fbpx
Mánudagur 23.desember 2024
Fókus

Þórarinn í IKEA: „Hef góðan málstað að verja“

Kolbrún Bergþórsdóttir
Föstudaginn 24. mars 2017 09:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Þórarinn Ævarsson, framkvæmdastjóri IKEA, er andlit fyrirtækisins. Hann er einarður talsmaður lágs vöruverðs og hefur ákveðnar skoðanir á því hvers konar starfsmannastefna sé árangursríkust. Kolbrún Bergþórsdóttir hitti Þórarin og margt bar á góma, þar á meðal uppvöxturinn þar sem lúpínan kom mikið við sögu, árin hjá Domino’s koma einnig til tals og og svo vitanlega IKEA þar sem Þórarinn hefur starfað í nær tólf ár.

Blaðamaður spyr Þórarin fyrst um uppvöxt hans. „Ég er fæddur árið 1965 og ólst upp í Kópavogi og á þessum árum ríkti þar efnahagslega séð mikil misskipting. Annars vegar var fólk sem vissi ekki aura sinna tal og bjó í suðurhlíðunum og vesturbænum í Kópavogi og hins vegar fólk eins og fjölskylda mín sem bjó í norðurhlutanum við miklu minni fjárráð. Þetta var hálfgert úthverfi og þarna voru stórar verksmiðjur. Fyrirtækið Málning var við hliðina á heimili foreldra minna og í grennd voru öskuhaugar sem eldar loguðu á. Við krakkarnir vorum endalaust að smíða pramma og skottast í fjörunni. Við nutum mikils frelsis og vorum mjög athafnasöm og orkumikil.“

Varstu bókelskt barn eða varstu bara úti að leika þér?

„Ég var orðinn fluglæs áður en ég byrjaði í skóla og las feikilega mikið, svo að segja allt sem ég komst í, sérstaklega af skáldskap. Þegar ég var sex ára skilaði ég á bókasafnið stórri og þykkri bók, spennusögu úr seinni heimsstyrjöldinni sem hét Elsass-sveitirnar og konan á bókasafninu trúði ekki að ég hefði lesið hana.“

Ég man eftir að hafa heyrt þig segja að þú værir sveitamaður.

„Það er vegna þess að í níu ár var ég í sveit á Frostastöðum í Skagafirði. Það var fjórbýli, fjórar hlöður, fjögur fjárhús, stór jörð og mökkur af duglegu og góðu fólki. Þarna var píanó í stofu og mikið til af góðum bókum. Þarna bjuggu fjórir bræður, einn þeirra var Magnús Gíslason þingmaður sem var kvæntur móðursystur minni og ég var í vist hjá þeim.

Ég fór í sveitina seint í maí og kom heim í byrjun september. Ég var sendur með vörubílstjóra, sat beltislaus í framsætinu með fullorðnum manni sem reykti vindla og ég þekkti ekki neitt. Það tók níu til tíu klukkutíma að keyra norður. Í dag myndi enginn senda sex ára barn með ókunnum manni í langa bílferð upp í sveit, en þetta þótti sjálfsagt á þeim tíma.

Það er ómetanlegt fyrir barn að vera úti í náttúrunni og æ síðan hef ég haldið tryggð við þetta svæði, það hefur verið minn heimavöllur. Ég tel mig vera Skagfirðing.“

Hvernig var skólagangan í barnaskólanum?

„Meðal félaga minna þar voru Árni Páll Árnason, sem var með mér í bekk, og Arnar Guðmundsson, Samfylkingarmaður sem var aðstoðarmaður Katrínar Júlíusdóttur þegar hún var ráðherra. Ég var afar hægrisinnaður á þessum árum og þeir gríðarlega miklir kommar. Það er merkilegt hvað níu og tíu ára strákar geta verið pólitískir og á þessum aldri rifumst mikið um pólitík. Síðan hafa þeir færst til hægri og ég til vinstri. Ég er samt ennþá hægri sinnaður að því leyti að ég hef óbilandi trú á mátt einstaklingsins en að sama skapi vil ég hafa sterkt heilbrigðiskerfi og öflugt menntakerfi.“

Stríð skynseminnar

Þórarinn er einn fjögurra systkina. Faðir hans, Ævar Jóhannsson, er 86 ára gamall og landsþekktur fyrir lúpínuseyði sitt. Þórarinn er spurður um þennan merkilega föður sinn.

