Frosti segir að Hildur hafi unnið verðlaun fyrir besta popplagið af því hún er kona
„Þetta er alveg ágætt lag, það er ekki mjög merkileg lagasmíð en það er vel pródúserað lag,“ sagði Frosta Logason um lagið „I“ll walk with you“ í úrvarpsþættinum Harmageddon í gær. Lagið var valið popplag ársins á íslensku tónlistarverðlaununum á dögunum en Frosti ýjar að því að tónlistarkonan Hildur Kristín Stefánsdóttir hafi unnið verðlaunin eingöngu vegna þess að hún er kona. Hann telur upp önnur lög í þessum flokki sem honum þykja betri og segir svo „Lyktin af þessu er sú að Hildur hafi unnið þetta bara af því hún er kona,“
Hildur Kristín svarar þessum ummælum á Facebook í dag. „Það er grátbroslegt að á fimmtudegi vinni ég Íslensku Tónlistarverðlaunin fyrir popplag ársins og í ræðu minni tileinki ég verðlaunin konum og stelpum í tónlist því að þær fái ekki plássið og heiðurinn sem þær eiga skilið og það sé mér mikið kappsmál að hvetja ungar stelpur til að þora- en daginn eftir sé ég niðurlægð af karli í útvarpi sem ákveður að þetta sé bara ekki rétt,“ skrifar Hildur og heldur áfram:
„Á þessum sirka 2 mínútum nær hann að ramma inn og sýna öllum sem vilja hlusta algjörlega frábært dæmi um akkúrat það er að viðhorfi svo margra, hvað er að tónlistarbransanum og þær hindranir og viðhorf sem stelpur í tónlist þurf að feisa daglega. Og þegar ég segi daglega er ég ekki að ýkja, tónlistarvinkonur mínar geta allar deilt svipuðum sögum í tugatali. Svo heldur Frosti áfram og gerir lítið úr reynsluheimi allra kvenna í tónlist, sem hann á einhvern undraverðan hátt virðist vita allt betur um, verandi miðaldra karlmaður.“
Frosti segir í þættinum að það hafi komið glögglega fram í Kastljós þætti áður en verðlaunin voru afhent að íslensku tónlistarverðlaunin séu að verða „fórnarlamb þessarar pc-væðingar. Þá voru Arnar Eggert Thoroddsen og Védís Hervör að spjalla um íslensku tónlistarverðlaunin og Védís er frá Kíton, sem er hagsmunafélag kvenna í tónlist. Bergsveinn Sigurðson sem tók viðtalið er líka í þessu réttrtúnaðarriddaraliði, og þau voru þarna að tala um hvað það væri hrikalegt fyrir konur að vera í tónlist á Íslandi og þær væru svo mikil fórnarlömb“ segir Frosti og bætir við með hæðnistón „Arnar Eggert tók undir og sagði að tónlistarbransinn hyglaði karlmönnum“ þetta sagði Frosti að væri „algjört crap“ og benti því til staðfestingar á að farsælasti íslenski tónlistarmaðurinn, Björk Guðmundsdóttir, væri kona. Frosti sagði einnig að engin íslensk tónlistarkona hefði náð eitthvað lengra væri hún með typpi.
„Engin íslensk tónlistarkona hefði náð eitthvað lengra væri hún með typpi“
Hildur Kristín gagnrýir þessi ummæli Frosta: „Ég vitna nú bara í Björk sjálfa sem hefur ítrekað tjáð sig um allar hindranirnar sem konur þurfa að klífa og hún á eimmitt þessa frábæru og lýsandi setningu: „Everything that a guy says once, you have to say five times.““
„Fyrir mér er þetta ótrúlega einfalt,“ skrifar Hildur. „Frosti ber mjög augljóslega enga virðingu fyrir tónlistarkonum samkvæmt öllu því sem hann segir í þessum þætti. Það er ekkert hægt að rakka niður konur á ótal vegu og segja svo í næstu setningu – “en jú ég ber sko virðingu fyrir konum.” Í þættinum fer hann einnig út í hvernig konur séu með líffræðilega minni hvöt í að fara í tónlist, séu verri í að koma sér á framfæri og bíðið bara – geti til dæmis aldrei orðið jafn góðir trommarar og karlar.“
Hildur skrifar að hún viti að maður eigi ekki að gefa gaum að svona haturfullum ummælum og hún sé orðin ágæt í því sérstaklega eftir síðustu daga. „Mér er alveg sama hvað hann eða hver annar segir um lögin mín, en þegar hann niðurlægir konur í heild sinni í beinni útsendingu á stórum fjölmiðli er mér ekki sama.“
Hildur lýkur svo pistlinum á þessum orðum: „Svona opinber smánun, karlremba og gamaldags hugsunarháttur meikar algjörlega engann sens árið 2017 og ég læt þetta bara alls ekki viðgangast þegar mitt nafn, kyn og vinna kemur í hlut. Við þurfum að útrýma svona hugsunarhætti og fyrsta skrefið í því er að tala opinskátt um þetta (og kannski deila þessum pistli).
Frosti Logason, mér þætti það eina rétta í stöðunni að þú sendir mér afsökunarbeiðni fyrir þetta niðrandi tal um mig og aðrar tónlistarkonur á opinberum vettvangi, ég vona að þú getir séð hvað þú gerðir rangt og lært vel af þessu.“
Hér að neðan má lesa pistil Hildar í heild sinni.