Eurovision-keppnin hefst formlega 14. maí næstkomandi – Ýmsir keppendur eiga íslenska tvífara.
Dúettinn Sisters syngur framlag Þjóðverja í ár, en lagið heitir einmitt Sisters. Dúettinn skipa þær Laurita Spinelli og Carlotta Truman. Þær eru þó ekki systur í raun og veru, en sú síðarnefnda er sláandi lík leikkonunni Tinnu Lind Gunnarsdóttur, sem nú starfar sem verkefnastjóri hjá Þjóðleikhúsinu. Dúettinum er hins vegar spáð frekar slöku gengi í keppninni í ár, en kemst sjálfkrafa í úrslit þar sem Þýskaland er eitt af stóru löndunum fimm sem setja hvað mest fjármagn í Eurovision.
Georgíska-gríska söngkonan Tamta er fulltrúi Kýpur í ár, en lagið hennar Replay hefur vakið talsverða lukku meðal Eurovision-aðdáenda. Er það spá veðbanka að Tamta lendi í topp tíu í keppninni, þótt lagið sé ansi líkt kýpverska laginu í fyrra, Fuego. Aktívistinn og söngkonan Sólborg Guðbrandsdóttir er ekkert eðlilega lík Tömtu og mætti ætla að þær væru systur.
Anna Odobescu frá Moldóvíu syngur ballöðuna Stay í keppninni, en henni er spáð einu af neðstu sætunum. Anna getur huggað sig við það að hún á hæfileikaríkan tvífara á Íslandi í leikkonunni Kristínu Leu, sem hefur til að mynda leikið í myndunum Vonarstræti og Lof mér að falla.
Sabine Žuga er annar helmingur lettneska dúettsins Carousel sem flytur lagið That Night í Eurovision, en laginu er spáð arfaslöku gengi. Sabine þessi er ansi lík íslensku fegurðardrottningunni og áhrifavaldinum Önnu Orlowsku. Ekki leiðum að líkjast. Fjarskyld frænka kannski?
Albanska flytjandanum Jonida Maliqi er ekki spáð neitt sérstöku gengi í Eurovision með lagið Ktheju Tokës. Jonida þessi er afar þekkt í heimalandinu, ekki aðeins sem söngkona heldur sjónvarpsstjarna, mannvinur, tískutákn og frumkvöðull. Hörkudugleg sem sagt, eins og íslenskur tvífari hennar, Svava Sigbertsdóttir. Svava er konan á bak við æfingakerfið The Viking Method og hefur þjálfað margar skærar, erlendar stjörnur.
Zena er fulltrúi Hvíta-Rússlands með lagið Like It, en veðbankar hafa ekki mikla trúa á hinni ungu og efnilegu Zenu, sem er aðeins sextán ára. Hún á eilítið eldri tvífara á Íslandi sem heitir Helga Gabríela sem er einstaklega hæfileikaríkur kokkur.