„Pabbi er úr Öxnadal í Eyjafirði og var undrabarn, óskaplega vel gefinn. Sem krakki tók hann í sundur bilaðar klukkur og setti saman þannig að þær fóru að ganga á ný. Um það leyti sem hann ætlaði í menntaskóla veiktist hann af berklum sem á þeim tíma var dauðadómur. Skömmu seinna komu lyf við berklum á markað en vegna berklaveikinnar var pabbi aldrei heilsuhraustur.

Pabbi fór að vinna við ljósmyndun og stofnaði fyrirtækið Myndiðn. Honum fannst vont hvað litmyndaframköllun var erfið og flókið fyrirbæri. Hann fann upp aðferð sem er notuð í heiminum í dag til að framkalla lit og fékk fyrir henni einkaleyfi sem kostaði stórfé. Hann veðsetti hús sitt og var í samskiptum við Agfa og Kodak sem voru stærstu fyrirtæki í heimi í ljósmyndagerð og buðu honum smánarupphæð fyrir hugmyndina sem hann þáði ekki. Hann fékk enga fyrirgreiðslu og og missti að lokum einkaleyfið. Skömmu seinna var þessi sama aðferð komin í notkun um allan heim. Pabbi varð ekki milljarðamæringur, sem mér fannst bara gott. Þá væri ég ekki að tala við þig heldur væri einhvers staðar kexruglaður í Kaliforníu. Ég held að það sé vafasöm lukka að fá of mikla peninga, sérstaklega ef þeir koma auðveldlega upp í hendurnar á manni.

Pabbi tók mikið af ljósmyndum í eldgosunum á árunum milli 1960 og 1980, myndaði Heklugos, Surtseyjargos og Vestmannaeyjagosin. Um daginn fann ég bréf sem fóru á milli hans og ritstjóra National Geographic. Pabba var síðan boðin vinna í Háskólanum. Þar sem hann var ómenntaður var búin til fyrir hann staða og heiti, því menn innan skólans áttuðu sig á því hvers mikið séní hann var. Hann vann á Raunvísindastofnun og fékkst við tækjahönnun og fann meðal annars upp tæki sem heitir íssjáin sem er notuð til að mæla þykkt á jöklum.

Pabbi átti í mörgum stríðum og vann þau öll að lokum. Allt voru þetta stríð skynseminnar. Hann var á undan sinni samtíð. Hann varaði við því að silfurfyllingar í tönnum væru stórhættulegar og fyrir vikið varð hann fyrir harðri gagnrýni frá tannlæknum og prófessorum. Á sínum tíma stóð til að flúorblanda vatn á Íslandi og hann var mjög duglegur við að berjast gegn því.

Hann er mannvinur og það var móðir mín, Kristbjörg Þórarinsdóttir, sömuleiðis. Hann hefur alltaf haft mikinn áhuga á óhefðbundnum lækningum.“

Myndin er tekin fyrir nokkrum árum þegar hann tók við umhverfis- og samfélagsverðlaunum Kópavogsbæjar.
Ævar Jóhannsson, faðir Þórarins Myndin er tekin fyrir nokkrum árum þegar hann tók við umhverfis- og samfélagsverðlaunum Kópavogsbæjar.

Hvernig fékk hann hugmyndina að lúpínuseyðinu?

„Hann dreymdi mjög skýran draum þar sem maður kom til hans og sagði honum að taka tilteknar jurtir og sjóða saman í ákveðinn tíma. Það myndi gera gagn. Vinur pabba var með krabbamein á lokastigi og það var ákveðið að prófa seyðið á honum. Hann var að deyja en eins og hendi væri veifað hvarf krabbameinið.

Þetta var byrjunin. Eitt leiddi af öðru og æ fleiri fóru að drekka seyðið. Seyðið virtist styrkja ofnæmiskerfið og fólki fannst því líða betur. Pabbi gaf alltaf seyðið, þáði ekki krónu fyrir, þetta var hugsjónastarf. Þúsundir drukku seyðið á þessum rúmlega 25 árum sem þessi framleiðsla stóð yfir og á endanum voru nokkur hundruð manns sem unnu að þessu með honum og framleiddir voru tugir tonna af seyði á ári. Hann sinnti þessu af mikilli elju þar til hann missti heilsuna.

