fbpx
Fimmtudagur 05.desember 2024

Draugurinn í risinu

Ritstjórn DV
Sunnudaginn 19. maí 2019 18:00

Hús Oesterreich-hjónanna í Milwaukee Dolly geymdi ástmann sinn í risinu um nokkurra ára skeið.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Walburga „Dolly“ Oesterreich var bandarísk húsmóðir og eiginkona vellauðugs textílframleiðanda, Freds Oesterreich. Dolly fæddist árið 1880, en áhöld eru um hvort það var í Þýskalandi eða í Milwaukee í Wisconsin-fylki í Bandaríkjunum.

Hvað sem því líður þá var um hana sagt að hún hefði alltaf verið með karlmann innan seilingar, alla jafna fleiri en einn. Um eiginmann hennar var sagt að hann hefði verið harður nagli, gefinn fyrir sopann og, eins og áður sagði, afar loðinn um lófana. Fred hafði auðgast á höndlun með textílvörur; aðallega kvenfatnaði og þá mestmegnis svuntum.

Otto táldreginn

Dolly og Fred bjuggu fyrst saman í Milwaukee, en fluttu síðar til Los Angeles. Það var í Milwaukee, í kringum 1913, sem Dolly kynntist Otto nokkrum Sanhuber. Otto vann í verksmiðju Freds og sá þar um viðgerðir á saumavélum.

Walburga „Dolly“ Oesterreich
Hafði alltaf karlmann, helst fleiri en einn, innan seilingar.

 

Dolly sá sér leik á borði og ákvað að draga Otto, sem þá var sautján ára, á tálar. Fyrsti leikur Dolly í stöðunni var að hringja í mann sinn, sem þá var í vinnunni og segja að saumavél hennar væri biluð. Þegar Otto kom á heimili hjónanna, grunlaus með öllu, tók Dolly á móti honum íklædd nælonsokkum og silkislopp. Björninn var unninn og það sem síðar varð er lyginni líkast.

Fred kemst að sannleikanum

Innan skamms varð Otto sem leir í höndum Dolly og síðar lýsti hann sjálfum sér sem „kynlífsþræl“ hennar. Þau hittust á laun á nálægu hóteli eða annars staðar. Einnig hittust þau á heimili Dolly og Freds ef svo bar undir.

En tíðar heimsóknir Ottos fóru ekki fram hjá nágrönnum hjónanna sem færðu þær í tal við Fred. Kokkállinn brást hinn versti við og skipaði Otto að halda sig fjarri Dolly þaðan í frá.

Dolly stakk þá upp á því að Otto segði starfi sínu í verksmiðju Freds lausu og flytti inn á heimili þeirra hjóna, með leynd; hann gæti komið sér fyrir uppi í risi og látið lítið fyrir sér fara.

Skrifar í frístundum

Það fannst Otto þjóðráð því ekki aðeins yrði hann nær ástkonu sinni heldur fengi hann að auki tækifæri og tíma til að láta draum sinn um að skrifa glæpareyfara rætast.

Við tók daglegt líf. Otto sinnti heimilisverkum og skyldum sínum gagnvart húsmóðurinni. Hann fékk matarleifar úr eldhúsinu. Í „frítíma“ sínum var hann í næði í risinu, las reyfara og skrifaði sjálfur ævintýrasögur þar sem losti og rómantík léku stórt hlutverk. Otto tókst meira að segja að selja tímaritum einhverjar sagna sinna, en það er önnur saga.

Hjónin flytja og Otto með

Tilvist Ottos á heimilinu fór fullkomlega fram hjá Fred þótt stundum hafi litlu munað að hann kæmist að blekkingunni. Árið 1918 fluttu Oesterreich-hjónin til Los Angeles. Dolly hafði hugsað fyrir öllu og sent Otto þangað á undan og skyldi hann bíða komu þeirra.

Fred Oesterreich
Hafði ekki hugmynd um „leigjandann“ í risinu.

Dolly hafði fengið að ráða hvaða hús hjónin myndu fjárfesta í og valdi eitt með háalofti. Eins fljótt og auðið var flutti Otto inn á háaloftið, með leynd að sjálfsögðu, og samband hans og Dolly tók á sig fyrri mynd.

