Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, og frú Eliza Reid halda í dag til Winnipeg í Manitoba til að taka þar þátt í aldarafmæli Þjóðræknisfélags Íslendinga í Vesturheimi, Icelandic National League.
Forseti mun flytja hátíðarræðu í tilefni afmælisins og eiga fundi með Janice Filmon, fylkisstjóra Manitoba, Brian Pallister, forsætisráðherra Manitoba, Brian Bowman, borgarstjóra Winnipeg, og forystumönnum Manitobaháskóla þar í borg.
Í ferðinni munu forsetahjónin einnig skoða Mannréttindasafnið í Winnipeg og heimsækja Nýja Ísland, byggðarlagið norður af Winnipeg þar sem margir Íslendingar settust að á 19. öld; þau munu blanda geði við aldraða Vestur-Íslendinga og taka þátt í viðburðum sem tengjast þingi Íslendingafélaga í Vesturheimi.