Ísraelskur maður lenti í slysi síðastliðinn mánudag þegar ljósapallur datt á hann við undirbúning í Eurovision-höllinni í Tel Aviv. Times of Israel greinir frá.
Fuldi Schwartz, 66 ára, var að afferma búnað úr vörubíl á bílastæði hallarinnar þegar ljósapallur á hjólum veltist yfir hann. Fuldi hlaut alvarlega höfuðáverka, brotin rifbein, samfall á lunga og mænuskaða. Hann lést fyrr í dag. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Ichilov spítalanum í Tel Aviv.
Fuldi skilur eftir sig eiginkonu, Dalia, og tvö börn, Erez og May. Erez hafði ýmsar spurningar um öryggi á svæðinu.
„Við kennum engum um á þessu stigi, en hvernig er það mögulegt að á viðburði eins stórum og Eurovision, með svo mikla peninga í spilunum, svo mikla yfirumsjón og öryggi, að eitthvað svona hræðilegt geti samt gerst?“ segir hann við Ynet fréttaveituna.
Lögreglan og starfsfólk velferðarráðuneytisins fóru á vettvang á mánudaginn og hafa komið af stað formlegri rannsókn.
Samkvæmt fyrstu niðurstöðum var meðhöndlun ljósapallsins ekki samkvæmt öryggisreglum.
Skipuleggjendur Eurovision sendu Schwartz fjölskyldunni samúðarkveðjur í yfirlýsingu um atvikið.
„Hugur okkar og samúð fara til fjölskyldu [Fuldi Schwartz]. Forgangur okkar hefur alltaf verið um öryggi og öryggi allra sem koma að Eurovision söngvakeppninni, og eins og reglur segja til um, þá erum við að vinna með yfirvöldum,“ segir í yfirlýsingunni.
Samkvæmt fréttasíðunni Walla, er Fuldi Schwartz tuttugasti og níundi til að láta lífið á vinnusvæði í Ísrael árið 2019.