Alla mína æsku hringdi síminn stöðugt og á öllum tímum dags hringdi dyrabjallan, meira að segja á aðfangadag. Pabbi talaði við hvern einasta mann. Hann hélt mikið bókhald um þetta fólk til að fylgjast með hvernig því reiddi af. Enn er á lífi fólk sem þakkar honum fyrir að hafa bætt líf sitt eða nákominna.“

Trúði pabbi þinn á æðri mátt?

„Mjög. Hann var spíritisti og var í Guðspekifélaginu og Sálarrannsóknarfélaginu. Mamma, sem nú er látin, var úr Hegranesi í Skagafirði sem á að vera ein mesta álfabyggð á landinu. Þegar ég var krakki var talað um huldufólk eins og það væri staðreynd.“

Hvað með þig, trúir þú eða ertu mjög jarðbundinn maður?

„Ég hef alltaf verið efasemdamaður en trúi á almenn kristin gildi sem eru mér mjög hugleikin. Ég trúi líka á karma. Menn geta stjórnað miklu í eigin lífi en þeir sem fara um svíkjandi og prettandi og níðast á fólki uppskera ansi oft eins og þeir sá. Þeir sem eru hreinir og beinir og koma vel fram við aðra uppskera samkvæmt því.“

Að bregðast hratt við

Víkjum að starfsferlinum, það kom mér á óvart þegar ég frétti að þú værir lærður bakari. Af hverju varð það nám fyrir valinu?

„Mér gekk mjög vel í skóla en var gripinn gríðarlegum námsleiða þegar ég lauk gagnfræðaskólagöngu. Mig langaði ekki í menntaskóla og ákvað að fara að gera eitthvað allt annað. Ég fór að vinna sem handlangari í byggingavinnu en fékk lungnabólgu og varð að hætta því. Ég ákvað þá að fara í Iðnskólann og læra til bakara. Ég fann mig algjörlega í því, námsleiðinn hvarf og ég dúxaði. Á námstímanum vann ég nokkuð fyrir Svein heitinn bakara. Þegar ég var 22 ára, nýbúinn að læra, bauð hann mér vinnu sem yfirbakari í nýju bakaríi sínu og þar stjórnaði ég mönnum sem voru helmingi eldri en ég. Þetta var góður skóli og við Sveinn vorum miklir vinir og félagar. Ég vann við þetta í tíu ár alls. Þá var ég kominn í þrot. Vinnan sjálf átti vel við mig en vinnutíminn var ömurlegur og sömuleiðis kjörin. Ég fann líka að það var að fjara undan stéttinni faglega. Bakarar voru byrjaðir að kaupa kleinuhringi, vínarbrauð og annað sem framleitt var í útlöndum, þíða það upp og selja í bakaríum sínum. Það fannst mér skelfilega vond þróun. Ég sá að ég myndi ekki þrífast í þessu starfi til lengdar.

Ég tók atvinnutilboði um að vinna sem verslunarstjóri hjá nýstofnuðum pítsustað á Grensásvegi. Þetta þótti gríðarlegt skref niður á við hjá yfirbakara hjá Sveini bakara. Á Grensásvegi var Bandaríkjamaður sem átti að kenna okkur rétt vinnubrögð. Hann var fyrrverandi hermaður og óskaplega strangur. Ég var 28 ára gamall og hann bar ekki nokkra virðingu fyrir mér og var nokk sama þótt ég væri með meistararéttindi í bakaraiðn. Hann lét mig sannarlega heyra það, fannst ég ekki kunna neitt né vita neitt og dró mig sundur og saman í háði. Það er hann sem kenndi mér að reka fyrirtæki. Það er ekki flóknara að reka pítsustað en húsgagnaverslun eða banka. Hann kenndi mér þá grunnþætti sem skipta máli.“

Hvaða grunnþættir eru þetta?

