Þingmenn hafa verið önnum kafnir við að auka trú og traust á þingið undanfarna mánuði. Svo mjög að nauðsynlegt þótti að stofna sérstaka siðanefnd til að yfirfara orð og gjörðir þeirra. Siðanefndin fundaði í gær, fimmtudag, og það voru mörg mál á dagskrá.
Fyrst ber að nefna mál ábótanna á Klaustri, sem hafa passað vel upp á að halda málinu í sviðsljósinu, enda er góð þráhyggja gulli betri. Þá má ekki gleyma máli Ágústs Ólafs Ágússonar, þingmanns Samfylkingar, sem sakaður er um kynferðislega áreitni.
Loks var á dagskrá siðanefndar ógleymanleg deila Ásmundar Friðrikssonar þingmanns Sjálfstæðisflokksins og Pírara um akstursgreiðslur. Ásmundur krafðist þess að ummæli þeirra Björns Leví Gunnarssonar og Þórhildar Sunnu Ævarsdóttur í sinn garð yrðu skoðuð, enda væri þar um ærumeiðingar að ræða.
Jón Kristjánsson, fyrrverandi þingmaður Framsóknarflokksins, stýrði fundi siðanefndar í gær sem eflaust var fjörugur og upplýsandi.