Skothvellir síðla kvölds

Vindur nú sögunni fram til ársins 1922. Síðla kvölds 22. ágúst barst ómur af hávaðarifrildi upp í risið til Ottos. Hjónin áttu það til að rífast en í þetta skipti virtist sem eitthvað meira væri í uppsiglingu. Otto heyrði að rifrildið breyttist í líkamleg átök og leist ekki á blikuna.

Otto náði í tvær litlar skammbyssur og rauk niður ástkonu sinni til bjargar. Án efa hefur Fred orðið hvumsa að sjá þarna kominn gamlan starfsmann sem átti að heyra sögunni til, eftir að hafa verið sagt að halda krumlunum fjarri frú Oesterreich. Eiginmaðurinn og ástmaðurinn tókust á og þegar upp var staðið hafði Fred verið skotinn þremur skotum, þar af einu í hnakkann.

Logið að lögreglu

Turtildúfurnar ákváðu að setja á svið innbrot þjófa og mundi Dolly fullyrða að eiginmaður hennar hefði ekki viljað verða við kröfum þeirra og þeir því skotið hann.

Otto læsti Dolly inni í svefnherbergisskáp og fleygði lyklinum fram á ganginn. Síðan faldi hann rándýrt demantsúr Freds og fór síðan upp í ris og faldi sig.

Otto Sanhuber
Lýsti sér síðar sem kynlífsþræl Dolly.

Nágrannar heyrðu skothvellina og höfðu samband við lögregluna sem fann Dolly liggjandi í hnipri í fataskápnum. Hún virtist vera í öngum sínum.

Lögreglan hafði lítið annað að byggja á en frásögn Dolly, en hafði þó sínar grunsemdir. Skammbyssan sem notuð hafði verið fannst ekki, en kúlan benti til að um litla skammbyssu hefði verið að ræða, afar óalgengt vopn á meðal innbrotsþjófa.

Ástmönnum fjölgar

Leið nú tíminn. Dolly flutti í annað hverfi og kom Otto fyrir í risinu. En Dolly bætti nú um betur því hún stofnaði til sambands við lögfræðinginn sem hafði séð um dánarbúið, Herman S. Shapiro.

Hún gaf Shapiro demantsúr Freds. Shapiro þekkti úrið og Dolly sagðist hafa fundið það undir sófapullu.

Dolly var iðin við kolann því hún bætti þriðja ástmanninum í safn sitt; kaupsýslumanni að nafni Roy H. Klumb. Hún bað hann að gera sér greiða – að losa hana við gamla skammbyssu, ekki ósvipaða þeirri sem notuð var til að bana eiginmanni hennar. Það yrði, sagði hún, vandræðalegt ef lögreglan kæmist á snoðir um hana. Klumb gerði sem hún bað. Nágranna sinn bað Dolly að fela hina skammbyssuna og varð hann við þeirri bón hennar.

Dolly handtekin

Í júlí, 1923, hljóp á snærið hjá lögreglunni. Hún komst á snoðir um að Shapiro gengi með úr Freds, sem átti að hafa verið stolið í innbrotinu. Til að bæta gráu ofan á svart fyrir Dolly þá hafði Klumb, sem hafði fengið reisupassann hjá henni, upplýst lögregluna um að hann hefði, að ósk Dolly, hent einni skammbyssu af tveimur sem hún átti.

Lögreglan fann skammbyssuna í tjörupytt sem Klumb hafði hent henni í. Málið komst aftur á síður dagblaðanna og áður nefndur nágranni kom færandi hendi til lögreglunnar, með hvort tveggja skammbyssu og frásögn.

Dolly var handtekin fyrir morð.

Otto kastað á dyr

Á meðan Dolly var í varðhaldi hafði hún áhyggjur af Otto sínum, sem hírðist allslaus í risi heimilis hennar. Hún bað því Shapiro að færa honum eitthvað matarkyns. Hann og Otto spjölluðu saman og Shapiro komst að áratugar löngu sambandi Ottos og Dolly. Shapiro vísaði Otto umsvifalaust á dyr.

Hús Oesterreich-hjónanna í Milwaukee
Dolly geymdi ástmann sinn í risinu um nokkurra ára skeið.

