Stundum er betra að flýta sér hægt. Fyrir jólin 2017 boðaði lögreglan mjög óvænt til blaðamannafundar og greindi frá aðgerðum í því sem átti að vera stærsta mál skipulagðrar glæpastarfsemi í Íslandssögunni og með tengsl til tveggja annarra landa. Allir stórbokkar lögreglunnar stilltu sér upp, og nokkrir erlendir upp á skrautið einnig. Voru þeir búnir að handtaka Al Capone? Eða Pablo Escobar? Þvílíkar hetjur.
Tilkynnt var um handtökur, gæsluvarðhaldsúrskurði, haldlagðar eignir, fíkniefni, peningaþvætti, fjársvik og svo mætti lengi telja. Upp var búið að ræta umsvifamikla erlenda mafíu sem hafði hreiðrað um sig á litla Íslandi. Þetta var stór dagur fyrir lögregluna.
Síðan þá hefur töluverður vindur lekið úr blöðrunni og lögreglan hefur sjálfsagt viljað gleyma umræddum blaðamannafundi. En þar sem búið var að blása svo kröftuglega í lúðrana var ekki aftur snúið. Það yrði of mikil niðurlæging og auðvelt að rifja upp fundinn og spyrja lögregluna út í framgang málsins.
Fleiri voru dregnir inn í málið, fólk með einhverja tengingu við meinta höfuðpaura og makar þeirra. Á einhverjum tímapunkti höfðu 28 einstaklingar stöðu grunaðs manns. Gengið var hart fram, húsleit gerð, farbönn sett á, bókhald fjarlægt, símahleranir framkvæmdar og svo framvegis. Dómstólar hafa slegið á puttana á lögreglunni fyrir harðar aðgerðir hennar.
Eftir níu mánaða meðgöngu vildi ráðuneytið framselja aðalbokkann í málinu til Póllands, þrátt fyrir að stærsti hluti brotanna hafi átt að vera framkvæmdur hér á landi. Þetta hefði verið auðveld leið til að losna við stóran hluta málsins. En dómstólar slógu aftur á puttana og stöðvuðu framsalið.
Komið hefur í ljós að stór hluti eignanna sem lagt var hald á voru íbúðarhús með háum áhvílandi lánum. Hvar fíkniefnin eru getur enginn sagt til um. Verslanirnar þar sem peningaþvotturinn átti að hafa farið fram eru enn þá opnar og enn hægt að kaupa ljómandi góðar súrar gúrkur þar.
Málið er nú komið inn til ákærusviðs lögreglunnar og þar verður tekin ákvörðun um næstu skref. Ekki er loku fyrir það skotið að einhverjir verði ákærðir og jafnvel dæmdir. Tíminn verður að leiða það í ljós. En ljóst er að málið gaf aldrei tilefni til hins mikla trumbusláttar í byrjun. Þá hefur fólk sætt rannsókn og verið bendlað við málið lengi með tilheyrandi kostnaði, óþægindum, andlegu álagi og skömm. Einnig læðist óneitanlega að manni sá grunur að ekki hefði verið farið eins að ef hinir meintu höfuðpaurar væru ekki útlendingar.
Þá er ótalinn kostnaður lögreglunnar sjálfrar vegna málsins. Stórt teymi hefur unnið að málinu lengi en málið kom fyrst inn á borð lögreglunnar árið 2016. Auðvitað á ekki að telja krónur eins og Jóakim Aðalönd gerir þegar um alvarleg sakamál er að ræða. En þegar öll kurl verða komin til grafar er líklegt að umfang rannsóknarinnar og aðgerðir hafi ekki hæft efninu. Sérstaklega er það blóðugt í ljósi þess að allir vita að lögreglan er fjársvelt, laun lág og aðbúnaður hennar landinu ekki til sóma.