„Að bregðast hratt við. Hér í IKEA kemur mér ekkert á óvart. Ég þarf ekki að bíða eftir því að fjármálastjórinn minn klári uppgjörið fyrir marsmánuð. Ég veit nákvæmlega síðasta dag marsmánaðar hvernig staðan er. Þegar ég var hjá Sveini bakara var talning einu sinni á ári og síðan ársuppgjör og menn sátu með krosslagða fingur og biðu eftir því að endurskoðandinn kæmi með upplýsingar um hvort það væri hagnaður eða tap. Mörg íslensk fyrirtæki vita ekki nákvæmlega hvernig þau standa. Hversu oft hefur maður ekki heyrt sögur af mönnum sem voru í blússandi rekstri og keyptu sér Range Rover og einbýlishús en rúlluðu svo á hausinn af því þeir vissu ekki betur.

Á hverjum einasta morgni þegar ég mæti í vinnuna byrja ég á því að fara yfir tölu gærdagsins og gef öllum stjórnendum endurgjöf, þar sem ég hrósa eða lasta eftir því sem við á. Ef þú stendur þig illa á mánudegi og ert að gera einhverja vitleysu þá hefurðu strax þriðjudaginn til að bregðast við. Bandaríkjamaðurinn kenndi mér að það þýðir ekkert í miðjum mars að barma sér yfir stöðunni í febrúar.“

Hækkaði laun til að lækka launakostnað

Þórarinn vann hjá Domino’s hér á landi en fór síðan til Danmerkur og var þar í fjögur ár og sá um að koma Domino’s á laggirnar. Hann sneri síðan aftur heim árið 2000. „Ég var kallaður heim í snarhasti, það var mikill uppgangur og mikið að gera hjá Domino’s en um leið var bullandi tap,“ segir hann. „Fyrirtækið hafði stækkað of ört og launakostnaður var alltof hár. Það var verið að brenna laununum í stað þess að hafa færri starfsmenn sem vissu hvað þeir voru að gera. Hugsunin var: Borgum eins lág laun og við getum. Starfsmenn komu inn og fóru út, þetta var eins og strætóstoppistöð.

Ég kom með tillögu til stjórnar, sagði að til að lækka launakostnað þyrftum við að snarhækka laun. Ég náði að selja stjórninni þessa hugmynd og hækkaði laun um 30 prósent. Það fyrsta sem gerist þegar maður hækkar laun um 30 prósent er að þau hækka bara, maður sér engan árangur. Tapið hjá okkur jókst. Það tók sex mánuði að snúa þessu við. Svo allt í einu fór þjónustan að batna af því að komið var til starfa þjálfað fólk. Á fyrsta árinu lækkaði launakostnaður um 20 prósent.“

Það er ekki sjálfgefið að sannfæra heila stjórn um að leiðin til að lækka launakostnað sé að snarhækka laun. Hefurðu svona mikinn sannfæringarkraft?

„Ég var svo heppinn að vera með frábæra stjórnarmenn sem höfðu trú á mér. Ég er bakari, hef enga viðskiptamenntun en ég hef unnið með mönnum sem treysta mér og hafa leyft mér að selja þeim hugmyndir eins og þessa.

Rekstur Domino’s fór að ganga óskaplega vel. Ég var með fjölmargar hugmyndir sem ég hrinti í framkvæmt, eins og að viðskiptavinir fengju sms í símann sinn þegar pítsan var komin í ofninn og Megavikan er barnið mitt.

Undir lokin voru erjur í eigendahópnum, menn vildu fara mismunandi leiðir og ég smitaðist af Hagkaupshugmyndafræðinni. Ég man að það var stöðufundur hjá Domino’s þar sem var fjallað um hvað við gætum gert til að auka hagnaðinn í fyrirtækinu. Ég sagði: Eigum við ekki bara að hækka verðið á pítsunum. Jón Pálmason, sem nú er annar eigandi IKEA, var þá stjórnarmaður í Domino’s og pakkaði mér þvílíkt saman þegar hann benti mér á að það væri ekki boðleg hugsun að hækka verð til að hagnast meira. Ég tók þau orð svo sterkt til mín að síðan hef ég verið þeirrar skoðunar að það að hækka verð sé nokkuð sem maður gerir ekki fyrr en allt annað er fullreynt.“

Af hverju hættirðu hjá Domino’s?