Meðferð málsins dróst svo mánuðum skipti, en erfiðlega gekk að finna hvort tveggja ástæðu morðsins og frekari sönnunargögn. Einnig var mikil ráðgáta hvernig Dolly gat læst sig sjálf inni í fataskápnum og fleygt lyklinum fram á gang.

Þegar þarna var komið sögu voru báðar skammbyssurnar svo illa farnar og ryðgaðar að ekki var hægt að færa sönnur á að þær hefðu verið notaðar við verknaðinn. Dolly varð svo veik að henni var vart hugað líf og að lokum voru ákærur felldar niður vegna skorts á sönnunargögnum.

Draugurinn í risinu

Shapiro og Dolly voru áfram elskendur og hann flutti að lokum inn á heimili hennar. Þar bjuggu þau saman í um sjö ár og var samband þeirra frekar róstusamt.

Otto Sanhuber fór til Kanada, kvæntist þar konu og bjó þar um skeið. Síðar sneri hann aftur til Los Angeles. Um svipað leyti, árið 1930, sá Shapiro sitt óvænna, í kjölfar alvarlegrar deilu hans og Dolly, og sagði skilið við hana. Hann upplýsti lögregluna um tilvist Ottos Sanhuber og voru þau bæði handtekin. Í blöðum þess tíma fékk Otto viðurnefnið „draugurinn í risinu“.

Málalok

Í þetta sinn var Dolly ákærð fyrir samsæri um að fremja morð og Otto ákærður fyrir morð. Niðurstaða kviðdóms var að Otto væri sekur um morð en málið var fyrnt og Otto gat aftur um frjálst höfuð strokið.

Í aðskildum réttarhöldum yfir Dolly kom klofinn kviðdómur henni til bjargar. Þar sem engin frekari sönnunargögn höfðu fundist var að lokum fallið frá frekari kærum og málum á hendur Dolly.

Af Otto Sanhuber spurðist ekkert meir og Dolly hafði sennilega lært sína lexíu því hún bjó með einum og sama manninum næstu þrjá áratugi. Walburga „Dolly“ Oesterreich safnaðist til feðra sinna árið 1961.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

433Sport
Fyrir 5 klukkutímum

Segja að Real sé hætt við að fá Trent í janúar

Segja að Real sé hætt við að fá Trent í janúar
433Sport
Fyrir 6 klukkutímum

Forsetinn um Salah: ,,Þessar sögusagnir eru ekki réttar“

Forsetinn um Salah: ,,Þessar sögusagnir eru ekki réttar“
Fréttir
Fyrir 7 klukkutímum

Skýrari mynd dregin upp af andláti hjónanna í Neskaupsstað – Hinn grunaði þakinn blóði við handtöku og alvarlega veikur

Skýrari mynd dregin upp af andláti hjónanna í Neskaupsstað – Hinn grunaði þakinn blóði við handtöku og alvarlega veikur
Fréttir
Fyrir 7 klukkutímum

Rifust um peningaeyðslu í fíkniefni því jólin eru á næsta leiti

Rifust um peningaeyðslu í fíkniefni því jólin eru á næsta leiti
Fréttir
Fyrir 9 klukkutímum

Björn: Ekki endilega best að minnka greiðslubyrðina þegar vextir lækka – Svona geturðu stytt lánið um allt að helming

Björn: Ekki endilega best að minnka greiðslubyrðina þegar vextir lækka – Svona geturðu stytt lánið um allt að helming
433Sport
Fyrir 10 klukkutímum

Hvetur félag sitt til að sækja eina af hetjum Spánverja

Hvetur félag sitt til að sækja eina af hetjum Spánverja
433Sport
Fyrir 11 klukkutímum

Neikvæðu fréttirnar um hann halda áfram – Rifust heiftarlega í hálfleik

Neikvæðu fréttirnar um hann halda áfram – Rifust heiftarlega í hálfleik
Fréttir
Fyrir 11 klukkutímum

Á Reykjavíkurborg að taka upp viðmiðunarverð á veitingastöðum?

Á Reykjavíkurborg að taka upp viðmiðunarverð á veitingastöðum?