Valur vill losna við Gary Martin. Þetta staðfesti Ólafur Jóhannesson, þjálfari Vals í samtali við 433.is í dag.
Gary gekk í raðir Vals í janúar og gerði þriggja ára samning. Eftir þrjár umferðir í Pepsi Max-deildinni vill Valur nú losna við framherjann.
,,Ég er búinn að tilkynna honum að hann megi finna sér nýtt félag, Gary er fínn drengur og búinn að standa sig vel. Hann hentar ekki okkar leikstíl,“ sagði Ólafur í samtali við 433.is í dag.
,,Ég segi ekkert meira, Hann hefur staðið sig vel, fínn drengur. Hann hentar okkur leikstíl ekki,“ sagði Ólafur þegar hann var spurður um nánari útskýringu, hann lét Gary vita af þessu í gær, hann geti fundið sér nýtt félag.
Valur leitar að liðsstyrk en liðið hefur byrjað illa í Pepsi Max-deildinni. Liðið er með eitt stig eftir þrjá leiki.
,,Eins og staðan er núna er enginn leikmaður að koma til okkar, við erum að líta í kringum okkur. Við erum á vaktinni núna, þessi gluggi er opinn núna er rosalega erfiður. Maður veit aldrei hvað gerist,“ sagði Ólafur en félagaskiptaglugginn lokar á morgun.
Gary er framherji frá Englandi, hann hefur iðulega raðað inn mörkum á Íslandi. Fyrir ÍA, KR og Víking.
Gary er með tvö mörk í Pepsi Max-deildinni í þremur leikjum, sökum þess kemur ákvörðun Vals mörgum á óvart. Framherjinn gekk í raðir Vals frá Lilleström en hann lék einnig með Lokeren áður en hann kom aftur til Íslands.