myndast ákveðið spor í spírallaga sneiðingu upp hólinn og var tekið að skríða til og breikka.

Landslagsarkitektastofan Landslag var fengin til þess að hanna tröppustíg í þeim tilgangi að tryggja öryggi gesta og um leið takmarka svæði á hólnum sem verður fyrir ágangi. Tröppustígurinn er úr svörtu stáli sem ryðgaði fljótlega og samlagaðist litbrigðum hólsins. Stígurinn er lagður eftir sárinu sem komið var í hólinn og er settur saman úr tveimur bogum sem mætast á hvíldarpalli á miðri leið.

Inngripið er ekki mikið en það er sterkt í einfaldleika sínum. Það þjónar tilgangi sínum vel og fellur einstaklega vel og ljóðrænt inn í landslagið. Tröppustígurinn er gott dæmi um það hvernig leysa má aðgengi að áningarstöðum ferðamanna á einfaldan og fágaðan hátt en um leið bera virðingu fyrir náttúrunni.


Fangelsið Hólmsheiði, hannað af Arkís

Árið 2012 stóð innanríkisráðuneytið fyrir samkeppni um Fangelsið á Hólmsheiði. Byggingin sem var hönnuð af Arkís var tekin í notkun 2016 og að mati dómnefndar fellur hún vel að aðstæðum og umhverfinu á Hólmsheiði. Byggingin hefur þrátt fyrir allt manneskjulegt yfirbragð og á efnisval utanhúss stóran þátt í því. Ryðguð járnklæðningin er hlýleg og í samspili við gráa steypuna virkar hún mjög vel í landslaginu. Innra skipulag er mjög einfalt og skýrt en getur jafnframt aðlagast þörfum á hverjum tíma.

Eitt helsta karaktereinkenni byggingarinnar eru gluggar fangaklefanna sem stingast út úr meginforminu og stýra innsýni og útsýni úr klefunum á einfaldan hátt, auk þess sem birtan flæðir þægilega inn í klefana sem gerir það að verkum að þeir verða bjartir og vistlegir. Allur frágangur er einfaldur en vandaður. Byggingin er ljós yfirlitum en litir notaðir til að skapa stemningu í einstaka rýmum, til dæmis í eldhúsum, sem gerir bygginguna heimilislegri. Mikið er lagt upp úr sveigjanleika í notkun til að koma til móts við ólíkar þarfir fanga, til dæmis er hægt að stýra innsýn á milli deilda en allar deildir hafa aðgang að inngörðum. Þetta veitir mikil gæði inn í bygginguna hvort heldur það er að sumri eða vetri til.


Skrifstofur og verksmiðja Alvogen, hannaðar af PKdM arkitektum

Nýbygging líftæknifyrirtækisins Alvotech er hluti af skipulagi Vísindagarða í Vatnsmýrinni. Byggingin er þrískipt með inndregna efstu hæð. Norðurálman hýsir skrifstofur fyrir almennan rekstur. Fyrir miðju er framleiðsluhlutinn þar sem fer fram þróun og síðar einnig vinnsla. Suðurálman hýsir vinnurými fyrir rannsóknarteymin sem vinna í framleiðsluhlutanum. Undir öllu er kjallari með tæknirýmum og bílageymslu. Anddyrið er rúmgott þriggja hæða rými sem tengir saman öll skrifstofurými norðanmegin. Í millibilinu milli norðurálmu og framleiðsluhluta er hringstigi sem er er fókuspunktur hússins og er vel sýnilegur að utan.

Listaverk leika stórt hlutverk í upplifun á rýmum utan sem innan. Við norðurenda lóðar er listaverk eftir Sigurð Guðmundsson og stórt vegglistaverk eftir Erró skreytir matsalinn á efstu hæð. Vinnurými eru björt, opin og mjög vel skipulögð. Efnisval og litaval er einfalt en þar sem ólík efni eða litir mætast er gaumur gefinn að bestu lausn hverju sinni. Vegna starfseminnar er þó nokkuð af lokuðum flötum á úthliðum. Markvisst er unnið að því að brjóta upp skalann með opnum og lokuðum flötum, lóðréttum og láréttum línum í forsteyptum einingum. Það gefur byggingunni manneskjulegan mælikvarða og aðlagar hana að næsta nágrenni. Aðalinngangur er gerður sýnilegri með lóðréttu líparíti. Deili, utan og innan, eru úthugsuð og fáguð í sínum einfaldleika. Að mati dómnefndar er byggingin einstaklega fallegt dæmi um velheppnaða samvinnu og metnað allra þeirra aðila sem komu að verkinu, bæði á hönnunar- og framkvæmdatíma, til að skila af sér vönduðu og fagmannlegu handverki.


Áningarstaður við Stórurð í Dyrfjöllum hannaður af Zero Impact Strategies

Árið 2013 stóðu sveitarfélögin Fljótsdalshérað og Borgarfjarðarhreppur í samstarfi við Arkitektafélag Íslands fyrir hugmyndasamkeppni um bætta aðstöðu fyrir ferðafólk í Stórurð og næsta nágrenni Dyrfjalla. Að mati dómnefndar hefur þetta ferli skilað einstaklega vel heppnaðri niðurstöðu og dæmi um hvað einfaldleikinn getur verið sterkur.

Byggingin hefur fengið sterk karaktereinkenni sem tengjast formi Dyrfjalla en er á sama tíma mjög hógvær og einföld bygging sem þjónar hlutverki sínu í mikilli sátt við landslagið í kring. Byggingin er samsett úr tveimur aðskildum smáhýsum þar sem annað hýsir salerni en hitt er upplýsinga- og útsýnisrými. Á milli smáhýsanna myndast svo skarðið sem skírskotar í form Dyrfjalla. Lögð var mikil áhersla á að byggingin væri umhverfisvæn og þyrfti lítið viðhald og endurspeglast þetta í einföldu efnisvali. Útveggir eru úr forsteyptum einingum með svörtu basaltyfirborði frá Egilsstöðum og timburklæðningin í millirýminu er lerki frá Hallormsstaðarskógi.

Dómnefnd: Aðalheiður Atladóttir (formaður), Laufey Agnarsdóttir og Þórarinn Malmquist.

Hver á að hljóta lesendaverðlaun dv.is – Taktu þátt í kosningunni!

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Fyrir 2 klukkutímum

Lögreglan á Vestfjörðum lýsir eftir Áslaugu

Lögreglan á Vestfjörðum lýsir eftir Áslaugu
433Sport
Fyrir 2 klukkutímum

Komumst að því á morgun hverjir andstæðingarnir verða í undankeppni HM 2026

Komumst að því á morgun hverjir andstæðingarnir verða í undankeppni HM 2026
433Sport
Fyrir 3 klukkutímum

„Þetta var kalt, sérstaklega með vindinn og rigninguna í smettið“

„Þetta var kalt, sérstaklega með vindinn og rigninguna í smettið“
Fréttir
Fyrir 3 klukkutímum

Útför Sólons fór fram í dag – „Mikið er ég reið og sorgmædd yfir aðgerðarleysi Icelandair í kjölfar andláts þíns“

Útför Sólons fór fram í dag – „Mikið er ég reið og sorgmædd yfir aðgerðarleysi Icelandair í kjölfar andláts þíns“
433Sport
Fyrir 5 klukkutímum

Eyðir X síðu sinni nú þegar rannsókn er hafin á færslum hans um gyðinga

Eyðir X síðu sinni nú þegar rannsókn er hafin á færslum hans um gyðinga
433Sport
Fyrir 5 klukkutímum

Real Madrid er að missa trúna

Real Madrid er að missa trúna