„Ég fór í fæðingarorlof á sama tíma og Baugur keypti fyrirtækið en gerði þeim um leið ljóst að ég myndi ekki vinna fyrir þá. Í mínum huga kom ekki til greina að vinna fyrir Baug, ég hafði fylgst með þessum mönnum og vildi ekki vinna með þeim. Allt sem þeir snertu, til dæmis Hard Rock og Pizza Hut, fór til fjandans. Þeir ráku mig í fæðingarorlofi. Ég fór í mál sem þeir unnu fyrir héraðsdómi en ég fór með málið fyrir Hæstarétt og vann þá þar. Það var í fyrsta sinn sem Baugur tapaði máli í Hæstarétti. Það fyrsta sem þeir gerðu þegar þeir losnuðu við mig var að hækka verð á pítsum.

Þegar þessi staða var komin upp spurði Jón Pálmason mig hvort ég vildi taka við sem framkvæmdastjóri IKEA. Mér leist ekkert á það, vissi ekkert um þennan bransa en Jón fullyrti að starfið hentaði mér. Ég lét til leiðast. Í sumar verða tólf ár síðan ég byrjaði.“

„Ég hef alltaf verið efasemdamaður en trúi á almenn kristin gildi sem eru mér mjög hugleikin.“
Trú „Ég hef alltaf verið efasemdamaður en trúi á almenn kristin gildi sem eru mér mjög hugleikin.“

Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

Breytingar með komu Costco

Hvernig framkvæmdastjóri leitastu við að vera?

„Mitt markmið er að gestir IKEA gangi héðan út með vellíðunartilfinningu. Ég vil að fólk komi aftur og aftur. Hús eins og þetta verða svakalegar grafhvelfingar þegar þau eru tóm. Húsið virkar best þegar þar er kliður og margt fólk.
Ég er mjög heppinn, ég stýri fyrirtæki sem er að bjóða fólki eins ódýran húsbúnað og hægt er. Það er ekki að ástæðulausu að fyrirtækið nýtur velgengni. Bræðurnir tveir sem eiga þetta fyrirtæki eru heiðursmenn með skýra framtíðarsýn. Starfsfólkið er ánægt og því líður vel í vinnunni.“

Hjá Domino’s hækkaðirðu laun, hvað með laun hjá IKEA?

„Hjá IKEA höfum við ítrekað hækkað laun langt umfram kjarasamninga, hvort sem um er að ræða að borga þrettánda mánuðinn eða viðbótarhækkanir. Mér finnst oft að menn séu að borga fólki alltof lágt, eins lágt og þeir komast upp með. Það er rangt. Ef fólkið er ánægt þá vinnur það betur.

Það er of algengt að litið sé á starfsfólk og viðskiptavini sem einnota. Það er stöðugt verið að hugsa um hvernig hægt sé að hámarka daginn í dag í staðinn fyrir að hugsa um velferð starfsfólks og hvernig hægt sé að tryggja að viðskiptavinurinn komi aftur eftir tíu ár, jafn ánægður.“

Hvernig líst þér á komu Costco hingað til lands?

„Fólk er komið með upp í kok af þeim aðilum sem hafa stýrt heild- og smásölumarkaði hér á landi. Ég held að við munum sjá verulegar breytingar með komu Costco. Ég held líka að þónokkur fyrirtæki muni líða undir lok. Costco mun breyta því hvað við borgum fyrir hluti eins og dekk, tölvu og sjónvarp. Ég held að koma Costco sé það besta sem hefur hent íslenskan almenning lengi.

