Snjallsmokkahringurinn lítur brátt dagsins ljós – Mun geta greint kynsjúkdóma
Þau tíðindi berast nú frá meginlandi Ameríku að fyrsti snjallsmokkahringurinn hafi litið dagsins ljós. Um er að ræða hring sem dreginn er upp á hnarreistan lim eftir að smokkur hefur verið settur á. Mun hringurinn vera staðsettur við rót limsins á meðan kynlífi stendur.Fyrirtækið sem framleiðir gripinn heitir I-Con og mun hringurinn geta metið frammistöðu notandans í rúminu sem og greint ýmsa kynsjúkdóma.
Þá mun hringurinn mæla ýmsa nytsamlega tölfræði á borð við stærð limsins, breidd, hámarkshraða og að sjálfsögðu hversu lengi eigandi limsins heldur út. Þá mun smokkurinn geta veitt upplýsingar á borð við þann fjölda hitaeininga sem notandinn brenndi á meðan kynlífinu stóð og hvaða stellingar voru í boði þann daginn. Samkvæmt upplýsingum frá framleiðanda mun smokkurinn geta greint hvort að hlutaðeigandi bólfarar séu sýktir af klamydíu eða sárasótt, nema hvort tveggja sé.
Allar upplýsingar munu eingöngu vera aðgengilegar fyrir notanda smokksins en að sjálfsögðu getur viðkomandi dreift þeim á samfélagsmiðla og stært sig af frammistöðunni. Notar I-Con smokkurinn nýjustu nanóflögu- og bluetooth-tækni til þess að senda upplýsingarnar í smáforrit í snjallsíma notandans.
Tækið vekur greinilega athygli því yfir 90.000 manns hafa pantað sér eintak í forsölu en verðið þar er tæplega 8 þúsund krónur. Samkvæmt talsmanni fyrirtækisins er hringurinn í lokaprófunum og er gert ráð fyrir því að hann komi á markað síðar á árinu.