Við getum haft mikil áhrif á það hvernig samfélagi við búum í. Það eru ekki bara stjórnmálamenn sem ákveða það. Það eru allir sem ákveða það, þú með þínum gjörðum og ég með mínum. Neytendur eiga ekki að samþykkja að það sé verið að níðast á þeim.“

„Ég vil að fólkið mitt sjái mig á hverjum degi, ekki bara einstaka sinnum. Ég er ekki merkilegri en aðrir í fyrirtækinu.“
Vinnan „Ég vil að fólkið mitt sjái mig á hverjum degi, ekki bara einstaka sinnum. Ég er ekki merkilegri en aðrir í fyrirtækinu.“

Mynd: DV ehf / Sigtryggur Ari

Þarf ekki að kvíða morgundeginum

Þórarinn er fjögurra barna faðir. „Elsta stelpan er 32 ára gömul og er kennari í Danmörku, mamma hennar er hálf dönsk. Svo á ég þrjú yngri börn, fjögurra og sjö ára stelpur og tólf ára strák með konu minni, Barböru Ösp Ómarsdóttur hjúkrunarfræðingi. Hún er gamall starfsmaður minn úr Domino’s, við höfðum ekki sést í tólf ár þegar við hittumst aftur og smullum saman. Við erum reyndar nýgift, giftum okkur um áramótin á Siglufirði.“

Þú ert andlit IKEA út á við og það er örugglega erill vegna vinnunnar utan vinnutíma. Hvernig hvílirðu þig?

„Ég er mikill matgæðingur og elda á hverjum degi og þá allt frá grunni. Það er þerapía fyrir mig. Ég borða kvöldmat á hverju kvöldi með fjölskyldunni.

Ég er svo lánsamur að ég sef eins og engill. Ég þarf ekki að kvíða morgundeginum. Ég er ekki á flótta undan neinu eða neinum. Ég þarf ekki að kvíða því að hitta reiðan starfsmann, reiða eigendur eða reiða viðskiptavini.

Ég reyni að vinna eins mikið og ég get með fólkinu á gólfinu. Um daginn var ég að baka kleinur með fólkinu í bakaríinu. Hvern einasta morgun geng ég um verslunina og hirði upp rusl. Ég vil að fólkið mitt sjái mig á hverjum degi, ekki bara einstaka sinnum. Ég er ekki merkilegri en aðrir í fyrirtækinu.

Ég bý örugglega við minna stress en margir aðrir í stjórnunarstöðu af því að ég hef góðan málstað að verja. Ég þarf ekki að fara með veggjum.“

Það er ekki hægt að kveðja Þórarin án þess að spyrja um IKEA-jólageitina, en um síðustu jól var kveikt í henni. Verður IKEA-geitin endurreist um næstu jól?

„Ég er mjög ánægður með að þeir sem brenndu hana skuli hafa náðst. Þeir verða dregnir til ábyrgðar. Jólageitin verður stækkuð, ætli við hækkum hana ekki um allavega einn metra. Mér finnst þessi geit óskaplega falleg. Í byrjun var hún stæling á þeirri sænsku og við vorum með ljóskastara á henni. Síðan fékk ég hugljómun: hvað gerist ef maður vefur seríu utan um hana? Hún verður svo miklu fallegri við það. Mér finnst þessi geit vera flottasta jólaskraut á landinu. Hún verður endurreist og fær vonandi að vera í friði.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 2 dögum

Jólakort ársins frá Vilhjálmi og Katrínu

Jólakort ársins frá Vilhjálmi og Katrínu
Fókus
Fyrir 2 dögum

Anna varla eftirspurn vegna áhugasamra kaupenda – Einstakt hús í Kópavogi

Anna varla eftirspurn vegna áhugasamra kaupenda – Einstakt hús í Kópavogi
Fókus
Fyrir 2 dögum

Christina Aguilera fækkaði fötum fyrir 44 ára afmælið

Christina Aguilera fækkaði fötum fyrir 44 ára afmælið
Fókus
Fyrir 3 dögum

Myndir af leikkonunni settu allt á hliðina og nú svarar hún tröllunum fullum hálsi – Málið vekur upp spurningar um kröfur karla til kvenna

Myndir af leikkonunni settu allt á hliðina og nú svarar hún tröllunum fullum hálsi – Málið vekur upp spurningar um kröfur karla til kvenna
Fókus
Fyrir 4 dögum

Jólaflug Play sló í gegn – „Þetta var mikil vinna en allt þess virði“

Jólaflug Play sló í gegn – „Þetta var mikil vinna en allt þess virði“
Fókus
Fyrir 4 dögum

Bogi kaupir á Brúnastöðum

Bogi kaupir á Brúnastöðum